Lífið

Landshornaflakk Súsönnu á Skjánum

"Mig langar að vekja athygli á Íslandi sem ferðamannalandi fyrir Íslendinga," segir Súsanna Svavarsdóttir en hún verður með þátt á dagskrá Skjás eins í sumar sem ber heitið Landshornaflakkarinn. "Ég er búin að ferðast mikið innanlands og vil segja Íslendingum frá því sem landið hefur upp á að bjóða. Sagnaarfur okkar er mér líka hugleikinn og segja má að í þættinum verði fjallað um land, þjóð og sögu." Súsanna vill benda fólki á þá ferðaþjónustu og afþreyingu sem er að finna á landsbyggðinni. "Ég þekki svæðin auðvitað misvel og er því í sambandi við ferðamálafulltrúa á hverjum stað. En afþreyingarmöguleikar landsins eru fjölmargir. Til dæmis er gaman að fara í kajakferð frá Stykkishólmi eða á snjósleða á Arnarstapa. Svo er víða að finna athyglisverð söfn og menningarstofnanir fyrir þá sem vilja vera í rólegheitunum. Veitingastaðirnir úti á landi eru líka alltaf að verða betri og betri og fólk getur gist á tjaldstæðum eða í lúxushótelum eftir því hvort það er í rómantískri ferð með elskunni sinni eða á hringferð með stórfjölskylduna." Súsanna segist hafa fengið hugmyndina að þættinum þegar hún vann á ríkissjónvarpinu fyrir fimm árum. "Þá fannst mér svo mikið fyrirtæki að búa til einn sjónvarpsþátt. Maður fór ekki út úr húsi án þess að það fylgdi manni stór hópur af tæknifólki, hár og smink og útsendingarbíll. Mig langaði til að gera þátt sem væri ódýr í framleiðslu og þvælast um landið án alls umstangs," segir Súsanna en hún vinnur þáttinn með Þórarni Þórðarsyni kvikmyndatökumanni. "Þegar verið er að gera þátt um ferðaþjónustuna og náttúruperlur Íslands skiptir engu máli hvernig hárið á manni er og hvort sminkið er í lagi. Við Þórarinn verðum tvö á þvælingi um landið í allt sumar en hann tekur þáttinn og klippir. Þetta er mikil törn hjá okkur og við vinnum myrkranna á milli til að geta valið úr skemmtilegu efni þegar við komum í bæinn."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.