Erlent

Bandarískir hermenn þiggja mútur

Kviðdómur sakfelldi í gær þrjá bandaríska hermenn fyrir að hafa þegið mútur á meðan þeir þjónuðu í Írak. Þeir voru fundnir sekir um að hafa tryggt verkatafyrirtækjum verkefni fyrir næstum 9 milljónir bandaríkjadala í skiptum fyrir bíla, skartgripi og fasteignir. Minnst fjögur svipuð mál hafa komið upp nýlega þar sem bandarískir hermenn hafa verið fundnir sekir um að þiggja mútur í Írak.

Erlent

Flóðin í Indónesíu versna enn

Enn er allt á floti í Jakarta höfuðborg Indónesíu. Stjórnvöld viðurkenna að slæmu skipulagi borgarinnar sé um að kenna hversu illa hefur farið.

Erlent

Vetrarveður á Bretlandseyjum

Umferð hefur gengið hægt og illa víða á Bretlandseyjum í morgun en þar snjóaði mikið í nótt. Lögregla hefur varað vegfarendur við að vera á ferðinni að óþörfu. Veðrið er enn slæmt og ættu þeir sem eiga flug til London í dag að búa sig eins og í íslensku vetrarveðri og gera ráð fyrir að tafir geti orðið á ferðum. Eins hafa einhverjar tafir orðið á flugvöllum vegna veðurs og snjóþyngsla.

Erlent

Kynlíf eða ný föt?

Þegar kemur að fötum þá vita konur hvað þær vilja. Það kom í ljós í könnun sem var lögð fyrir 1.000 konur í Bandaríkjunum. Flestar þeirra sögðust tilbúnar að gefa kynlíf upp á bátinn í 15 mánuði ef þær fengju fataskáp fullan af nýjum fötum. Tvö prósent þeirra sagði að þær væru tilbúnar að hætta að lifa kynlífi í þrjú ár fyrir nýju fötin. 61% þeirra bætti síðan við að það væri mun verra að týna uppáhaldsflíkinni en að sleppa rúmfræði í heilan mánuð.

Erlent

Tölvuleikir bæta sjón

Rannsóknir sýna að tölvuleikir bæta sjónina, sérstaklega þeir sem áreita augað mikið. Þeir sem spila í nokkra klukkutíma á dag eru um 20 prósent fljótari að greina bókstafi á blaði sem birtast innan um önnur tákn, sem er próf sem er notað af augnlæknum.

Erlent

Átök á milli Ísraela og Líbana

Líbanski herinn skaut í kvöld á ísraelska hermenn sem voru að leita að sprengjum á landamærum ríkjanna tveggja. Þetta kom fram í fréttum hjá herútvarpi Ísraels. Samkvæmt fregnum skutu ísraelskir hermenn til baka en ekkert mannfall var hjá þeim. Talsmaður ísraelska hersins sagði að þeir héldu að einhverjir hermanna Líbana hefðu fallið í átökunum.

Erlent

Forsætisráðherra Sómalíu styrkir völd sín

Forsætisráðherra Sómalíu, Ali Mohamed Gedi, stokkaði upp í ríkisstjórn sinni í dag til þess að auka áhrif sín í henni, þóknast ættbálkum og halda sig við loforð um þjóðstjórn í landinu. Ríkisstjórnin er nú að reyna að auka völd sín í Sómalíu eftir að íslamska dómstólaráðið var rekið frá völdum.

Erlent

NASA að bæta eftirlit með geimförum

Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, sagði í dag að hún myndi fara yfir starfsreglur er varða eftirlit með heilsu og geðheilsu geimfara eftir að þeir eru ráðnir. Hingað til hefur ekkert eftirlit verið með geðheilsu þeirra eftir að þeir hefja störf.

Erlent

Ítalski boltinn hefst að nýju um helgina

Knattspyrnusamband Ítalíu sagði frá því í dag að knattspyrnuleikir myndu hefjast að nýju um næstu helgi. Stjórnvöld á Ítalíu samþykktu í dag hertar öryggisráðstafanir til þess að reyna að koma í veg fyrir óeirðir á knattspyrnuleikjum.

Erlent

Apple og Apple semja

Apple-tölvurisinn og Apple, útgáfufélag Bítlanna, hafa grafið stríðsöxina og bundið enda á þriggja áratuga lagadeilur um rétt til nafns og vörumerkis. Þetta gæti þýtt að Bítlalög verði í boði hjá iTunes og öðrum tónlistarveitum á netinu í fyrsta sinn.

Erlent

7 bréfasprengjur á Bretlandseyjum

Breska lögreglan greindi frá því í dag að sjö bréfasprengjur hafi verið sendar á Bretlandseyjum undanfarnar þrjár vikur. Ein slík sprakk í Wales í dag og særði þrjá en það er fjórða sprengjan sem springur á fimm dögum.

Erlent

Bræður vilja ekki berjast

Bræður hafa barist á banaspjótum í Palestínu síðustu vikur og mánuði og mannfall verið mikið. Forvígismenn fylkinga Hamas og Fatah reyna að stilla til friðar. Palestínskir bræður, sem fylgja sitt hvorri fylkingunni, særðust í sömu árásinni fyrir nokkrum dögum. Þeir segjast berjast fyrir bandamenn sína en samt geti þeir aldrei miðað byssu hvor á annan.

Erlent

Reyndu að fella internetið

Óþekktir tölvuþrjótar reyndu í gær að ráða niðurlögum þeirra 13 tölva sem sjá um að stjórna stórum hluta umferðar á internetinu. Árásin stóð yfir í rúmar tólf klukkustundir og virtist koma frá Suður-Kóreu. Milljónir tölva um allan heim, sem sýktar voru með vírusum sem gerðu tölvuþrjótum kleyft að ná stjórn á þeim, voru notaðar í árásinni.

Erlent

Dönsku fríblöðin höggva skörð í lestur hinna

Fríblöðin í Danmörku virðast hafa haft talsverð áhrif á blöðin sem fyrir voru. Miðað við janúar á síðasta ári, hefur Berlingske Tidende misst tíu prósent lesenda sinna, Jyllandsposten um 16 prósent sinna lesenda og Århus Stiftstidende heil 29 prósent. Aðeins Politiken virðist hafa staðið af sér hrinuna, en þar fjölgaði lesendum um tvö prósent.

Erlent

Royal sögð köld og sjálfselsk

Segolene Royal, frambjóðandi sósíalista í forsetakosningunum í Frakklandi, fær ekki góða einkunn í bók sem fyrrverandi aðstoðarkona hennar hefur skrifað. Evelyne Pathouot vann fyrir Royal 1997-1997 og hefur átt í málaferlum við hana út af vangoldnum launum. Hún vinnur nú hjá einum þingmanna franska hægri flokksins UMP.

Erlent

Danir undrandi á hjónabandi Alexöndru

Alexandra prinsessa, fyrrverandi eiginkona Jóakims Danaprins, ætlar að gifta sig aftur hinn 3. mars næstkomandi. Með því slitna öll tengsl hennar við dönsku konungsfjölskylduna. Eiginmaður hennar verður hinn 27 ára gamli ljósmyndari Martin Jörgensen. Margir Danir eru furðu lostnir yfir þessari ákvörðun prinsessunnar.

Erlent

Skaut ítalskan leyniþjónustumann

Ítalskur dómari hefur fyrirskipað að bandarískur hermaður skuli leiddur fyrir rétt fyrir að skjóta ítalskan leyniþjónustumann til bana í Írak. Tveir Ítalskir leyniþjónustumenn voru á leið út á flugvöllinn í Bagdad, með ítalska konu sem þeir höfðu fengið lausa úr gíslingu. Bandarískir hermenn segja að bílnum hafi verið ekið á ofsahraða að bandarískri varðstöð við flugvöllinn, og því hafi verið skotið á hann.

Erlent

Sjö bréfasprengjur sendar í Lundúnum

Breska lögreglan segir að sjö bréfasprengjur hafi verið sendar þar í landi undanfarnar þrjár vikur, og hvetur fólk til þess að gæta sín í umgengni við póst. Þrír hafa slasast af bréfasprengjum í þessari viku, en ekki hefur verið skýrt opinberlega frá hinum fjórum fyrr en núna.

Erlent

Barnaklámsrassía á vegum austurrísku lögreglunnar

Lögregla í Austurríki gerði í gær rassíu hjá alþjóðlegum barnaklámhring í samstarfi við lögreglu í 77 öðrum ríkjum. Alls er 2361 grunaður um aðild að hringnum. Enginn hefur verið handtekinn en tölvur þeirra grunuðu hafa verið haldlagðar.

Erlent

Khodorkovsky segir nýjar ákærur pólitískar

Olíujöfurinn Mikhail Khodorkovsky segir nýjar ákærur á hendur honum til þess ætlaðar að koma í veg fyrir að hann losni fyrr úr fangelsi og blandi sér í stjórnmál. Hann segir þessar áætlanir kokkaðar upp í Kreml þar sem Vladímír Pútín ræður ríkjum.

Erlent

Búist við miklum snjó á Bretlandseyjum

Búist er við umferðaröngþveiti á Bretlandseyjum í fyrramálið en spáð er snjóstormi í nótt. Búist er við allt að 15 sentímetrum af snjó falli sumstaðar. Þjóðvegaeftirlitið er með 400 saltbíla í viðbragðsstöðu og verður allt gert sem hægt er til að greiða fyrir umferð.

Erlent

Hætta ekki fyrr en niðurstaða fæst

Mahmoud Abbas forseti Palestínu hóf viðræður sínar við Khaled Meshaal leiðtoga Hamas í morgun með þeim orðum að viðræðunum yrði ekki slitið fyrr en fylkingar Fatah og Hamas kæmust að sameiginlegri niðurstöðu. Ráðlagt er að viðræðurnar standi í tvo daga en Abdullah konungur Sádí-Arabíu miðlar málum fylkinganna.

Erlent

Enn ein bréfsprengjan á Englandi

Kona var flutt á sjúkrahús eftir að bréfasprengja sprakk á skrifstofu ökutækjaskrár í Swansea í Wales í morgun. Þetta er í þriðja sinn á jafn mörgum dögum sem bréfasprengja springur á Bretlandseyjum. Ein kona slasaðist þegar bréfsprengja sprakk á skrifstofu í Lundúnum í fyrradag og tveir voru fluttir undir læknishendur þegar önnur sprengja sprakk í skrifstofubyggingu í Berkshire í suðurhluta Englands í gær. Enginn hefur týnt lífi í sprengingunum. Breska lögreglan segir enn of snemmt að segja til um hvort málin þrjú tengist.

Erlent

Innanríkisráðherra Póllands segir af sér

Innanríkisráðherra Póllands, Ludwik Dorn hefur sagt af sér. Afsögn hans er liður í endurskipulagningu á ríkisstjórn Jaroslaw Kaczynski forsætisráðherra. Dorn er að auki einn fjögurra varaforsætisráðherra landsins en hann ætlar áfram að gegna því embætti.

Erlent

Hitabeltisstormur í Ástralíu

Hitabeltisstormurinn Nelson angrar nú íbúa í Queensland í Ástralíu og hefur þegar valdið eignaspjöllum. Búist er við því að stormurinn fari vaxandi á næstu dögum og því hafa íbúar byrgt sig upp af mat og halda sig innandyra. Eitthvað var um að verslanir væru orðnar galtómar og því hefur verið brugðið á það ráð að senda þyrlur með neyðargögn á þau svæði þar sem mesta hættan er.

Erlent

Íranir saka Bandaríkjamenn um mannrán

Íranir saka Bandaríkjamenn um að vera á bak við ránið á starfsmanni íranska sendiráðsins í Bagdad. Bandaríkjamenn hafa hinsvegar neitað að staðfesta að mannránið hafi yfir höfuð átt sér stað.

Erlent

Rostropovich á spítala

Sellóleikarinn heimsfrægi Mstislav Rostropovich hefur verið lagður inn á spítala í Moskvu af ótilgreindum ástæðum. Rostropovich, sem er 79 ára gamall er af mörgum talinn einn allra fremsti sellóleikari síðustu aldar auk þess sem hann er mikill baráttumaður fyrir mannréttindum.

Erlent

Bílaframleiðendur þurfa að minnka koltvíoxíðsútblástur

Evrópuráðið ætlar að skylda bílaframleiðendur til að minnka útblástur nýrra bíla á koltvíoxíði um 18% fyrir árið 2012. Talsmaður ráðsins segir það stefna að því að minnka mengun bíla samtals um fjórðung. Til þess að ná þessum markmiðum þarf að þróa bílvélar þannig að þær eyði minna eldsneyti auk þess sem stefnt er að auknum hluta vistvænnar orku og þróun dekkja sem slitna mun minna.

Erlent