Lífið

Enginn formannsfiðringur

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi er fimmtug í dag. Hún lauk BA-prófi í sagnfræði og bókmenntum 1979. Hún var borgarstjóri í Reykjavík 1994-2003. Ingibjörg var kjörin í borgarstjórn í Reykjavík 1982 fyrir Kvennaframboðið, 1988 og 1994 fyrir Reykjavíkurlistann og hefur verið í borgarstjórn síðan. Hún sat á Alþingi 1991-1994 fyrir Kvennalistann. Ingibjörg Sólrún er formaður stjórnar Aflvaka og situr í bankaráði Seðlabanka Íslands. Eiginmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er Hjörleifur Sveinbjörnsson, deildarstjóri hjá Íslenska útvarpsfélaginu. Synir þeirra eru Sveinbjörn (1983) og Hrafnkell (1985). Úrelt viðhorf Tímamótin hringdu í Ingibjörgu Sólrúnu af þessu tilefni og spurðu hana fyrst um flugvallarmálið en samgönguráðherra ítrekaði nýlega þá skoðun sína að flugvöllurinn ætti að vera áfram í miðbæ höfuðborgarinnar. "Það er alveg ljóst að flugvöllurinn fer. Hann hefur grið á þessum stað til 2016 en eftir það verður hann að fara. Við höfum efnt til atkvæðagreiðslu um þetta og fyrir liggur aðalskipulag sem gerir ráð fyrir að hluti af flugvallarsvæðinu verði tekinn undir byggð eftir 2016." Hvað um atvinnusjónarmiðin? Vinnur ekki fjöldi Reykvíkinga við flugið og starfsemi á Reykjavíkurflugvelli? "Mér finnst nú gæta undarlegrar þröngsýni í málflutningi þeirra sem vilja hafa flugvöllinn hér og vísa til atvinnusjónarmiða. Í fyrsta lagi kemur auðvitað önnur starfsemi í staðinn. Flugvallarstæðið er kjörlendi fyrir margs konar atvinnustarfsemi. Í öðru lagi er það hreinlega úrelt viðhorf að miða umræðu um atvinnu við hreppamörk. Það vita allir að góð atvinna í einu sveitarfélagi hefur jákvæð áhrif í því næsta, gott atvinnuástand hefur áhrif á öllu atvinnusvæðinu. Atvinnusvæði Reykjavíkur nær orðið frá Borgarnesi til Selfoss. Nú, í þriðja lagi sýnist mér ekki veita af atvinnu á Suðurnesjum, ég tala nú ekki um ef svo fer sem horfir að herinn fari héðan." Er Reykjavíkurlistinn að skattpína borgarbúa? Á dögunum samþykkti borgarstjórn að hækka útsvarið. Reykjavíkurlistinn hefur aukið álögur á borgarbúa, til dæmis með holræsagjaldinu. Þá liggur fyrir að fasteignagjöld hækka vegna hækkunar á fasteignaverði. Er þetta ekki orðin óhófleg skattpíning? "Nei. Auðvitað verður alltaf að gæta hófs í þessu. Útsvarið er eins hér og hjá flestum sveitarfélögum. Og um holræsagjaldið má segja að það hefði örugglega verið lagt á, hver sem hefði verið hér við stjórn. Það er notað í sveitarfélögum sem sjálfstæðismenn stjórna, eins og til dæmis í Reykjanesbæ hjá Árna Sigfússyni. Hvað fasteignagjöldin varðar tel ég að við eigum að fara varlega og við höfum gert það. Á sínum tíma, þegar nýtt mat hækkaði grunn fasteignagjalda í Reykjavík, lækkuðum við gjaldaprósentuna, til þess að þetta ylli ekki auknum álögum. En ég hef ekki athugað þessa hækkun sem er að verða á matinu núna." Með formann í maganum? Ekki er hægt að skilja við Ingibjörgu Sólrúnu án þess að spyrja hana um formannssætið í Samfylkingunni. Er kominn formannsfiðringur í þig? "Nei, ekki get ég nú sagt það. Tíminn mun leiða í ljós hvað verður. Ég hef ekki verið að vinna að neinu í þessu sambandi. Gegni bara mínum störfum. Þetta verður ákveðið í haust. En afmælið Ingibjörg Sólrún, hefurðu haldið upp á það? "Já, yfirleitt eitthvað lítilsháttar. Ég hélt nú upp á fertugsafmælið í Norræna húsinu og mér finnst stórafmæli ágæt til þess að hitta þá sem ég hef verið samferða og unnið með og fagna með þeim. Núna langar mig til þess að hitta vini, ættingja og samferðafólk í dag í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu milli klukkan tvö og fjögur."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.