Sport

Helgi Pétur alveg í skýjunum

„Ég er alveg í skýjunum. Ég var heppinn í dag, mörkin voru eiginlega ekkert mér að þakka, ég var bara á réttum stað og afgreiddi boltann í netið þrisvar sinnum,“ sagði Skagamaðurinn Helgi Pétur Magnússon sem var maður leiksins á Víkingsvellinum í gær. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í leiknum. Helgi er rétt tvítugur og hefur verið að þokast nær sæti í byrjunarliðinu Skagamanna á seinni hluta tímabilsins. Færeyski landsliðsmaðurinn Julian Johnsson meiddist í landsleik á móti Frökkum og Ólafur ákvað að gefa Helga tækifæri í byrjunarliðinu. Hann sér líklega ekki eftir því. „Elli [Ellert Jón Björnsson] og Júlli [Julian] eru báðir meiddir og ég kom inn fyrir Julian á miðjuna í síðustu umferð. Ég náði að nýta mér tækifærið sem þjálfarinn gaf mér þá og setja mark þá. Núna skoraði ég þrennu þannig að það er vonandi að ég fái áframhaldandi tækifæri í byrjunarliðinu. Við vissum að Víkingarnir voru að berjast fyrir veru sinni í deildinni en við ætluðum okkur að vinna þá, það kom aldrei neitt annað til greina.“ Helgi er, eftir þrennuna, orðinn markahæstur í liði Skagamanna ásamt Haraldi Ingólfssyni. n



Fleiri fréttir

Sjá meira


×