Sport

Fordómar á íslenskri grundu

"Það er ekki nokkur spurning um að kynþáttafordómar fyrirfinnast í fótboltanum hér á landi og engin þörf á að fara til Englands eða Spánar til að upplifa slíkt," segir Ólafur Jóhannesson, kvikmyndagerðarmaður. Hann hefur um skeið unnið að gerð kvikmyndar um fótboltafélagið Afríka United sem spilar hérlendis í þriðju deildinni og hefur persónulega orðið vitni að fordómum í garð þeirra erlendu leikmanna sem þar spila. Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarnar vikur um meinta kynþáttafordóma og jafnvel kynþáttahatur í fótboltaheiminum í Evrópu. Hafa Spánverjar verið teknir sérstaklega fyrir vegna þessa en einnig er verið að skera upp herör gegn slíkum fordómum í Hollandi og í Englandi. Hvað þetta varðar er óþarfi að hlaupa langt yfir lækinn því kynþáttafordómar þekkjast hérlendis og ekki síst gagnvart eina liðinu á Íslandi sem nánast alla tíð hefur verið skipað erlendum leikmönnum og mörgum hverjum frá Afríku. Afríka United var upphaflega stofnað fyrir um tíu árum síðan af nokkrum erlendum strákum sem hér bjuggu og störfuðu og höfðu gaman af því að spila fótbolta. Var í upphafi fyrst og fremst um að ræða leikmenn frá hinum og þessum þjóðum frá Afríku en er nú til dags blanda af leikmönnum hvaðanæva að. Íslendingar leika og einnig með liðinu í stöku leikjum og spilaði Ólafur sjálfur um tíð nokkra leiki. Þar upplifði hann hluti sem hann segir ekki prenthæfa. "Ég veit fyrir víst að hvað fordóma varðar þá var ástandið mun verra þegar félagið lék í utandeildinni fyrstu árin. Þá var ekki óalgengt að heyra andstæðinga í hita leiksins hrópa fúkyrði sem verða ekki endurtekin hér en þetta var mest áberandi í þau skipti sem áhorfendur létu sjá sig á leikjum liðsins. Þá fyrst féllust mér allar hendur þegar menn létu allt flakka og skipti þá engu hvort notað var orðið negri eða eitthvað þaðan af verra." Ragnar Santos, sem einnig hefur leikið um langa hríð fyrir lið Afríku, tekur undir með Ólafi og segir engan vafa í sínum huga að fordómar gagnvart fólki af öðrum litarhætti sé víða að finna hérlendis. "Ég man í svipinn ekki eftir einstökum dæmum en það var á tímabili áberandi hvað fór mönnum á milli þegar leikir fóru fram. Það má kannski segja að ýmislegt sé látið flakka þegar hart er barist á vellinum en ég fékk á tilfinninguna að margir væru að meina það sem þeir sögðu og var miður fallegt." albert@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×