Fleiri fréttir

25 fórust þegar bygging hrundi í Mumbai

Að minnsta kosti 25 manns fórust þegar gömul bygging hrundi í Mumbai, fjármálamiðstöð Indlands. Talið er að tugir séu enn fastir í rústum byggingarinnar. Björgunarmenn eru nú að fara í gegnum þær í leit að þeim sem lifðu af.

Innanríkisráðherra Breta reykti kannabis á yngri árum

Jacqui Smith, innanríkisráðherra Breta, hefur viðurkennt að hafa reykt kannabis þegar hún var við nám í Oxford háskóla á níunda áratugnum. Játning hennar kemur fram daginn eftir að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti að hún myndi vera yfir nefnd sem á að endurskoða stefnu landsins í fíkniefnamálum.

Sprengin veldur ótta í New York

Mikill ótti greip um sig meðal íbúa New York borgar þegar rafmagnsspennir sprakk í loft upp á Manhattaneyju í kvöld. Í fyrstu var óttast að um hryðjuverkaárás væri að ræða en seinna kom í ljós að spennirinn sprakk eftir að gufuleiðsla í námunda við hann rofnaði.

Bretar senda orrustuþotur gegn rússneskum sprengjuflugvélum

Breski flugherinn þurfti í gær að beita orrustuþotum til að koma í veg fyrir að tvær rússneskar sprengjuflugvélar myndu fljúga inn í breska lofthelgi. Er þetta í fyrsta skipti í langan tíma sem breski flugherinn þarf að grípa til aðgerða af þessu tagi gegn rússneskum herflugvélum.

Hvetja Rússa til að framselja Lugovoi

Evrópusambandið hvetur Rússa til að framselja Andrei Lugovoi, meintan morðingja Alexander Litvinenko, til Bretalands. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem ríkisstjórn Portúgals sendi frá sér í dag en Portúgalar eru nú með forsæti í Evrópusambandinu.

Forseti Palestínu boðar til kosninga

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu tilkynnti í dag að stjórn hans myndi boða til aukakosninga vegna yfirtöku Hamassamtakanna á Gaza svæðinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hittir Abbas í Ramallah á Vesturbakkanum á morgun.

Í eldhúsið með ykkur

Eina leiðin til þess að jafna launamun kynjanna er að karlmenn taki meiri þátt í heimilisstörfunum. Þetta segir atvinnumálastjóri Evrópusambandsins í ákalli til allra karlmanna í aðildarríkjunum. Launamunur kynjanna er þar um 15 prósent.

Hamas samtökin í tengslum við al-Kæda

Utanríkisráðherra Frakklands segir að Hamas samtökin hafi þegar tengsl við al-Kæda og þau tengsl séu ekki til komin vegna þrýstings vestrænna ríkisstjórna á Hamas. Utanríkisráðherra Ítalíu sagði fyrr í vikunni að vesturlönd hefðu rekið Hamas í fangið á al-Kæda.

Öldungadeildin felldi heimflutning frá Írak

Tillaga um að kalla bandaríska hermenn heim frá Írak fyrir apríllok á næsta ári, náði ekki fram að ganga í öldungadeild bandaríska þingsins í dag. Meirihluti þingmanna greiddi að vísu atkvæði með tillögunni en það var ekki nóg. Í öldungadeildinni eru 100 þingsæti og það þurfti 60 atkvæði til að fá tillöguna samþykkta.

Von í Darfur: Risastórt neðanjarðar stöðuvatn

Bandarískir jarðfræðingar hafa fundið risastórt neðanjarðar stöðuvatn í Darfur héraði í Súdan. Þessi fundur gæti orðið mikilvægt skref til friðar í héraðinu, þar sem vatnsskortur og hungursneyð er stór þáttur í átökunum. Þegar hefur náðst samkomulag um að grafa eittþúsund brunna á þessu svæði.

Kínverjar ráðast á himininn

Kínverjar leggja ofuráherslu á að allt fari sem best fram þegar Ólympíuleikarnir verða haldnir þar á næsta ári. Þeir hafa meðal annars áhyggjur af veðrinu því tölur sýna að það eru helmingslíkur á því að það rigni á setningardegi leikanna áttunda ágúst.

Kanntu að reikna eins og 8 ára barn ?

Ný könnun í Bretlandi virðist sýna að stærðfræðikunnáttu fólks fari hrakandi. Stærðfræðispurning sem lögð var fyrir átta ára börn var einnig lögð fyrir 2000 fullorðna. Spurningin var: Hvað er einn áttundi af 32. Nokkrir svarmöguleikar voru gefnir.

Greipávöxtur getur valdið brjóstakrabbameini

Með því að borða einn greipávöxt á dag aukast líkurnar á brjóstakrabbameini um næstum þriðjung samkvæmt nýrri rannsókn sem unnin var í Bandaríkjunum við háskólann í Suður-Kaliforníu og Hawaii. Rannsóknin náði til 50 þúsund kvenna á breytingaraldrinum og sýnir að aðeins einn fjórði af greipávextinum jók líkurnar um allt að 30 prósent.

Fullt af leyndarmálum í Washington

Meira en tuttugu milljón opinber skjöl voru stimpluð leyndarmál í bandarísku stjórnsýslunni á síðasta ári. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur skoðað vinnubrögðin og segir menn alltof gjarna á að veifa trúnaðarstimplinum.

Grænland var eins og Suður-Svíþjóð

Fyrir um hálfri milljón ára ríkti milt veðurfar á Grænlandi og gróður var þar svipaður og í suðurhluta Kanada eða í Smálöndunum í Svíþjóð. Þar voru grænir skógar og býsnin öll af skordýrum og öðru lífi. Þetta kemur fram í grein í vísindaritinu Science sem hefur vakið mikla athygli í allri umræðunni um loftslagsbreytingar.

Boris Berezovsky segir að Rússar hafi reynt að myrða sig

Rússneski auðjöfurinn Boris Berezovsky segir að breska lögreglan hafi komið í veg fyrir morðtilræði gegn sér í síðasta mánuði. Hann segir að lögreglan hafi varað hann við því að rússneskur leigumorðingi hafi ætlað að drepa hann á Hilton hótelinu á London Park Lane.

Norður Kóreumenn loka kjarnorkuverum

Norður Kórea hefur lokað öllum kjarnorkuverum í Yongbyon, samkvæmt upplýsingum Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar. Þetta er fyrsta skref þeirra til að uppfylla skilyrði samkomulags sem gert var í febrúar síðastliðnum en samkvæmt því fær Norður Kórea umtalsvert orkumagn gefins gegn því að þeir hverfi frá kjarnorkuáætlun sinni.

Dani týndur í Tasmaníu

Mikil leit er hafin af 21 árs dönskum manni, Kasper Sörensen, sem hefur verið týndur í Tasmaníu undanfarnar tvær vikur. Hann var þar við klifur en bakpoki hans og klifurgræjur fundust á tindi fjalls á eyjunni þann 10 júlí. Enginn hafði heyrt frá honum í viku fyrir þann tíma.

Flugvél með 170 manns alelda eftir að hafa keyrt á bensínstöð

Flugvél með 170 manns innanborðs hlekktist á í flugtaki frá flugvellinum í Sao Paulo í Brasilíu í kvöld með þeim afleiðingum að hún keyrði beint á bensínstöð. Vélin varð strax alelda en ekki er vitað hvort einhver hafi látið lífið eða hversu margir slösuðust. Björgunaraðgerðir standa nú yfir.

Tólf láta lífið í sjálfsmorðsárás í Pakistan

Að minnsta kosti 12 létu lífið í sjálfsmorðssprengjuárás í Islamabad í Pakistan í dag. Talið er árásinni hafi verið beint gegn stuðningsmönnum, Iftikhar Chaudhry fyrrum dómsmálaráðherra landins.

Dómstólaráð Líbíu mildar dóm yfir heilbrigðisstarfsfólki

Dómstólaráð Líbíu ákvað í dag að milda dóm yfir fimm hjúkrunarkonum frá Búlgaríu og einum lækni frá Palestínu úr dauðdómi í ævilangt fangelsi. Fólkið var dæmt til dauða í síðustu viku fyrir að hafa smitað 438 börn viljandi af HIV veirunni. Talið er að ákvörðun dómstólaráðs Líbíu eigi eftir að liðka fyrir því að fólkið verði látið laust.

Þjálfa hermenn til að greina áfallastreitu

Bandaríski herinn hefur ákveðið að þjálfa alla hermenn til að greina áfallastreitu hjá sjálfum sér svo þeir geti leitað sér aðstoðar. Talið er að um 30 prósent bandarískra hermanna í Írak hafi upplifað áfallastreitu á einhverjum tímapunkti. Herinn hefur þó takmarkaða getu til að hjálpa þessum hermönnum eins og sakir standa.

Friðarfundur væntanlega haldinn í Bandaríkjunum

Fyrirhugaður friðarfundur ríkja fyrir botni Miðjarðarhafs verður væntanlega haldinn í Bandaríkjunum síðar á þessu ári. Þetta kom fram í máli talsmanns bandaríska innanríkisráðuneytisins á blaðamannafundi í dag. Enn liggur þó ekki fyrir hvaða ríkjum verður boðið á friðarfundinn.

Ingibjörg segir Peres vongóðan um frið

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir að Shimon Peres nýr forseti Ísraels sé bjartsýnn á friðarferlið á svæðinu þrátt fyrir að mörg tækifæri hafi glatast á síðustu misserum. Ingibjörg er fyrst erlendra ráðamanna til að hitta Peres eftir að hann tók við forsetaembætti.

Mömmu var ekki skemmt

Spænskur faðir hefur verið sviptur umgengnisrétti við tíu ára gamlan son sinn, eftir að móðirin sá myndir af þeim í nautahlaupinu í Pamplona. Hjónin eru skilin en sonurinn var í sumarfríi með föður sinum. Á myndunum sem móðirin sá voru feðgarnir á harðahlaupum nokkrum metrum á undan 600 kílóa tarfi. Hún hringdi þegar í lögregluna.

Madeleine Potter

J.K. Rowling, höfundur bókanna um Harry Potter hefur farið framá að mynd af Madeleine McCann verði hengd upp í öllum bókabúðum þar sem nýjasta bókin um galdrastrákinn verður seld. Madeleine, sem er fjögurra ára gömul var rænt af hóteli í Portúgal fyrir tveimur og hálfum mánuði.

Undirbúningur hafinn fyrir geimskot Endeavour

Sjö manna áhöfn Endeavour geimskutlunnar frá Nasa er komin til Flórída þar sem undirbúningur fyrir flugtak skutlunnar hefst. Flugtakið er sett þann 7da ágúst. Áfangastaðurinn er Alþjóðageimstöðin þar sem byggingu stöðvarinnar verður haldið áfram.

Líbanski herinn sækir lengra inn í flóttamannabúðir

Líbanskar hersveitir sóttu í dag lengra inn í flóttamannabúðir þar sem þær hafa barist við liðsmenn Fatah al-Islam síðan 20. maí síðastliðinn. Samtökin eru sögð tengjast Al Kæda. Líbanski herinn hefur nú hrakið liðsmenn þeirra inn í lítið horn flóttamannabúðanna. Að minnsta kosti 227 hafa fallið í þessum átökum.

Rússar hóta að reka 80 breska diplomata úr landi

Rússar hafa hótað að reka 80 breska diplomata úr landi í hefndarskyni fyrir brottrekstur fjögurra rússneskra diplomata frá Bretlandi. Rússarnir voru reknir vegna tregðu stjórnvalda til þess að framselja meintan morðingja rússneska njósnarans Alexanders Litvinenkos.

Auðveldara á tveimur jafnfljótum

Mannskepnan stóð upp á afturlappirnar og hóf að ganga upprétt vegna orkusparnaðar sem felst í því. Þetta er niðurstaða bandarískra vísindamanna. Báru þeir saman göngulag nútímamanna og simpansa, sem beita að jafnaði fjórum útlimum við ferðalög sín.

Vill líta á alla landsmenn sem líffæragjafa

Landlæknir Bretlands vill breyta lögum þannig að litið sé á alla þegna landsins sem viljuga líffæragjafa, nema þeir óski sérstaklega eftir því að vera það ekki. Í dag er þessu þveröfugt farið. Sir Liam Donaldson segir að með því megi bjarga hundruðum mannslífa á hverju ári.

Sýrlendingar heimta Golan hæðir

Sýrlendingar segja að þeir muni ekki hefja friðarviðræður við Ísrael nema Ísraelar gefi fyrirfram loforð um að skila öllum Golan hæðunum. Bashar al-Assad, forseti Sýrlands lýsti þessu yfir á sýrlenska þinginu í dag.

Tyrkneskur þingframbjóðandi myrtur

Tyrkneskur frambjóðandi sjálfstæðisflokkssins var skotinn til bana í Istanbul í gærkvöldi. Alþingiskosningar fara fram á sunnudag í landinu. Frambjóðandinn Tuncay Seyranlioglu var í bíl á leið úr sjónvarpsviðtali þegar skotárás var gerð á hraðbraut í borginni. Þrír farþegar í bílnum voru fluttir slasaðir á sjúkrahús.

Fundur Ingibjargar og Peres vakti athygli

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hitti Shimon Peres forseta Ísrael á fundi í Jerúsalem í morgun. Ingibjörg er fyrsti erlendi ráðamaðurinn sem Peres hittir í embætti forseta, en hann tók við því á sunnudag. Fundurinn vakti mikla athygli fjölmiðla í Ísrael og er fjallað sérstaklega um Ísland af því tilefni.

Íranar segja fund með Bandaríkjamönnum líklegan

Utanríkisráðherra Írans sagði í dag að miklar líkur væru á því að Bandaríkin og Íran myndu eiga viðræður í náinni framtíð. Ummæli hans þykja gefa til kynna að fundur verði haldinn á næstunni en utanríkisráðherrar landanna tveggja hittust í Írak í maí síðastliðnum. Talið er að ríkin tvö muni ræða öryggisástandið í Írak og leiðir til þess að bæta úr því.

Fjölskyldur HIV smitaðra barna þiggja bætur

Rúmur helmingur fjölskyldna þeirra 426 barna sem smituðust af HIV veirunni í Líbíu fyrir nokkrum árum hefur þegar fengið bætur sem þeim var lofað. Afgangur þeirra fær væntanlega bæturnar í dag.

Al-Sadr tekur þátt í stjórnmálum á nýjan leik

Stjórnmálaarmur samtaka sjía klerksins Múktada al-Sadr tilkynnti í dag að hann hefði hafið þátttöku í írakska þinginu á ný. Fyrir mánuði síðan dró hann sig úr stjórnarsamstarfi vegna óánægju með viðbrögð stjórnvalda við árás á heilaga mosku sjía múslima.

Síamstvíburar í Kína bíða aðgerðar

síamstvíburar sem fæddust í Kína bíða nú aðskilnaðar. Opinber fréttastofa Kína sendi í gær frá sér myndir af stúlkunum í fyrsta sinn, en sagði ekki til um hvort um stráka eða stúlkur væri að ræða. Tvíburarnir fæddust þann 15. mars síðastliðinn og fara brátt í aðgerð.

Tré drukkna í Osló

Á meðan úrkoman í Reykjavík hefur aðeins verið sjö millimetrar frá miðjum júní, eru tré að drukkna í Osló vegna mikilla rigninga undanfarnar vikur. Tré eru einnig að falla þar vegna þess að jarðvegurinn er orðinn svo gljúpur að ræturnar hafa litla festu.

Erdogan hótar að hætta í stjórnmálum

Forsætisráðherra Tyrklands, Tayyip Erdogan, sagði í dag að hann myndi hætta afskiptum af stjórnmálum ef flokkur hans næði ekki að mynda eins flokks stjórn eftir kosningarnar sem verða á sunnudaginn kemur. Skoðanakannanir gefa til kynna að flokkur hans, AK, muni fá nógu mörg atkvæði til þess að ná meirihluta á þingi.

Tæplega 42.000 skátar koma saman á alheimsmóti

Tæplega 42.000 skátar frá 159 þjóðlöndum munu sækja 21. alheimsmót skáta sem haldið verður í Hylands-Park í Englandi dagana 27. júlí til 8. ágúst. Frá Íslandi fara ríflega 440 íslenskir skátar og mun það vera stærsti hópur sem skátar á Íslandi hafa nokkru sinni sent á viðburð erlendis. Rúmlega 320 þessara þátttakenda eru unglingar á aldrinum 14-18 ára.

Erfitt að sannfæra N-Kóreu um að afvopnast

Stjórnarerindrekar Bandaríkjamanna sögðu við upphaf afvopnunarviðræðna í Bejing í gær að erfitt gæti reynst að sannfæra Norður-Kóreumenn um að láta af kjarnorkuvopnaáætlunum sínum. Norður Kórea lokaði kjarnorkuofni í Yongbyon á laugardaginn og var það fyrsta skref í afvopnunarsamningi sem samþykktur var í febrúar.

Þungir dómar í barnaþrælkunarmáli í Kína

Yfirvöld í Kína dæmdu í morgun einn mann til dauða og 28 í lífstíðarfangelsi fyrir aðild sína að umfangsmiklu barnaþrælkunarmáli. Eigendur, verkstjórar og glæpamenn hjá fyrirtækjunum sem komu að málinu voru þeir sem hlutu dóma. Börnin voru látin herða múrsteina í þartilgerðum ofnum. Þau unnu í 14 til 16 tíma, án launa og fengu oft barsmíðar að degi loknum. Vistarverur þeirra voru litlu betri en fangelsisklefar.

Sjá næstu 50 fréttir