Sport

Toldo hættur með landsliðinu

Ítalski landsliðsmarkvörðurinn Francesco Toldo hefur tilkynnt að hann hafi leikið sinn síðasta landsleik. Toldo, sem leikur með Inter Milan, var varamarkvörður Ítala á EM í Portúgal en hann sló eftirminnilega í gegn á EM 2000 þar sem Ítalir voru aðeins nokkrum sekúndum frá Evrópumeistaratitlinum. Til að mynda varði hann þrjár vítaspyrnur í undanúrslitaleiknum gegn Hollendingum í þeirri keppni. Nú er öldin heldur betur önnur - Ítalir komust ekki áfram úr sínum riðli og Toldo, sem er þrjátíu og tveggja ára gamall, var búinn að missa stöðuna til Gianluigi Buffon - enda finnst honum nú nóg komið: "Ég hefði gjarnan viljað hætta með glæsilegum sigri. Hvað svo sem því líður þá geta þessi vonbrigði nú ekki skyggt á ellefu frábær ár með landsliðinu." Hann sagði ákvörðunina ekki tengjast slælegu gengi Ítala á EM: "Ég var búinn að taka þessa ákvörðun fyrir keppnina en vildi ekki tilkynna um hana fyrr - nú mun ég einbeita mér að ferlinum með Inter," sagði Francesco Toldo, sem lungann úr ferli sínum lék með Fiorentina en var seldur til Inter árið 2001 vegna fjárhagsörðugleika Flórensliðsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×