Sport

Mjög sáttur með heildarsvipinn

Íslenska landsliðið í frjálsum íþróttum hafnaði í 5. sæti í karlaflokki og því 7. í kvennaflokki á Evrópubikarmótinu sem haldið var á Laugardalsvelli um helgina. Guðmundur Karlsson landsliðsþjálfari kveðst mjög sáttur. Hið unga landslið Íslands í frjálsum íþróttum stóð sig mjög vel á Evrópubikarmótinu í frjálsum íþróttum sem fram fór á Laugardalsvelli um helgina, en um er að ræða sterkasta frjálsíþróttamót sem haldið hefur verið hér á landi. Karlalandsliðið hafnaði í 5. sæti nokkuð örugglega, hlaut alls 80 stig og bætti sig mjög mikið á milli ára þrátt fyrir að nokkurra lykilmanna hafi verið saknað. Heil 14 stig voru í 6. sætið og til samanburðar má geta þess að íslenska liðið endaði í 7. sæti á sama móti fyrir ári síðan. Kvennaliðið náði 7. sæti og var sex stigum á eftir Litháum sem urðu í 6. sæti. Kvennaliðið nældi sér í 70 stig. Það var lið Eista sem bar sigur úr býtum í karlaflokki með 126,5 stig en hjá konunum urðu þær írsku hlutskarpastar með 118 stig. „Ég er sérstaklega ánægður með frammistöðu karlanna sem voru að gera frábæra hluti. Kvennaliðið saknaði nokkurra af sínum sterkustu keppendum og það sagði einfaldlega til sín. En það er mikil endurnýjun í gangi hjá liðinu og þetta staðfestir að framtíðin er björt. Ég er mjög sáttur með heild-arsvipinn á keppendunum, við sýndum góða baráttu á okkar heimavelli og það finnst mér standa upp úr,“ sagði Guðmundur Karlsson í spjalli við Fréttablaðið að móti loknu í gær. Það sem stóð helst upp úr á mótinu voru sigrar Silju Úlfars-dóttur í 400 metra grindahlaupi, Þóreyju Eddu Elísdóttur í stang-arstökki, og Jóns Arnar Magnússonar í langstökki, en auk þess féllu fjölmörg persónuleg met hjá íslensku keppendunum og enn fleiri náðu sínum besta árangri á árinu. Framkvæmd mótsins var með besta móti og frjálsíþróttahreyfingunni á Íslandi til mikillar fyrirmyndar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×