Sport

Seinheppni í sóknarleiknum

Víkingar sitja í neðsta sæti Landsbankadeildar karla í knattspyrnu með aðeins eitt stig út úr fyrstu sex leikjum sínum. Þriðjungur af mótinu er búinn en samt eru Víkingar að flestra mati komnir með annan fótinn niður í 1. deildina á ný. Það hrífast samt örugglega flestir af baráttunni, liðsheildinni og dugnaðinum hjá leikmönnum Víkingsliðsins en fótboltinn snýst eftir allt saman um það að skora mörk og það er það sem situr á hakanum hjá Víkingum. Það er ekki nóg fyrir Víkinga að hafa náð næstflestum skotum á mark mótherjanna af liðunum tíu í Landsbankadeildinni eða að hafa náð fleiri skotum á mark en mótherjar þeirra í fimm síðustu leikjunum. Þeir eiga í einstökum vandræðum með að koma boltanum í mark andstæðinga og seinheppnin virðist engan enda ætla að taka. Leik eftir leik þurfa ungir og óharðnaðir leikmenn liðsins að horfa upp á mótherjana taka öll stigin með sér, oftast afar ósanngjarnt. Þjálfaranum Sigurði Jónssyni er vorkunn, hann hefur unnið gott starf í að móta þetta Víkingslið sem hefur staðið sig að margra mati mun betur en margur spáði fyrir í vor - að því undanskildu að þeir nýta sér ekki dauðafærin sem eru ekki af skornum skammti. Liðið spilar síðan eftir allt saman ágæta vörn og engin vörn hleypir sem dæmi færri skotum á mark sitt en vörn Víkinga. Leikurinn gegn Fram í 1. umferð var vissulega mikið áfall fyrir Víkingsliðið og slæmt tap var ekki það besta sem gat komið fyrir ungt og reynslulítið lið í fyrsta leik. Síðan þá hafa Víkingar leikið fimm leiki í röð þar sem þeir hafa ekki uppskorið þau stig sem þeir hefðu átt skilið. Leikur liðsins hefur verið til mikillar fyrirmyndar, skipulagið gott, liðsheildin sterk og baráttan öðrum liðum til eftirbreytni. En þegar kemur inn í vítateig andstæðinganna er sem örlögin taki völdin, boltinn vill ekki inn. KA-menn náðu sjö færri skotum á mark en unnu samt 0-1 sigur í Víkinni í 2. umferð og Keflavík og Fylkir hafa unnið tvo síðustu leikina gegn þeim þrátt fyrir að Víkingar hafi haft 32-12 yfir í skotum. Andstæðingar Víkinga hafa náð í 16 af 18 stigum í boði í leikjum nýliðanna en það er öruggt að allir nefna ekki Víkinga sem auðveldustu andstæðingana í sumar. Víkingar vita þó að þeir mega alls ekki missa trúna, það eru enn 36 stig eftir í pottinum og nóg eftir af sumrinu. Skotæfingar duga kannski ekki endalaust, sjálfstraustssprauta í sóknarmennina væri kannski miklu áhrifaríkara og hver veit nema stíflan bresti og markaflóð verði í Víkinni. Leikir Víkinga og skot á mark: (Víkingur-mótherjar) Fram (0-3 tap) 4-7 KA (0-1) 10-3 KR (1-2) 6-5 FH (1-1) 4-3 Keflavík (0-1) 7-3 Fylkir (1-2) 8-4 Flest skot á mark í leik: ÍBV 7,5 Víkingur 6,5 ÍA 6,5 Fylkir 5,7 Keflavík 5 Fæst skot mótherja á mark í leik: Víkingur 4,2 KR 4,7 ÍA 4,7 Grindavík 4,8 ÍBV 5,2



Fleiri fréttir

Sjá meira


×