Erlent

Öryggisráð Sþ samþykkir ályktun

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um framtíð Íraks samhljóða í gær. Þetta þykir marka þáttaskil en ríkin sem skipa öryggisráðið hafa deilt hart um Íraksmálið. Vonir standa til að þetta þýði að bjartari tímar séu í vændum þar í landi. Deilur hafa staðið um ályktunina svo vikum skiptir en Bandaríkjamenn hafa lagt mikla áherslu á að fá hana samþykkta. Þeir voru einnig reiðubúnir að taka ýmsar kröfur hinna ríkjanna til greina og miðla málum þar til lausn fannst sem allir gátu sætt sig við. Ályktunin veitir nýrri ríkisstjórn Íraks stuðning og sker úr um fullveldi landsins frá og með næstu mánaðamótum. Kveðið er á um kosningar í janúar næstkomandi, að stjórnarskrá verði samin í kjölfarið og svo kosið á ný í janúar árið 2006. Einnig er hlutverk Sameinuðu þjóðanna í uppbyggingarstarfinu skilgreint. Jafnframt er tilgreint að hundrað og sextíu þúsund erlendir hermenn, sem eru við störf í Írak, hafi til þess fullt umboð og leyfi til að grípa til hverra þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru taldar til að halda friðinn. Deilt hafi verið um hlutverk herliðsins, hver hefði vald yfir því og hvort að fullveldi Íraks væru fremur í orði en á borði ef stjórnvöld hefðu ekkert um herliðið að segja. Samkvæmt ályktuninni verður nú komið á fót sérstökum samstarfsstofnunum til að tryggja að Írakar hafi sjálfir eitthvað um málið að segja en forsætisráðherra Íraks, Iyad Allawi, hafði áður greint frá því að stjórnvöld vildu að herliðið yrði áfram í landinu. Að öðrum kosti óttaðist nýja stjórnin allt eins borgarastyrjöld. Þessi niðurstaða þykir bæði góð fyrir Sameinuðu þjóðirnar og Bandaríkjamenn sem vildu fyrir alla muni að ályktunartillaga yrði samþykkt fyrir upphaf fundar leiðtoga stærstu iðnríkja heims sem nú stendur yfir í Savannah í Georgíu-ríki. Nú er búist við því að í dag leggi hann hart að fundarmönnum að gefa eftir skuldir írakska ríkisins sem nema um 120 milljörðum dollara eða tæplega 8600 milljörðum króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×