Erlent

Ræninginn talaði norsku

Mikið lið lögreglu rannsakar nú rán á málverkum sem stolið var af Munch safninu í Osló í dag. Málverkin eru margra milljóna virði og eru eftir Edward Munch. Lögregla rannsakar nú bæði safnið sjálft og svo flóttabíl ræningjanna sem fannst stuttu eftir ránið mannlaus. Myndir náðust af ræningjunum tveimur hlaupa út í flóttabílinn sem þriðji maðurinn ók. Þetta kemur fram á norsku vefsíðunni Nettavisen. Lögreglan ber nú saman myndir sem teknar voru í dag við myndir úr öryggisvélum safnsins síðustu daga. Að sögn sjónarvotta var allavega annar ræningjanna vopnaður byssu. Þeir voru báðir grímuklæddir og í dökkum fötum. Talið er að ránið hafi verið vel skipulagt þar sem ræningjarnir gengu hreinlega til verks. Einn þeirra notaði töng til að klippa málverkin af veggjunum. Þá þykir ljóst að annar maðurinn hafi talað norsku. Stjórnandi safnsins sagði í viðtali við Nettavisen að hann væri hræddur um að málverkin eyðilegðust við það að vera tekin úr ramma sínum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×