Innlent

Víða ófært vegna veðurs

Stórhríð geysar nú víða á Norður- og Norðausturlandi og er orðið ófært á þessum slóðum. Hátt í tíu manns í nokkrum bílum urðu að hafast við í stórhríð á Siglufjarðarvegi í alla nótt eftir að tvö snjóflóð féllu á veginn með stuttu millibili og ekki var hægt að snúa við vegna ófærðar. Vegagerðarmenn á snjóruðningstækjum og jeppum brutust til fólksins í morgun og komu fólkinu til síns heima undir hádegið. Að sögn Vegagerðarmanns, sem tók þátt í aðgerðinni, amaði ekkert að fólkinu, Það hafði kynnt bíla sína með reglulegu millibili í alla nótt en sumir voru farnir að sakna þess að fá ekki kaffisopa. Annars er það að frétta frá Vegagerðinni að Holtavörðuheiði er ófær og stórhríð geysar á Ströndum og í Húnavatnssýslum þannig að ekkert verður frekar reynt að ryðja vegi þar. Ófært er orðið um allan Skagafjörð og svipaða sögu er að segja um Eyjafjarðarsvæðið. Stórhríð er á Húsavík og við Mývatn og á Mývatnsöræfum, ófært í kringum Vopnafjörð og eitthvað niður á Firði fyrir austan. En víða á Austurlandi er þó enn þokkaleg færð og greiðfært er um sunnan- og vestanvert landið. Það er einnig fært um Vestfirði og þar var hæglætisveður í morgun. Annars spáir Veðurstofan versnandi veðri á þeim svæðum þar sem veður er vont nú þegar og beina lögregla og Vegagerð því til fólks að reyna að vera alls ekki á ferðinni. Fyrir utan vandræðin á Siglufjarðarvegi er ekki vitað til þess að fólk hafi lent í hrakningum og ekki hefur þurft að kalla björgunarsveitir út.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×