Innlent

Yfir 10% hækkun á tveim árum

Eftir fyrirhugaða 2,6 prósenta hækkun á orkuverði næstu mánaðamót hefur Orkuveita Reykjavíkur á tveimur árum hækkað raforkuverð um sem nemur 10 prósentum og verð á heitu vatni sem nemur rúmum 13 prósentum, samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Á 10 mánuðum, eða frá því að veðurblíðuhækkun varð í september sl., hefur verð á heitu vatni hækkað um tæp 8,6 prósent og rafmagni um 3,8 prósent. Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitunnar, bendir á að hækkanir á rafmagni séu langt undir verðbólguþróun. "Um heita vatnið gilda svo sérstakar aðstæður. Ef bara er horft til rúmmetraverðs er 8 prósenta hækkun, en sé hins vegar horft til húshitunarkostnaðar er 8 prósenta lækkun," segir hann og bendir á að á föstu verðlagi sé verð á heitu vatni lægra núna heldur en var árið 1994. Guðlaugur Þór Þórðarson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitunnar, segir hækkanir fyrirtækisins nánast orðnar að föstum lið og bendir á að fyrirtækið hafi eitt orkufyrirtækja hækkað verð vegna veðurblíðu. "Núna er vísað í hækkun á byggingarvísitölu en það hefur ekki verið gert til þessa. Það sem er auðvitað að gerast er að glannalegar fjárfestingar á fjarskiptasviði eru farnar að koma niður á fyrirtækinu með beinum hætti þannig að viðskiptavinirnir finna fyrir," segir Guðlaugur Þór. Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, telur fráleitt að tengja hækkunina nú fjárfestingum fyrirtækisins, hvort heldur sem er á fjarskiptasviði eða í virkjunum. "Þessi þvæla í Guðlaugi Þór er engu lík og ótrúlegt hvað hægt er að eltast við þetta. Honum hefur enda ekki tekist að koma hér neinu höggi á starfsemi fyrirtækisins, þrátt fyrir að hafa reynt að leika þennan leik í um fjögur ár og það í gegnum kosningar." Alfreð segir að í gegnum tíðina hafi verið miðað við ýmsar vísitölur við reglubundnar hækkanir Orkuveitunnar. "Nú er bundið í lög að miðað sé við byggingarvísitölu, a.m.k. varðandi raforkuna," segir hann og telur orkugjöld hér almennt svo lág að fyrirtæki hafi ekki efni á að gefa eftir vísitölutengdar hækkanir. Alfreð segist búast við að önnur orkufyrirtæki, s.s. Landsvirkjun, RARIK og Hitaveita Suðurnesja eigi eftir að tilkynna um sambærilegar gjaldsskrárhækkanir í takt við vísitölu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×