Innlent

Sjálfstæðismenn misnota verkfallið

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sakar Sjálfstæðisflokkinn um að nýta sér kennaraverkfallið til að ýta undir hugmyndir um einkavæðingu skólakerfisins. Þetta kom fram í ræðu Össurs á flokkstjórnarfundi hjá Samfylkingunni í dag. Hann segir framámenn í sjálfstæðisflokknum nýta tækifærið til að setja fram kröfur um annað rekstrarform sem sé ekkert annað en krafa um einkavæðingu. Aðspurður nefnir hann til dæmis Ara Edwald, framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins. Össur segist telja að Sjálfstæðisflokkurinn þráist við að koma að kennaradeilunni vegna þess að hann sé að reyna að koma einkavæðingu að í skólakerfinu. Össur segir að hann vilji sjá sanngjarnari tekjuskiptingu sveitafélaga og ríkis, enda hafi hlutur sveitafélaga verið borinn fyrir borð. Til dæmis hafi skattkerfisbreytingar fyrir nokkrum árum orðið til þess að sveitarfélögin hafi tapað 1,3 milljörðum á ári. Með þessu segist Össur þó ekki skrifa upp á allar kröfur kennara, menn verði auðvitað að mætast á miðri leið í samningum. Össur bendir á að það séu núverandi fjármálaráðherrra og fyrrverandi menntamálaráðherra sem hafi sett viðmiðin sem kennarar horfi nú til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×