Sport

Unndór tekur við ÍS

Unndór Sigurðsson, hefur verið ráðinn þjálfari ÍS í 1. deild kvenna í körfubolta næsta vetur. Unndór á að baki feril sem leikmaður Grindavíkur í úrvalsdeildinni og var þjálfari kvennaliðs Grindavíkur veturinn 2001 til 2002 þar sem liðið vann meðal annars fyrirtækjabikar KKÍ. Unndór tekur við af Ívari Ásgrímssyni sem hefur þjálfað Stúdínur undanfarin þrjú ár en undir hans stjórn náði ÍS-liðið sínum besta árangri í rúmlega áratug og varð meðal annars bikarmeistari 2003. ÍS teflir fram mjög sterku liði næsta vetur, Signý Hermannsdóttir er komin heim úr atvinnumennsku og ÍS hefur einnig endurheimt Þórunni Bjarnadóttur úr námi erlendis. Þá hefur hin 39 ára Hafdís Helgadóttir ákveðið að vera með áfram og hún mun leika sitt 20. tímabil í röð í efstu deild næsta vetur. Svandís Sigurðardóttir hefur hinsvegar skipt yfir í Grindavík. Það er því ljóst að ÍS verður örugglega að berjast um titlana í kvennakörfunni næsta vetur en liðið komst í lokaúrslit Íslandsmótsins í vor en tapaði þar 0-3 fyrir Keflavík sem sló ÍS út úr öllum keppnum vetrarins og vann alla titlana fimm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×