Sport

Ferguson segir peninga ekki allt

Framkvæmdastjóri Manchester United, Sir Alex Ferguson, lætur ekki sitt eftir liggja í sálfræðiorrustunum frekar en venjulega. Hann skýtur nett á nýráðinn framkvæmdastjóra Chelsea, Jose Mourinho, en flestir muna eftir munnlegum átökum þeirra þegar Portó sló United út úr meistaradeild Evrópu í vetur en Mourinho stýrði einmitt Portó til sigurs í þeirri keppni. "Peningar eru ekki málið. Að velja réttu leikmennina er það hins vegar," lét Ferguson hafa eftir sér og hann telur að allir milljarðarnir hans Romans Abramovich muni ekki sjálfkrafa tryggja Chelsea titla: "Næsta keppnistímabil gæti orðið mjög athyglisvert því bæði Chelsea og Liverpool eru með nýja framkvæmdastjóra og við Arsene Wenger erum eiginlega orðnir gömlu kallarnir í deildinni. Ég sé fyrir mér að Tottenham taki miklum framförum og sama má segja um okkur. Við ætlum okkur stærri hluti en á síðasta tímabili og ég hygg að Arsenal, Chelsea og Liverpool komi til með að slást við okkur um stóru titlana," sagði Sir Alex Ferguson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×