Sport

Baráttustig hjá Sviss gegn Króatíu

Svisslendingar og Króatar gerðu í gær markalaust jafntefli í fyrsta leik B-riðils á Evrópumótinu í Portúgal. Bæði lið hljóta að vera óhress með úrslitin því sigur hefði gefið liðunum gott veganesti fyrir leikina gegn Frökkum og Englendingum í næstu umferð. Svisslendingar þurftu að hafa meira fyrir stiginu því þeir léku einum manni færri síðustu fjörutíu mínútur leiksins. Miðjumaðurinn snjalli Johann Vogel fékk að líta rauða spjaldið á 49. mínútu þegar hann krækti sér í annað gult spjald. Leikurinn var fjörugur í fyrri hálfleik og fengu Króatar nokkur góð færi til að skora. Framherjinn Ivica Olic fékk besta færið en hann skallaði í slána af stuttu færi. Svisslendingar voru jafnvel hættulegri eftir að þeir voru orðnir einum manni færri og sóknarmaðurinn Alexander Frei átti þrumuskot sem Tomislav Butina, markvörður Króata, varði naumlega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×