Innlent

Læknabréf send rafrænt

Læknabréf fara framvegis rafrænt milli Landspítalans og Heilsugæslunnar í Reykjavík samkvæmt samningi þessara stofnana, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytsins og Theriak ehf. sem undirritaður verður í dag. Rafræn læknabréf eru liður í uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár á Íslandi. Landspítalinn og Heilsugæslan í Reykjavík hafa undanfarið undirbúið rafræn samskipti milli starfsstöðva sinna í samvinnu við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Theriak. Þetta er þróunarverkefni innan ramma heilbrigðisnetsins um rafrænar sendingar sjúkraskrárgagna milli stofnana. Stofnanirnar nota sjúkraskrárkerfið SÖGU sem grundvöll rafrænnar sjúkraskrár. Því er auðvelt að skiptast á skilgreindum gögnum um sjúklinga sem leita þjónustu hjá báðum. Ákveðið var að byrja á því að senda rafræn læknabréf frá LSH til HR vegna þeirra tugþúsunda sjúklinga Heilsugæslunnar sem ár hvert leita þjónustu á LSH. Meirihluta þessara samskipta er lokið með gerð læknabréfs með helstu upplýsingum um hvað gert var. Í læknabréfi eru tilgreindar ástæður komu, sjúkdómsgreiningar, aðgerðir, rannsóknir, lyfjameðferð, áætlað eftirlit og ráðleggingar til sjúklings og heimilislæknis. Árlega eru send a.m.k. 100 þúsund læknabréf frá LSH og má ætla að um 80% þeirra fari til Heilsugæslunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×