Sport

Markasúpa í Keflavík

Grindavík bjargaði sér frá falli með því að leggja granna sína frá Keflavík í Keflavík 4-3 í gærdag. Leikur liðanna var mjög fjörugur og mikið um marktækifæri á báða bóga. Grindvíkingar höfðu þar með sex stig út úr innbyrðisleikjum liðanna sem innihéldu alls tólf mörk. Leikmenn Keflavíkur byrjuðu með miklum látum. En Grindavíkurvörnin með hinn 47 ára gamla Þorstein Bjarnason markvörð í broddi fylkingar gaf sig ekki. Hann stóð vel fyrir sínu og merkilegt að sjá hversu öruggur hann var var í öllum sínum aðgerðum. Guðmundur Bjarnason varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Við það var eins og Grindvíkingar hresstust til muna. Þeir sóttu án afláts og uppskáru tvö mörk á stuttum tíma. Bæði komu þau með skalla eftir hornspyrnur frá Momir Mileta. Í seinni hálfleik voru það svo heimamenn sem voru mun meira með boltann og sóttu meira. Haraldur Guðmundsson skoraði síðan stórglæsilegt mark beint úr aukaspyrnu og jafnaði. Hann kom þeim síðan yfir stuttu seinna með skallamarki af stuttu færi. Grétar Hjartarson jafnaði með frábæru marki. Hann lagði síðan upp fyrir Alfreð sigurmarkið rétt fyrir leikslok. Bæði lið eru því örugg í deildinni fyrir síðustu umferðina. Hjá heimamönnum voru Stefán Gíslason og og Haraldur Guðmundsson atkvæðamiklir.  Hjá Grindavík var Momir Mileta mjög atkvæðamikill á miðjunni og lagði hann upp þrjú af fjórum mörkum liðsins í þessum leik. Grétar Hjartarson og Sinisa Kekic áttu einnig góðan leik. n



Fleiri fréttir

Sjá meira


×