Erlent

Neyðarlög gegn vígamönnum

Íraska bráðabirgðastjórnin hefur sett öryggislög sem veita henni víðtækar heimildir til að berjast gegn uppreisnarmönnum og koma á röð og reglu innan landamæra landsins. "Líf írasks fólks er í hættu, þeim stafar ógn af illum öflum, sveitum hryðjuverkamanna," sagði Bakhityar Amin, mannréttindaráðherra í írösku stjórninni. Hann líkti írösku öryggislögunum við Þjóðræknislögin bandarísku sem voru sett í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september og veittu stjórnvöldum víðtækar heimildir til að berjast gegn hryðjuverkamönnum. Þau hafa verið gagnrýnd fyrir að ganga of nærri mannréttindum fólks. Öryggislögin veita Iyad Allawi forsætisráðherra rétt til að fyrirskipa útgöngubann á ákveðnum svæðum að fengnu einróma samþykki stjórnarinnar. Hann má einnig leyfa að svæði verði girt af, húsleitir gerðar og vopnaðir einstaklingar teknir í varðhald. Að auki getur hann skipað borgaralega eða hernaðarlega yfirmenn til að fara með völd á ákveðnum svæðum. Heimild dómstóls þarf þó áður en gripið verður til hvers úrræðis fyrir sig. Lögin veita stjórnvöldum heimild til að setja herlög í gildi. Sú heimild takmarkast þó við að þau verði ekki í gildi lengur en þann tíma sem átökin standa yfir sem eru kveikjan að herlögunum og aldrei meira en í 60 daga. "Við gerum okkur grein fyrir að þessi lög takmarka nokkuð réttindi fólks en það er fjöldi varnagla í þeim," sagði Malik Dohan al-Hassan dómsmálaráðherra. "Við höfum reynt að tryggja hvort tveggja, réttlæti og mannréttindi," sagði hann og bætti við að lögin væru nauðsynleg svo hægt væri að berjast gegn uppreisnarmönnum og hryðjuverkamönnum. Til átaka kom víða í höfuðborginni í gær. Grímuklæddir uppreisnarmenn börðust við íraskar öryggissveitir sem voru studdar bandarískum hermönnum og þyrlum. Bardagar stóðu lengi yfir í götunum nærri Píslarvættatorginu. Í það minnsta fjórir létust og 20 særðust í þeim bardögum. Nokkur dráttur varð á því að bráðabirgðastjórnin tilkynnti um neyðarlögin og varð að fresta kynningu þeirra nokkrum sinnum. Varð sá dráttur til að vekja grunsemdir um að ráðherrunum gengi illa að komast að samkomulagi um hvernig neyðarlögin skyldu verða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×