Innlent

Undrast sýknudóm yfir Þjóðverjanum

Formaður Umferðarráðs undrast sýknudóm yfir Þjóðverja sem varð farþega sínum að bana þegar hann ók ölvaður út af veginum frá Kleifarvatni að Hafnarfirði. Hann segir dóminn senda röng skilaboð út í þjóðfélagið. Hálffimmtugur Þjóðverji sem ók bifreið sem valt út af veginum á leiðinni frá Kleifarvatni í átt að Hafnarfirði þann 24. júlí síðastliðinn, með þeim afleiðingum að félagi hans sem sat í aftursæti bifreiðarinnar kastaðist út og lést af áverkunum fimm dögum síðar, hefur verið sýknaður af manndrápi af gáleysi í Héraðsdómi Reykjaness. Þrátt fyrir að maðurinn hafi viðurkennt fyrir dómi að hafa verið ölvaður undir stýri kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu að þótt líkur séu á að áfengisáhrif ákærða hafi skert ökuhæfni hans, leiki vafi á að hann hafi sýnt af sér slíkt gáleysi við akstur að það nægi til sakfellingar. Hann er því sýknaður af þeirri ákæru en sakfelldur fyrir ölvun við akstur og dæmdur til greiðslu 60 þúsund króna sektar í ríkissjóð. Óli H. Þórðarson, formaður Umferðarráðs, undrast dóminn. Hann segir að þrátt fyrir að það sé kannski skilgreiningaratriði hvað sé vítaverður akstur, þá finnist honum það vítavert gáleysi að aka undir áhrifum áfengis. Óli H. segir skilaboðin sem dómurinn sendi út í samfélagið röng en telur fólk þó almennt vita að það sé ekki ásættanlegt að nokkur maður setjist undir stýri eftir að hafa neytt áfengis. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×