Erlent

Hátt í þúsund manns létust

Hátt í eitt þúsund manns týndu lífi í gríðarmiklum flóðum í kjölfar fellibylsins Jeanne á Haíti. Þetta mikla manntjón er rakið til gróðureyðingar landsins sem aftur er rakin til fátæktar og pólitískrar óstjórnar. Ríflega sex hundruð lík hafa þegar fundist og talið er að þau verði fleiri sem finnast þegar flóðin taka að sjatna. Bærinn Gonaives á norðurströnd Haítí marar að mestu í kafi og enn hefst fólk við uppi á húsþökum. Erfitt hefur verið að komast til þeirra staða sem verst urðu úti og björgunar- og hjálparstarf er því rétt að byrja. Flóð leika Haíti að öllu jöfnu mjög grimmt og jafnvel minnstu rigningar geta valdið manntjóni. Ástæðan er gríðarleg gróðureyðing. Yfir níutíu prósent af öllum trjágróðri í landinu hefur verið eytt og þar hafa aðallega sárafátækir íbúar verið að verki í leit að eldiviði. Þegar enginn er gróðurinn er ekkert sem heldur aftur af rigningarvatninu sem streymir niður fjöllin og færir allt á kaf. Um átta milljónir manna búa á Haíti sem er eitt af fátækari löndum heims og það allra fátækasta á vesturhveli jarðar. Rekja má ástæður þessarar miklu örbirgðar til þeirrar pólitísku óstjórnar sem ríkt hefur í landinu. Jean Bertrand Aristide, fyrrverandi forseti, var hrakinn frá völdum í febrúar vegna spillingar. Um þrjú þúsund friðargæsluliðar á vegum Sameinuðu þjóðanna eru á Haíti en landið er nánast stjórnlaust og glæpahópar virðast þar ráða öllu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×