Golf

Holmes með forystu eftir fyrsta hringinn á Opna breska

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Holmes fékk skolla á fyrstu holu en engan eftir það.
Holmes fékk skolla á fyrstu holu en engan eftir það. vísir/getty
Bandaríkjamaðurinn JB Holmes er með forystu eftir fyrsta hringinn á Opna breska meistaramótinu í golfi. Leikið er á Royal Portrush vellinum á Norður-Írlandi.

Holmes, sem hefur aldrei unnið risamót á ferlinum, lék fyrsta hringinn á fimm höggum undir pari. Hann er með eins höggs forystu á Írann Shane Lowry.

Holmes fékk skolla á fyrstu holunni en gerði ekki fleiri mistök á hringnum og fékk alls sex fugla.



Spánverjinn Jon Rahm var um tíma með forystuna en fór illa að ráði sínu á síðustu fjórum holunum þar sem hann fékk tvo skolla.

Rahm er í 3. sæti á þremur höggum undir pari ásamt 13 öðrum kylfingum. Þeirra á meðal er Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka sem situr á toppi heimslistans.

Sigurvegarinn frá því í fyrra, Ítalinn Francesco Molinari, er í 95. sæti á þremur höggum yfir pari.

Margir stórlaxar náðu sér ekki á strik í dag. Phil Mickelson er á fimm höggum yfir pari og Tiger Woods lék á sjö höggum yfir pari og er á meðal neðstu manna. Heimamaðurinn Rory McIlroy átti afar erfiðan dag og lék á átta höggum yfir pari.

David Duval, sem vann Opna breska fyrir 18 árum, er neðstur en hann lék hringinn í dag á 20 höggum yfir pari. Duval þurfti 13 högg til að klára sjöundu holuna sem er par fimm hola.

Argentínumaðurinn Emiliano Grillo gleymir deginum í dag ekki í bráð en hann fór holu í höggi á 13. holu.



Bein útsending frá öðrum hring Opna breska hefst klukkan 05:30 á Stöð 2 Golf í fyrramálið.




Tengdar fréttir

Fór par fimm holu á 13 höggum á Opna breska

David Duval var einu sinni efsti maður heimslistans í golfi og hann vann Opna breska risamótið árið 2001. Hann er enn í fullu fjöri en það eru þó litlar líkur á að hann bæti öðrum titli af Opna breska við safnið um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×