Upp­gjörið: Kefla­vík - Hamar/Þór 102-89 | Fyrsti sigur Kefl­víkinga í hús

Andri Már Eggertsson skrifar
1J8A0208 (1)
vísir/diego

Keflavík vann nokkuð sannfærandi 13 stiga sigur á Hamar/Þór 102-89 í 2. umferð Bónus deildar kvenna. Þetta var fyrsti sigur Keflavíkur á tímabilinu. 

Hamar/Þór byrjaði á að gera fyrstu körfu leiksins en Keflvíkingar voru á tánum strax á fyrstu mínútu og svöruðu með því að gera tíu stig í röð. Það var mikil orka í Keflvíkingum sem pressuðu gestina og þvinguðu þá í tapaða bolta. Keflvíkingar voru átta stigum yfir eftir fyrsta leikhluta 27-19.

Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og liðin skiptust á körfum. Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, tók sitt fyrsta leikhlé um miðjan annan leikhluta í stöðunni 35-27 en þá höfðu gestirnir gert tvær körfur í röð og krafturinn í Keflvíkingum hafði minnkað.

Keflavík spýtti í lófana eftir leikhlé Harðar og heimakonur komust mest 15 stigum yfir. Gestirnir gerðu þó vel undir lokin og staðan var 51-43 í hálfleik.

Það var baráttuandi í gestunum sem sneru við blaðinu eftir að Keflavík komst þrettán stigum yfir í upphafi síðari hálfleiks. Hamar/Þór svaraði með tíu stigum í röð og þá tók Hörður Axel leikhlé. Heimakonur bitu frá sér og voru ellefu stigum yfir þegar haldið var í fjórða leikhluta 79-68.

Anna Ingunn Svansdóttir, leikmaður Keflavíkur, gerði síðustu körfuna í þriðja leikhluta og hélt áfram að hamra járnið á meðan það var heitt og gerði fyrstu sjö stig Keflavíkur í fjórða leikhluta.

Keflavík vann að lokum þrettán stiga sigur 102-89.

Atvik leiksins

Hamar/Þór minnkaði forskot Keflavíkur minnst niður í þrjú stig í þriðja leikhluta. Þá tók Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, leikhlé og hans konur duttu í gang og litu aldrei um öxl eftir það.

Stjörnur og skúrkar

Thelma Dís Ágústsdóttir var stigahæst í liði Keflavíkur með 29 stig. Thelma setti ofan í sjö þriggja stiga skot úr ellefu tilraunum sem telst ansi gott.

Anna Ingunn Svansdóttir gerði síðustu körfuna í þriðja leikhluta og fyrstu sjö stig Keflavíkur í fjórða leikhluta. Anna endaði með 26 stig og gaf einnig 7 stoðsendingar. 

Ellen Iversen, leikmaður Hamars/Þórs, hitti illa í kvöld. Hún tók tólf skot úr opnum leik og hitti aðeins úr tveimur. Hún tók þó 14 fráköst og var frákastahæst í kvöld.

Dómarar

Dómarar kvöldsins voru Gunnlaugur Briem, Ingi Björn Jónsson og Sigurbaldur Frímannsson. Þríeykið dæmi leik kvöldsins vel og komst vel frá sínu. 

Stemning og umgjörð

Það er bleikur október og leikmenn Keflavíkur hituðu upp í bleikum bolum merktum Krabbameinsfélagi Suðurnesja.

Það var góðmennt í Blue-höllinni í kvöld en þeir sem mættu skemmtu sér vel og sáu flottan körfuboltaleik.

„Ógeðslega gaman að eiga afmæli og spila vel“

Anna Ingunn Svansdóttir gerði 26 stig í kvöldVísir/Diego

Anna Ingunn Svansdóttir, leikmaður Keflavíkur, fór á kostum og gerði 26 stig í kvöld. Anna var sátt með sigurinn í viðtali eftir leik.

„Mér fannst við vera á fullu allan tímann og við náðum að stoppa þær í vörninni og sóknarlega náðum við að gera það sem við ætluðum okkur.“ 

Þrátt fyrir að Hamar/Þór hafi tekið áhlaup gegnum gangandi í leiknum og haldið sér inni í honum hafði Anna alltaf góða tilfinningu fyrir spilamennsku Keflavíkur.

„Við náðum ekki alveg að slíta okkur frá þeim en mér fannst við alltaf ná forskoti og ég var aldrei stressuð með þetta. Við gerðum vel að klára þetta. Í fjórða leikhluta náðum við tuttugu stiga forskoti og þær komu ekki til baka.“

Anna Ingunn fagnaði afmæli sínu með því að gera 26 stig og á kafla gerði hún níu stig í röð og hún hrósaði liðsfélögum sínum fyrir að hafa fundið sig á réttum stöðum.

„Þær voru að finna mig vel stelpurnar og við spiluðum mjög vel saman og við vorum að ná að gefa aukasendingarnar.“

„Minn leikur var flottur. Það var ógeðslega gaman að eiga afmæli og spila vel en það var bara plús,“ sagði Anna Ingunn hress að lokum. 

 

„Þær eru með fimm landsliðsmenn sem kunna leikinn“

Hákon Hjartarson er þjálfari Hamars/Þórs.Vísir/Anton Brink

Hákon Hjartarson, þjálfari Hamars/Þórs var svekktur eftir þrettán stiga tap.

„Mér fannst þetta baráttuleysi. Við keyrðum upp hraðann og vorum að sækja á þær og þá náðum við muninum niður en svo stigu við af bensíngjöfinni og leyfðum þeim að valta yfir okkur aftur. Ég ætla ekki að taka neitt af Keflavík þær voru ógeðslega góðar,“ sagði Hákon og hélt áfram.

„Við lentum í veseni með stóru stelpuna okkar sem gat engan dekkað og þær dældu niður þristum. Þær skutu fáránlega vel og ætli þetta hafi ekki farið á þessu.“

Hamar/Þór minnkaði forskot Keflavíkur minnst niður í þrjú stig í þriðja leikhluta og Hákon var svekktur að hafa ekki nýtt það augnablik betur.

„Hörður Axel tók leikhlé á þeim tímapunkti og þær svöruðu því. Þær eru með fimm landsliðsmenn sem kunna leikinn og þær svöruðu vel fyrir það og fundu lausnir. Það var erfitt að elta.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira