Sport

Leiktíðin endanlega fyrir bí

Slitnað hefur upp úr endurnýjuðum samningaviðræðum milli leikmanna í NHL-íshokkídeildinni og eigenda þeirra félaga sem þar spila. Hefur sem kunnugt er ekkert verið spilað á ísnum vestanhafs í vetur vegna verkfalls leikmanna, sem sættu sig ekki við kröfur eigendanna um að tengja laun þeirra meira við þær tekjur sem félögin hala inn. Tilboð leikmannanna hljóðaði upp á launaskerðingu upp á 25 prósent, sem verður að teljast umtalsvert, en eigendur vilja ekki ganga að samkomulagi nema tryggt sé að einhvers konar launaþak sé í gildi, svipað því og gerist í öðrum íþróttagreinum í Bandaríkjunum. Vilja þeir meina að félögin hafi tapað fé undanfarin ár og heimta að laun leikmanna haldist í hendur við vinsældir greinarinnar en á það vilja leikmenn ekki heyra minnst. Má bóka það með nokkurri vissu að úr þessu verður ekki spilað íshokkí í NHL-deildinni fyrr en í fyrsta lagi í október á næsta ári þegar næsta leiktíð á að hefjast, enda hefði þurft að útkljá málin fyrir janúar ef takast hefði átt að bjarga leiktíðinni sem átti að vera hafin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×