Innlent

Davíð stjórni með hótunum

Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður, segir Davíð Oddsson, forsætisráðherra, stjórna með hótunum og að eftir höfðinu dansi limirnir. Ragnar var í morgunþætti Arnþrúðar Karlsdóttur á Bylgjunni spurður álits á þeim ummælum Davíðs Oddssonar varðandi lögfræðiálit um að framlagning nýs fjölmiðlafrumvarps færi í bága við stjórnarskrá, að ekkert yrði gert með það þótt einhver fengi lögfræðing til að segja einhverja vitleysu. Hann segir Davíð oft hafa haft uppi svipuð ummæli opinberlega og þá hafi bæði stjórnmálamenn og fréttmenn skýrt það með skapgerðarbrestum. Þessu er Ragnar ósammála heldur segir slík ummæli fyrst og fremst vera skilaboð og hótanir. Með þeim segi Davíð að þeir sem hafi aðrar skoðanir en hann og hans ráðherrar í ríkisstjórn og láti þær uppi fái að finna fyrir því. Þeir muni þá ekki hafa framgang í stjórnsýslu eða dómarastétt og lögmenn muni ekki fá aðgang að störfum fyrir ríkisvaldið eða fyrirtækjum ríkisvaldsins. Ragnar Aðalsteinsson segir að stjórnunarstíll af þessu tagi smiti niður á við og gegnsýri stjórnkerfið. Hann vildi ekki nefna bein dæmi um þá, sem sætt hefðu hótunum af þeim toga sem hann nefnir, en sagðist þekkja þau mörg eftir fjörutíu ára störf sem lögmaður, en væri bundinn trúnaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×