Sport

Kári þjálfar kvennaliði Gróttu/KR

Kári Garðarsson var fyrradag ráðinn nýr þjálfari kvennaliðs Gróttu/KR í handbolta. Kári, sem er ekki nema 22 ára,tekur við af Alfreð Finnssyni, sem söðlaði um fyrir skömmu og tók við liði ÍBV. Í vetur var hann aðstoðarþjálfari Ágústar Jóhannssonar hjá meistaraflokki Gróttu/KR í karlaflokki, og þá hefur hann sótt fjölda námskeiða um handboltaþjálfun, jafnt innlendis sem erlendis. „Ég er fyllilega reiðubúinn til að takast við þetta starf. Ég hef lært mikið af Ágústi síðastliðið ár, hann hefur mikla reynslu og hefur reynst mér góður lærifaðir,“ sagði Kári, þegar Fréttablaðið ræddi við hann í gær. Grótta/KR hefur misst nokkra lykilmenn í sumar og fór meðal annars Eva Björk Hlöðversdóttir, fyrirliði og markahæsti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð, til ÍBV. Kári segist vera að fara af stað með tveggja til þriggja ára uppbyggingarstarf og að fyrsta skrefið sé að styrkja liðið fyrir næsta tímabil. „Ég er aðeins byrjaður að vinna í leikmannamálum og við þurfum nauðsynlega að stækka hópinn. Þetta er mjög ungt lið og af þeim sökum kannski ekki hægt að búast við miklu af því á næsta ári. En eftir nokkur ár á þetta lið alveg að geta orðið eitt af sterkustu liðum landsins,“ segir Kári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×