Innlent

Bandaríkjamenn fastir fyrir

Dvínandi líkur eru á því að japönsk stjórnvöld sleppi Bobby Fischer úr landi í bráð eftir að mál hans lenti á borði embættismanna í dómsmálaráðuneytinu í Tókýó. Bandaríkjamenn skoða málið en fara sér hægt.  Í upphafi hafði útlendingastofnun í grennd við Narita-flugvöll í Japan forráð yfir Fischer og málum hans í Japan en nú hefur dómsmálaráðuneytið í Tókýó tekið við. Ekki er ljóst hvers vegna þessi háttur ef hafður á, þó að viðmælendur fréttastofunnar hafi getið sér til um að það væri vegna pólítískrar spennu í kringum málið. Kunnugir telja að þetta þýði vandlega og tímafreka yfirvegun embættismanna. Íslenska sendiráðinu í Tókýó hafði ekki borist neinar nýjar fréttir í morgun nema hvað lögfræðingur Fischers ætlar nú að leita eftir fundi með embættismönnum dómsmálaráðuneytisins. Nefnd um frelsun Fischers skoraði í morgun á Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, að hlutast til um að Fischer fengi frelsi og að honum yrði leyft að halda til Íslands. Fischer var í sambandi við Sæmund Pálsson, vin sinn, í morgun og var þá nokkuð bjartsýnn um framgang mála. Þá hafði lögfræðingur hans ekki enn fengið svar frá dómsmálaráðuneytinu í Tókýó og á morgun er frídagur í Japan sem þýðir að ekkert gerist þá. Bandarísk stjórnvöld hafa íhugað að beita Japana þrýstingi vegna Bobby Fischers en enn sem komið er hefur ekki verið til þess gripið, eftir því sem fréttastofan kemst næst. Nokkur hiti er í Bandaríkjamönnum vegna tilboðs Íslendinga, enda hafa þeir sótt mál Fischers af nokkurri hörku og vilja ekki sleppa honum við refsingu. Í Washington er málið nú til ítarlegrar skoðunar og segja viðmælendur fréttastofunnar litlar líkur á stefnubreytingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×