Erlent

Fyrsta jarðgasvirkjun Noregs

Tvö norsk orkufyrirtæki, Norsk Hydro ASA og Statkraft SF, tilkynntu í gær um fyrirætlanir sínar um að búa til fyrstu virkjun landsins sem nýtir jarðgas. Ákvörðunin er viðkvæm vegna mengunar frá slíkri virkjun. Noregur er þriðji stærsti olíuútflytjandi heims, á eftir Sádi-Arabíu og Rússlandi. Þá er einnig framleitt í landinu mikið af jarðgasi til útflutnings. Kostnaður við virkjunina er sagður nema um tveimur milljörðum norskra króna, eða um 21 milljarði íslenskra króna, en ráðgert er að hún hefji starfsemi árið 2007. Virkjunin á að rísa í Kårstø skammt frá Haugasundi í Vestur-Noregi og vera 300 MW að stærð. Hún stæði því undir 2,5 prósentum af orkuþörf landsins. Til samanburðar má nefna að Kárahnjúkavirkjun er 690 MW að stærð. Naturkraft AS, í eigu Norsk Hydro og Statkraft, byggir virkjunina. "Nýja gasvirkjunin verður sú nýtískulegasta og umhverfisvænasta í Evrópu," segja fyrirtækin tvö. Nær öll raforkuframleiðsla Noregs er nú frá vatnsaflsvirkjunum. Aukin raforkunotkun á álagstímum, svo sem að vetrarlagi, hefur hins vegar kallað á orkukaup frá öðrum löndum, jafnvel þar sem raforka er framleidd með kolum eða kjarnorku. "Virkjunin er mikilvægt skref í þá átt að standa undir orkuþörf landsins, auk þess að vera hluti af viðleitni okkar í betri nýtingu jarðgass," segir Eivind Reiten, forseti og aðalframkvæmdastjóri Norsk Hydro. Að sögn Naturkraft kemur virkjunin til með að gefa frá sér 1,1 milljón tonna af koltvísýringi á ári hverju. "Við ætlum að berjast fyrir hreinsikerfum fyrir koltvísýring," segir Biate Kristiansen, í norska umhverfisverndarhópnum Bellona. Hún segir að bygging virkjunarinnar án slíkrar hreinsitækni geri illmögulegt fyrir Noreg að standast skuldbindingar Kyoto-samkomulagsins. Málið er svo viðkvæmt í Noregi að í mars 2000 létu Kjell Magne Bondevik og ríkisstjórn hans frekar af völdum en að láta undan kröfum þingsins um breytingar á umhverfislögum til að liðka til fyrir gasvirkjun. Bondevik komst aftur til valda síðla árs 2001. Umhverfisráðherra Noregs, Knut Arild Hareide, segir undirbúning fyrirtækjanna vera vonbrigði: "Ég vonaðist til að fyrirtækin myndu bíða eftir tækni sem fjarlægt gæti koltvísýringinn," sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×