Innlent

Hitametið fallið

Hitamet ágústmánaðar féll í gær á nokkrum stöðum á landinu. Hitinn mældist hæstur 29,1 stig í Skaftafelli. Fyrra hitamet var 27,7 stig á Akureyri árið 1971. Áfram er búist við góðviðri þrátt fyrir að veður fari hægt kólnandi næstu daga. Hitamet ágústmánaðar féll víða um land í gær en hitinn mældist hæstur 29,1 stig í Skaftafelli. Fyrra hitamet var 28. ágúst 1971 þegar hitinn mældist 27,7 stig á Akureyri. Gamla hitametið var þó slegið víðar en í Skaftafelli en hitinn fór yfir 27,7 stig á að minnsta kosti sjö stöðum á landinu. 29 stig mældust bæði á Þingvöllum og á Árnesi í Gnúpverjahreppi. Þá mældist meira en 28 stiga hiti á nokkrum stöðum í innsveitum fyrir norðan og austan, í Fnjóskadal, á Mývatni og á Egilsstöðum. Einnig mældist 28,5 stiga hiti á Hjarðarlandi í Biskupstungum. Mikill hiti mældist einnig í höfuðborginni en á sjálfvirkri veðurathugunarstöð við Korpu mældist hæstur hiti rétt tæplega 25 stig í gær. Mælir við Veðurstofu Íslands sýndi þó einungis í 18,5 stig sem er nokkuð lægra hitastig en þar mældist í gær. Mikil hlýindi voru víða um land þrátt fyrir að þoka setti strik í reikninginn við norðvesturströndina og inn í Eyjafjörð að sögn Björns Sævars Einarssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Þar fóru menn varhluta af hitabylgjunni en hitinn mældist víða rúm tíu stig. "Í hitabylgjum er alltaf nokkur hætta á hafgolu og þá kemur með henni þoka af sjónum," segir Björn Sævar. Búist er við ögn svalara veðri á morgun að sögn Björn Sævars sem á von á hægt kólnandi veðri næstu daga. "Það verður þó áfram rjómablíða." Þá er áfram búist við sólríku veðri víðsvegar um landið að sögn Björns Sævars þrátt fyrir að áfram verði hætta á þokulofti með norður- og austurströndinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×