Fleiri fréttir

Torfæruhjólamaður minna slasaður en í fyrstu var talið

Karlmaður, sem slasaðist á torfæruhjóli við Nesjavallavirkjun í gærkvöldi, er minna slasaður en talið var í fyrstu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi var maðurinn á ferð ásamt tveimur félögum sínum þegar framhjólið fór ofan í holu. Þannig kollsteyptist það og maðurinn féll fram fyrir sig.

Kvótakerfið er fyrirmynd víða

„Við erum með hagkvæmt fiskveiðistjórnunarkerfi sem horft er til. Það er sjálfbært og ekki ríkisrekið. Ef breyta á kerfinu þarf það að verða jafn hagkvæmt,“ segir Haraldur Ingi Birgisson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Má ekki neita að staðfesta lög um fjármál

Forsetinn mætti ekki synja staðfestingar fjárlögum, skattalögum og lögum sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum, samkvæmt annarri af tveimur tillögum Stjórnlagaráðs um málskotsrétt forsetans. B-nefnd ráðsins lagði meðal annars fram tvær tillögur um málskotsréttinn á fundi ráðsins í gær.

Barst yfir hafið með skipum

Ný krabbategund, grjótkrabbi (Cancer irroratus), veiðist nú víða við Vesturland aðeins áratug eftir að hún er talin hafa borist til landsins með kjölfestuvatni skipa. Krabbinn er frekar stórvaxinn og er alæta. Lítið er vitað um hugsanlega dreifingu hans til framtíðar, en krabbar sem veiðast í Hvalfirði ná sömu stærð og í sínum náttúrulegu heimkynnum við austurströnd Norður-Ameríku. Krabbinn finnst ekki annars staðar í Evrópu.

Harmar að skólinn bíði hnekki

Stjórn Landakotsskóla hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar Fréttatímans um kynferðisofbeldi gegn börnum innan Landakotsskóla á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Styrkir eru ekki kjördæmapot

Breytingar á úthlutun styrkja frá Alþingi til samtaka, félaga og einstaklinga eru enn eitt höggið sem landsbyggðin þarf að taka á sig. Þetta segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fulltrúi í fjárlaganefnd. Hann hafnar því jafnframt að styrkirnir, sem heita safnliðir á fjárlögum, hafi verið kjördæmapot.

Veiðiheimildir aukast verulega

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gaf í gær út reglugerð um auknar strandveiðar í samræmi við nýsamþykkt lög um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Bætur vegna Álftaneslaugar

Eignarhaldsfélagið Fasteign hefur verið dæmt til þess að greiða Íslenskum aðalvertökum (ÍAV) skaða- og tafabætur, alls að upphæð 82 milljónir króna, vegna framkvæmda við Álftaneslaug. Í dómnum er tekið tillit til kostnaðarhækkana sem urðu á framkvæmdatímanum.

Felldi risabjarndýr í veiðiferð í Kanada

Þórður Örn Kristjánsson hefur ekki látið heyrnarleysi aftra sér frá því að lifa lífinu. Hann varð fyrstur heyrnarlausra til að útskrifast með mastersgráðu frá Háskóla Íslands árið 2008 og stundar nú doktorsnám í líffræði við sama skóla. Líffræðiáhugi Þórðar nær hins vegar út fyrir kennslustofuna því hann hefur brennandi áhuga á veiði. Hann fór ásamt fjölskyldu sinni í sitt mesta ævintýri hingað til á dögunum þar sem honum tókst að fella 200 kílóa svartbjörn.

Innrásarvíkingar með uppistand í sumar

Þrír íslenskir uppistandarar hafa ákveðið að sameina krafta sína og hafa sett sér það markmið að fá íslendinga um land allt til að skella upp úr. Saman mynda þeir uppistandshópinn "Innrásavíkingarnir".

Þrýstingur á vegaframkvæmdir frá verkefnalausum verktökum

Innanríkisráðherra segir umræðu um auknar vegaframkvæmdir fara fram undir þrýstingi frá verkefna litlum verktökum. Ekki verði farið í flýtiframkvæmdir í vegagerð sem kalli á veggjöld en í ár er sex milljörðum varið til nýframkvæmda í vegagerð.

Síðasta flug stofnanda Ernis

Hörður Guðmundsson, flugstjóri og stofnandi flugfélagsins Ernis, lét af störfum í dag á sextíu og fimm ára afmæli sínu. Fjöldi fólks kom honum á óvart þegar hann lenti á Reykjavíkuflugvelli í dag eftir síðasta áætlunarflug sitt.

Lennon og Ono heiðruð í Viðey

Indjánar frá Perú blessuðu landið þegar yfir fimmtíu erlendir friðarunnendur komu saman við friðarsúluna í Viðey í dag til að heiðra baráttu John Lennon og Yoko Ono fyrir friði.

Innanríkisráðherra svarar biskupi

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur svarað bréfi sem ritað var af lögmanni fyrir hönd biskups kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Ögmundur leiðréttir í bréfi sínu misskilning í bréfi kaþólsku kirkjunnar en þar sagði að dregist hefði að senda kirkjunni gögn frá ráðuneytinu sem vörðuðu meint gróf lögbrot af hálfu þjóna kirkjunnar og stofnana hennar á skjólstæðingum sínum. Frá þessu er greint á vef innanríkisráðuneytisins.

Flugmenn stórskaða ferðaþjónustuna

Samtök ferðaþjónustunnar segja aðgerðir flugmanna Icelandair og niðurfellingu fluga stórskaða ferðaþjónustuna hér á landi. Þá segja samtökin að verkfallsvopnið ekki hafa verið lögleitt til þess að þjóna hálaunastéttum í einokunaraðstöðu.

Gæsluvarðhald yfir Black Pistons staðfest í Hæstarétti

Hæstiréttur hefur staðfest áframhaldandi gæsluvarðhald yfir karlmanni á þrítugsaldri sem var handtekinn í maí, ásamt öðrum manni, vegna gruns um meiriháttar líkamsárás, húsbrot og frelsissviptingu. Maðurinn skal sæta gæsluvarðhaldi til 21. júlí næstkomandi en hinn maðurinn hefur hafið afplánun á eftirstöðvum af 2 ára dómi sem hann fékk fyrir að bera eld að húsi.

Biskupinn fundar um næstu skref

Pétur Bürcher, biskup Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, hefur átt fundi í dag um möguleg skref til að bregðast við þeim upplýsingum sem fram hafa komið um kynferðisbrot presta og starfsmanna kirkjunnar. Pétur hefur meðal annars rætt við Róbert Spanó, prófessor í lögfræði, sem veitti rannsóknarnefnd kirkjuþings forystu, en nefndin skilaði fyrr í mánuðinum af sér skýrslu vegna kynferðisbrota Ólaf Skúlasonar, fyrrverandi biskups.

Sumarfjör hjá krökkunum í Breiðholti

Vísir var á ferðinni í Breiðholtinu í gær og tók þar skemmtilegar myndir á smíðavelli ÍTR við Gerðuberg og af gróðursetningardegi á leikskólanum Bakkaborg.

Ekið á barn á hjóli

Ekið var á níu ára gamalt barn sem var á ferð á reiðhjóli við slökkvistöðina í Skógarhlíð í morgun. Tildrög slyssins liggja ekki fyrir en barnið kastaðist af hjólinu og hafnaði á framrúðu bifreiðarinnar. Farið var með barnið, sem var ekki með hjálm, á slysadeild en betur fór en á horfðist og reyndust meiðsl þess minniháttar. Ökumaður bifreiðarinnar er 17 ára.

Gæsluvarðhald framlengt - vistaður á Sogni

Karlmaður á þrítugsaldri, sem grunaður er um að hafa orðið kærustu sinni að bana í maí síðastliðnum, var úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 21. júlí. Beðið er eftir niðurstöðum úr geðheilbrigðisrannsókn og krufningsskýrslum.

Eldur í klæðningu Rimaskóla

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út um þrjúleytið í dag eftir að tilkynnt var um eld í klæðningu Rimaskóla í Grafarvogi. Einn dælubíll fór á vettvang og tók skamma stund að slökkva eldinn.

Starfsfólk Landakotsskóla: Óendanlega sorglegt mál

„Það má öllum vera ljóst að núverandi stjórn og starfsfólk Landakotsskóla taka málið afar nærri sér og finnst þetta mál óendanlega sorglegt. Það veldur óhug meðal skjólstæðinga skólans, foreldra og nemenda. Við vonum að fórnalömbin fái að upplifa eitthvert réttlæti af hendi þeirra sem teljast ábyrgir að lokinni rannsókn opinberra aðila." Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem stjórn Landakotsskóla hefur sent frá sér vegna umræðu um kynferðisbrot innan skólans á árum áður. Þar er tekið fram að Landakotsskóli er ekki kaþólskur skóli í dag heldur sjálfstæð menntastofnun sem rekur forskóla- og grunnskóladeildir í húsakynnum Landakots. „Hjá skólanum starfa eingöngu kennarar með menntun frá Kennaraháskóla Íslands. Enginn kennari eða leiðbeinandi starfar þar á vegum kirkjunnar enda skólinn einkarekin sjálfseignarstofnun og hefur verið það síðastliðin 7 ár. Það eina sem er sameiginlegt með skólanum í dag og þeim skóla sem starfaði á þeim tíma sem þessir hræðilegu atburðir áttu sér stað, er nafnið og staðsetningin," segir í yfirlýsingunni. Einnig kemur fram að í vetur hafi starf skólans verið tekið út af Menntasviði Reykjavíkurborgar og að skólinn hafi þar fengið bestu niðurstöðu sem grunnskóli hefur fengið. „Stjórn og starfsfólk Landakotsskóla harmar að starfsemi skólans nú skuli þurfa bíða hnekki fyrir misyndisverk einstaklinga við skólann á fyrri tíð. Hugur starfsfólks Landakotsskóla er hjá þeim sem eiga um sárt að binda í þessu sorglega máli," segir í yfirlýsingunni.

Jónína segir Ögmund ekki hafa tíma fyrir Gunnar

Jónína Benediktsdóttir, eiginkona Gunnars Þorsteinssonar fyrrverandi forstöðumanns í Krossinum, segir að Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hafi ekki tíma fyrir fund með Gunnari. Jónína biður Guð um að gefa Gunnari styrk.

Löggan ánægð með KR-inga

Lögreglan fylgdist með umferð og lagningum ökutækja í Frostaskjólinu í Vesturbænum í gær á meðan leikur KR og FH í bikarkeppni karla fór fram.

Forseti Hells Angels gagnrýnir „taktík" lögreglu

Einar "Boom" Marteinsson, forseti Hells Angels á Íslandi, er afar ósáttur við að lögreglan bendli samtökin við handtöku manns sem var gómaður með heimagert skotvopn í fyrradag. "Þetta tengist okkur ekki á neinn hátt. Fréttin hjá lögreglunni er röng. Þetta er bara "taktík" hjá lögreglunni að bendla okkur við þetta," segir Einar. Lögreglan sendi út fréttatilkynningu í gær um handtökuna og segir þar: "Á staðnum fundust einnig gögn sem tengjast ætluðum meðlimum vélhjólahópsins Hells Angels og er hinn handtekni grunaður um að tengjast hópnum." Vísir birti frétt um málið í gær og hafði Einar því samband við fréttamann í því skyni að koma sínu sjónarmiði á framfæri. Einar hefur áður gagnrýnt upplýsingagjöf lögreglu til fjölmiðla og segir hann Hells Angels ítrekað bendlað við glæpastarfsemi, að ósekju. Þá hefur hann gefið út að hann ætli að stefna lögreglustjóra og innanríkisráðherra fyrir meiðyrði eftir að þeir gáfu út opinberlega að Hells Angels væru glæpasamtök. Neitar því að vera glæpamaður Þegar blaðamaður segir við Einar að það sé einföld staðreynd að meðlimir Hells Angels hafi um víða veröld verið handteknir og dæmdir fyrir alvarlega glæpi, svarar Einar: "Það eru menn sem tengjast Sjálfstæðisflokknum sem hafa verið dæmdir fyrir glæpi. Það eru menn sem tengjast Þjóðkirkjunni sem hafa verið dæmdir fyrir glæpi." Blaðamaður spyr Einar því beint hvort hann sé sjálfur glæpamaður. "Nei, ég er mótorhjólamaður," svarar hann. Einar segir Hells Angels vera fjölskylduvæn samtök áhugamanna um mótorhjól og er honum annt um að þau séu ekki tengd við afbrot af nokkru tagi.

Yfirvinnubann flugmanna hafið

Yfirvinnubann hjá flugmönnum Icelandair er hafið. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu stendur sáttafundur í kjaradeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna fyrir hönd flugmanna Icelandair og Samtaka atvinnulífsins fyrir Icelandair enn yfir og er staðan mjög óljós. Fundað er í húsakynnum Ríkissáttasemjara.

Verslanir fari að settum reglum um verðmerkingar

Neytendasamtökin krefjast þess að verslanir fari að settum reglum varðandi verðupplýsingar til neytenda. Samtökin hvetja auk þess Neytendastofu og Samkeppniseftirlitið til að fylgjast vel með því hvernig nýjar reglur reynast og grípa til aðgerða reynist þörf á.

Kópurinn litli fær klapp og rjómablandaða mjólk

Litli kópurinn sem hefur gert sig heimakominn í fjöru í Kópavogi hefur fengið rjómablandaða mjólk í sprautu og líkað vel. Hann er orðinn heldur vanur mannfólkinu og hafði ekkert á móti því að leyfa þessum ungu dömum, sem hér sjást á myndunum, að klappa sér þegar þær bara að í fjörunni. Kópsins varð fyrst vart í Kópavogi á þriðjudag og hefur hann reglulega haft viðkomu í fjörunni síðan. Lögregla og starfsmenn Fjölskyldu- og húsdýragarðsins voru kallaðir til í gær af áhyggjufullum dýravinum. Þar sem kópurinn virtist í ágætum holdum og hafa það bærilega var ákveðið að láta hann óáreittan þannig að náttúran gæti haft sinn gang.

Sögulegt tækifæri til að ná sátt

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, segir til mikils að vinna að útkljá þann ágreining sem ríkt hafi meðal þjóðarinnar um stjórn fiskveiða undanfarna þrjá áratugi. Tækifærið sé núna og frumvarp sjávarútvegsráðherra um stjórn fiskveiða sé góður grunnur til þess, þótt frumvarpið muni taka breytingum í meðförum Alþingis.

Sorptunnureglan tekur gildi í ágúst

Ákveðið hefur verið að fresta því að umdeild sorptunnuregla taki gildi í Reykjavík en hún kveður á um sérstakt gjald vegna sorptunna sem eru lengra en 15 metra frá götu.

Heimsótti eina stærstu góðgerðarstofnun heims

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, kom heim frá Seattle í Bandaríkjunum í morgun þar sem hann sótti málþing um samvinnu milli Íslands og fyrirtækja, háskóla og rannsóknarstofnana þar vestra. Ólafur flutti setningarræðu á málþinginu sem var meðal annars sótt af forráðamönnum Microsoft, American Seafood, Amazon og áhrifafólki í miðlun tónlistar og menningar. Hann heimsótti einng Bill and Melinda Gates Foundations sem er ein stærsta góðgerðarstofnun heims.

Önnur hryssa með skurði á kynfærum

Nýtt mál er komið upp þar sem skurðir fundust á kynfærum hryssu. Talið er að áverkarnir séu af mannavöldum. Málið var kært til lögreglunnar á Sauðárkróki fyrr í þessum mánuði en lögreglan á Egilsstöðum hefur svipað mál til rannsóknar. Hjá lögreglunni á Sauðárkróki fengust engar upplýsingar um stöðu málsins aðrar en þær að það væri til rannsóknar. Þannig fékkst því ekki svarað hvort einhver liggur undir grun eða hvort málin eru talin tengjast. Þrjár hryssur á Norðurlandi fundust í byrjun mánaðarins með skurði sem taldir eru af mannavöldum. Tvær þeirra voru með skurði á snoppu en ein var með skurði á kynfærum og í skeið. Eigandi hrossanna hafði strax samband við dýralækni sem eftir skoðun komst að þeirri niðurstöðu að hryssurnar hefðu ekki getað veitt sér áverkana sjálfar, og því er talið um mannanna verk að ræða. Hryssurnar fengu skjótt viðeigandi aðhlynningu og voru sár farin að gróa eftir örfáa daga. Þeir sem þekkja til málsins segja það afar óhuggulegt, sér í lagi í ljósi þess að svipað mál kom upp í umdæmi lögreglunnar á Egilsstöðum fyrir rúmum mánuði. Þá fann hestamaður tvo skurði á kynfærum hryssu þegar hann var í útreiðatúr og sá blæða úr hryssunni. Dýralæknir var kallaður til og málið kært til lögreglu, en fljótt vaknaði grunur um að um svokallaðan "hestaripper" væri að ræða, dýraníðing sem nýtur þess að misþyrma hrossum. Heitið hestaripper er dregið af nafni breska fjöldamorðingjans Jack the Ripper, betur þekktur hér á Íslandi sem Kobbi kviðrista.

Allt að 14 rúður brotnar í biskupsbústaðnum

Karlmaður var handtekinn við biskups- og prestsbústaðinn við Landakot í nótt eftir að hafa brotið fjölmargar rúður í bústaðnum. Séra Patrick Breen, staðgengill biskups kaþólsku kirkjunnar hér á landi, segir að maðurinn hafi brotið allt að 14 rúður í bústaðnum sem stendur við Hávallagötu í Reykjavík.

Yfirvinnubann hefst að óbreyttu eftir hádegi

Samningamenn flugmanna hjá Icelandair og fulltrúar Samtaka atvinnulífsins reyna nú til þrautar að ná samkomulagi í kjaradeilunni, til að koma í veg fyrir yfirvinnubann flugmanna, sem hefst eftir þrjár klukkustundir, ef ekki semst fyrir þann tíma.

Lækka bensínið um fimm krónur

Olíufélögin Atlantsolía og Orkan lækkuðu bensín- og dísilverð í morgun um fimm krónur, eftir að hafa lækkað bensínið um þrjár krónur í gær. Hin félögin fylgdu í kjölfar lækkkunarinnar í gær og búist er við að þau fylgi líka lækkuninni í dag.

Meirihlutinn í Árborg starfar áfram

„Við þurftum að hrista okkur aðeins betur saman,“ segir Elfa Dögg Þórðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Árborg. Búið er að leysa ágreiningsmál innan meirihlutans sem mun starfa áfram.

Vonar að séra George sé í helvíti

"Ef það er til helvíti, og mikið svakalega vona ég það, þá er hann þar. Hann var alveg skelfilegur maður. Hann talaði um að ef ég segði frá myndi mamma deyja." Þetta segir Iðunn Angela Andrésdóttir í viðtali í Fréttatímanum þar sem hún greinir frá kynferðislegu ofbeldi sem séra George, skólastjóri Landakotsskóla, beitti hana þegar hún var barn. Tvær konur stíga fram í Fréttatímanum í dag og greina frá því að séra Georg hafi misnotað þær kynferðislega þegar þær voru nemendur við Landakotsskóla. Angela segir skólastjórann hafa byrjað að misnotað sig þegar hún var tíu ára og að ofbeldið hafi staðið yfir í þrjú ár. "Hann þuklaði á mér, sleikti á mér eyrun, fór undir peysuna og þuklaði brjóstin á mér. Fór ofan í nærbuxurnar og stakk fingrunum inn í mig. Þegar ég var orðin aðeins eldri fór hann inn í fataherbergið og fróaði sér," segir Angela. Fréttatíminn greindi frá því í síðustu viku að fagráð um kynferðisbrot innan kirkjunnar hafi til meðferðar mál tveggja manna sem saka starfsmenn kaþólsku kirkjunnar um andlega og kynferðislega misnotkun. Í nýjasta tölublaðinu sem kom út í dag er umfjölluninni haldið áfram. Hin konan sem þar stígur nú fram, Rut Martine Unnarsdóttir, segir að sér hafi brugðið við að lesa lýsingarnar á ofbeldinu sem birtust í síðasta tölublaði Fréttatímans og að þær hafi ýtt við henni að segja frá sinni reynslu. Biskup Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, séra Pétur Bürcher, sendi frá sér yfirlýsingu í liðinni viku vegna umfjöllunar Fréttatímans um kynferðisbrot starfsmanna kirkjunnar þar sem hann hafnaði ásökunum um þöggun. Hann sagðist taka ásakanirnar mjög alvarlega en velti því jafnframt upp hver væri réttur látinna einstaklinga sem sakaðir eru um þessi brot, en ásamt séra George var kennari við skólann, Margrét Müller sakaður um að hafa beitt nemendur ofbeldi.

Fimmtán íslenskar ísbúðir við Eystrasalt

Fyrirhugað er að fimmtán íslenskar Yoyo-jógúrtísbúðir verði opnaðar í Eystrasaltslöndunum á þessu ári. Fyrstu þrjár búðirnar opna í Ríga í Lettlandi í lok júlí. „Það er bara gaman að því að við séum að bæta við okkur,“ segir Kristján Einarsson, einn af eigendum Yoyo-ísbúðanna.

Skötuselur gaf af sér 109 milljónir í styrki

Styrkjum hefur verið úthlutað úr verkefninu Atvinnusköpun í Sjávarbyggðum, sem byggir á tekjum af svokölluðum skötuselspeningum, þ.e. sölu aflaheimilda á síðasta og yfirstandandi fiskveiðiár til að veiða skötusel og til frístundaveiða samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.

Yfirvinnubann í dag ef ekki tekst að semja

„Þetta mjakast. Við bindum vonir við að endar náist saman.“ sagði Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair í gærkvöldi. Sáttafundur í kjaradeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair, sem hófst klukkan hálftíu í gærmorgun, stóð enn yfir hjá Ríkissáttasemjara þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöldi.

Stefna að því að ná sáttum

„Eigandi Hótels Hellna kom með sáttahug að máli við fjölskylduna. Það er stefnt að því að hittast um helgina og reyna að ná niðurstöðu. Vonandi verður hægt að gera sanngjarnan lóðarleigusamning,“ segir Ólína Gunnlaugsdóttir, eigandi Fjöruhússins, lítils kaffihúss á Hellnum.

Launabætur hverfa í dýrtíð

Tólf mánaða verðbólga verður 5,2 prósent í september og ársfjórðungsverðbólga gæti farið í 6 prósent, gangi spá greiningardeildar Arionbanka eftir. Það þýðir að launahækkanir nýsamþykktra kjarasamninga munu hverfa.

Sjá næstu 50 fréttir