Fleiri fréttir

Ströng stefna gagnvart innflytjendum

Íslendingar hafa ströngustu innflytjendastefnu í lýðfrjálsum heimi. Þetta fullyrðir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði sem segir tómt mál að tala um að takmarka flæðið frá Evrópu til landsins á grundvelli undantekninga frá EES samningi.

Ísfirðingar vilja aðgerðir í atvinnumálum

Fullt var út úr dyrum á almennum borgarafundi á Ísafirði í dag þar sem þess var krafist að gripið yrði til sértækra aðgerða til að bjarga atvinnulífi á staðnum. Þingmenn og sveitarstjórnarmenn voru hvattir til að leggja flokkspólitísk ágreiningsefni til hliðar og sameinast um brýn úrlausnarefni í atvinnu- og byggðamálum.

Saksóknari og Samkeppniseftirlitið gegn breytingartillögum Sjálfstæðismanna

Saksóknari efnahagsbrota segir í bréfi til efnahags og viðskiptanefndar að breytingar sem sjálfstæðismenn vilja gera á nýju frumvarpi til samkeppnislaga, hefðu bein áhrif á mál olíuforstjórana sem er fyrir dómstólum. Þetta kemur fram í bréfi hans til efnahags og viðskiptanefndar, þar sem hann leggst gegn breytingunum.

Vatnstjón vegna eldingar

Gríðarlegt tjón varð í morgun vegna mestu flóða í íbúðarhúsnæði sem slökkviliðið í Reykjavík hefur þurft að kljást við. Orsökina virðist mega rekja til dæla á vegum borgarinnar sem urðu óvirkar þegar eldingu laust niður í raflínur í grennd við borgina. Skammhlaupið olli hitavatnsleysi í Árbæ og sló út rafmagn í álverunum í Straumsvík og á Grundartanga.

Stóraðgerð lögreglu á Suðurnesjum

Tugir lögreglumanna og tollvarða á Suðurnesjum tóku þátt í stórri aðgerð í gærkvöld til að stemma stigu við vaxandi umsvifum fíkniefnasala í umdæminu. Farið var í sex húsleitir, tólf voru handteknir og hald lagt á talsvert af fíkniefnum.

Varaði við að byggð risi nærri álverinu

Fyrrverandi forstjóri álversins í Straumsvík fór fram á það við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði að ný íbúabyggð myndi ekki rísa nærri álverinu. Þetta kemur fram í fréttaskýringaþættinum Kompási í kvöld. Í bréfinu, sem skrifað var fyrir tólf árum, segir að stækkun ÍSAL þýði meiri mengun frá álbræðslunni og hættu á árekstrum.

Bush fer til Kólumbíu

Þúsundir lögreglumanna og hermanna fylltu götur Bogota í Kólumbíu áður en George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, kom þangað í dag. Heimsókn hans er sú síðasta í röð heimsókna til landa í Suður-Ameríku áður en hann snýr heim á leið.

Nýr gervigrasvöllur formlega afhentur ÍR

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, afhenti í dag ÍR formlega til afnota nýjan gervigrasvöll, sem gerður hefur verið við félagsheimili ÍR að Skógarseli 12. Afhendingin var í tengslum við 100 ára afmæli ÍR. Gervigrasvöllurinn ásamt öryggissvæðum er nær 9 þúsund fermetrar og er hann afgirtur með fjögurra metra hárri stálgrindargirðingu. Gervigrasvöllurinn er flóðlýstur með 18 m háum ljósamöstrum, sex að tölu.

Elding ástæða tugmilljóna tjóns

Svo virðist sem að eldingu hafi lostið niður í loftlínur á milli Kolviðarháls og Geitháls og ollið skammhlaupi í háspennukerfi Landsnets. Atvikið virðist hafa haft áhrif á búnað hjá Reykjavíkurborg sem og álverunum á Grundartanga og í Straumsvík. Samkvæmt því sem Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, sem rekur dreifikerfi Landsvirkjunar, segir á það ekki að gerast undir eðlilegum kringumstæðum. Hvers vegna eldingin hafði þessi áhrif verður rannsakað eftir helgi.

Vestfirðingar krefjast lausna

Um tvö hundruð Vestfirðingar mættu á hvatningar og baráttufund í dag. Blikur eru á lofti í atvinnulífi svæðisins og var fundurinn ákall til kjörinna fulltrúa Vestfjarða á þingi og sveitarstjórnum um að þeir taki höndum saman, leggi flokkspólitísk ágreiningsefni til hliðar og sameinist í að leysa brýn verkefni í atvinnu og byggðamálum Vestfjarða.

Hvetur stjórnmálaflokka til áherslu á umhverfismál

Framtíðarlandið hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem það hvetur alla stjórnmálaflokka á Íslandi ti þess að svara kalli almennings um auknar áherslur á náttúruvernd og umhverfismál, virða þau verðmæti sem felast í óspilltri náttúru landsins, og vaxtarhugmyndum sem byggja á hugviti, nýsköpun og útrás.

Forsetahjónin heimsækja Ártúnsskóla

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú munu heimsækja Ártúnsskóla á morgun, mánudaginn 12. mars. Ártúnsskóli hlaut Íslensku menntaverðlaunin árið 2006 í flokki skóla sem sinnt hafa vel nýsköpun og farsælu samhengi í fræðslustarfi en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem að forsetaembættið sendi frá sér í dag.

Elding olli skammhlaupi

Svo virðist sem að eldingu hafi lostið niður í loftlínur á milli Kolviðarháls og Geitháls og ollið skammhlaupi. Atvikið virðist hafa haft áhrif á búnað hjá Reykjavíkurborg sem og álverunum á Grundartanga og í Straumsvík.

Vonast til þess að hleypa vatni á fyrir kvöldið

„Við vonumst til þess að þetta verði komið í lag fyrir kvöldið.“ sagði Guðmundur Sigurjónsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar í samtali við Vísi. Loka þurfti fyrir heitt vatn í Árbæjarhverfi í morgun þar sem leki hafði komið að aðalæðinni inn í hverfið.

Var ekki misnotaður

Páll Pétursson formaður Lyfjaverðsnefndar þvertekur fyrir að hafa látið fyrirtækið Actavis misnota sig til að koma í veg fyrir samkeppni eins og fyrirtækið Portfarma heldur fram.Málið hefur verið kært til Samkeppniseftirlitsins en talsmenn Portfarma segja Pál hafa viðurkennt mistökin í vitna viðurvist. Páll segist ekki kunna að meta þessi sannleiksvitni frá Portfarma, en þeir fari ekki með rangt mál heldur ýki.

Gríðarlegt vatnstjón í kjallara fjölbýlishúss

Gríðarlegt vatnstjón varð í flóði í nótt í kjallara fjölbýlishúss við Sólvallagötu. Þetta er mesta vatnsflóð í húsi sem slökkvliðið hefur þurft að kljást við en talið var að allt að tvö þúsund tonn af vatni hafi verið í bíla- og geymslukjallara hússins.

Þrír teknir eftir bikarúrslitaleik

Kalla þurfti lögreglu til eftir að átök brutust út á úrslitaleik í bikarkeppninni í handbolta í dag. Stuðningsmenn liðanna tveggja, Fram og Stjörnunnar, áttu þá í handalögmálum sem bárust út á völl. Öryggisverðir á leiknum komu þá til og héldu mönnunum og hentu þeim út. Lögregla handtók mennina og fór með þá niður á stöð þar sem þeir voru teknir tali. Eftir það var þeim sleppt.

Gæti breytt lífi milljóna manna

Íslenska fyrirtækið Icexpress hefur þróað byltingarkennda aðferð sem gerir nánast hverjum sem er kleift að smíða fullkomna gervilimi á aðeins fáeinum klukkustundum. Össur Kristinsson, einn stofnenda fyrirtækisins, segir að með uppfinningunni verði hægt að gerbreyta lífi milljóna manna í þróunarlöndunum.

Gæti haft bein áhrif á niðurstöðu dómstóla

Frumvarp til breytinga á samkeppnislögum sem nú er til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis gæti haft bein áhrif á niðurstöðu dómstóla í málinu gegn forstjórum olíufélaganna. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn eru þó ekki á eitt sáttir en frumvarpið kveður á um skýrari refsiábyrgð einstaklinga í samkeppnismálum.

Formaður Lyfjaverðsnefndar sakaður um gáleysi

Fyrirtækið Portfarma ásakar Pál Pétursson, formann Lyfjaverðsnefndar, um að hafa látið fyrirtækið Actavis misnota sig í janúar þegar hann krafðist þess að Actavis lækkaði verð á samheitalyfjum hér til samræmis við verð sem það byði á öðrum Norðurlöndum. Actavis, sem ræður níutíu og átta prósentum markaðarins, hafi gripið tækifærið og lækkað að stórum hluta verð á lyfjum eina samkeppnisaðilans í landinu.

Tæki sem gefa börnum sjón í kössum í sjö mánuði

Tæki sem Vátryggingafélag Íslands gaf Sjónstöð Íslands fyrir ári hafa legið ónotuð í kössum í að minnsta kosti sjö mánuði. Með tækjunum er hægt að búa til snertilinsur fyrir börn, sem augasteinar hafa verið fjarlægðir úr, þannig að þau geti séð án þess að þurfa á þungum og þykkum gleraugum að halda.

Veður fer versnandi á landinu

"Já það er versnandi veður á sunnan og vestanverðu landinu og síðar í kvöld má búast við stórhríð á heiðum á Vestfjörðum og einnig gæti orðið talsvert blint á Holtavörðuheiði og raunar víðar gangi spár eftir" segir Sigurður Þ. Ragnarsson yfirveðurfræðingur á Veðurstofu Stöðvar 2.

Slagsmál á milli stuðningsmanna

Upp úr sauð á milli nokkurra stuðningsmanna Stjörnunnar og Fram á bikarúrslitaleik liðanna sem lauk rétt í þesu með sigri Stjörnunnar. Í seinni hálfleik hófust slagsmál í stúkunni og brátt barst leikurinn út á gólfið. Gera þurfti hlé á leiknum í nokkrar mínútur á meðan öryggisverðir komu mönnunum út úr húsi. Reikna má með því að atvikið hafi einhverja eftirmála fyrir félögin.

Slasaðist á skíðaæfingu

Ein stúlka slasaðist á skíðaæfingu í Bláfjöllum í dag og var farið með hana á slysadeild. Óttast er að hún hafi fótbrotnað. Búið er að loka í Bláfjöllum vegna skyndilega versnandi veðurs. Nú er skollinn á snjóbylur í fjöllunum og skyggni orðið mjög lítið.

Samtök iðnaðarins með athyglisverðasta sýningarsvæðið

Sýningarsvæði Samtaka iðnaðarins var nú síðdegis valið það athyglisverðasta á stórsýningunni Tækni og viti 2007, sem haldin er í Fífunni. Önnur verðlaun hlaut fyrirtækið CAOZ, sem sérhæfir sig í gerð tölvugerðra teiknimynda. Fyrirtækin Rue de Net, sem er hugbúnaðarfyrirtæki, og hönnunarfyrirtækið H2 hönnun skiptu síðan milli sín þriðju verðlaunum.

Fimmfaldur pottur: stefnir í 35 milljónir

Fyrsti vinningur í lottóinu gekk ekki út um helgina og er því fimmfaldur laugardaginn 10. mars og stefnir í 35 milljónir sem er stærsti fimmfaldi fyrsti vinningur frá upphafi.

Ætla að læra í sólarhring

Nemendur Menntaskólans Hraðbraut ætla að læra í 24 tíma til að safna sér fyrir útskriftarferðinni sinni. Kennarar og foreldrar gefa vinnu sína og sitja yfir þeim til að tryggja að allt fari rétt fram. Þau hafa fengið þónokkurn styrk frá stórum fyrirtækjum.

Forritunarkeppni framhaldsskóla haldin í sjötta sinn

Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík heldur forritunarkeppni framhaldsskólanna í sjötta sinn í dag. Átján lið frá tíu framhaldsskólum keppa að þessu sinni. Keppt er í þremur þyngdarflokkum en keppnin skiptist í tvo hluta.

Betur má ef duga skal

Konum fjölgaði um 4% í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Annað hvert sveitarfélag hefur nu komið sér upp jafnréttisáætlun en betur má ef duga skal, segir Jafnréttisstofa.

Gengi DeCode hækkar

Hlutabréf í DeCode, móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar, hækkuðu um tíu prósent á NASDAQ hlutabréfamarkaðnum fyrir helgi, eftir að greiningaraðili uppfærði bréfin vegna væntinga um jákvæðar fréttir af fyrirtækinu á næstunni. Hlutabréfin hækkuðu um 35 sent á hlut, eða um 10 prósent.

Rafrænum skilríkjum dreift í haust

Meirihluti landsmanna verður kominn með rafræn skilríki í seðlaveskið á næsta ári. Þau ættu að einfalda fólki lífið og auka öryggi barna og unglinga sem vilja spjalla saman á netinu.

Sýningin tækni og vit er um helgina

Sýningin tækni og vit er opin almenningi um helgina en á sýningunni kynna mörg helstu hátæknifyrirtæki landsins það nýjasta í tækni og þekkingu. Sýningin stærsti viðburður sem haldinn hefur verið á Íslandi á þessu sviði.

MK nemar styrkja Dvöl

MK-nemar halda fata- og nytjamarkað í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar að Hamraborg 11 nú um helgina, bæði laugardag og sunnudag, kl. 11-16. Markaðurinn er haldinn í samvinnu við Dvöl, athvarf fyrir geðfatlaða í Kópavogi, og rennur allur ágóði óskiptur í ferðasjóð athvarfsins.

Fertugum er ekki allt fært

Fertug kona var flutt á lögreglustöðina í Reykjavík eftir umferðaróhapp á Kringlumýrarbraut í gær vegna gruns um að hún væri undir áhrifum lyfja. Sama kona var stöðvuð við akstur í Lönguhlíð síðar um daginn og þá þótti einsýnt að hún væri undir áhrifum lyfja. Aksturslag hennar var stórhættulegt en konan virtist vera við það að sofna þegar að var komið. Hún var færð á lögreglustöð þar sem læknir úrskurðaði að konan væri óhæf til aksturs.

Vinnuslys í Gufunesi

Karlmaður á þrítugsaldri var fluttur á slysadeild eftir vinnuslys sem hann varð fyrir við Sorpu í Gufunesi um hádegisbil í dag. Sýningarbás sem komið var með til eyðingar í Sorpu féll á fót mannsins af lyftara.

Marorka hlaut Vaxtarsprotann

Fyrirtækið Marorka hlaut Vaxtarsprotann, viðurkenningu fyrir uppbyggingu sprotafyrirtækis. Það var Jón Sigurðsson iðanaðar- og viðskiptaráðherra sem afhenti Jóni Ágústi Þorsteinssyni framkvæmdastjóra Marorku viðurkenninguna. Fyrirtækið jók veltu sína milli áranna 2005 og 2006 um 87,5% sem var mesti vöxtur sprotafyrirtækis á tímabilinu. Marorka er tæknifyrirtæki sem þróar tölvukerfi sem lágmarka olíunotkun skipa og draga þar með úr mengun og kostnaði. Fyrirtækið var stofnað árið 2002 með þremur starfsmönnum en í dag eru starfsmenn orðnir 24.

Andstæðingar álversstækkunar eiga við ofurefli að etja

Heldur hefur dregið úr andstöðu Hafnfirðinga við stækkun álversins í Straumsvík, ef marka má nýja könnun sem Blaðið birtir í dag. Talsmaður Sólar í Straumi, sem berst gegn stækkuninni, segir andstæðinga álversins eiga við ofurafl að etja.

Vinstri grænir næst stærstir

Vinstrihreyfingin - grænt framboð er næststærsti flokkurinn á eftir Sjálfstæðisflokki samkvæmt nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup fyrir Ríkisútvarpið og Morgunblaðið. Innan við sjö prósentum munar á fylgi flokkanna tveggja. Búast má við því að tónninn í garð vinstri grænna eigi eftir að harðna nokkuð í ljósi þessa.

Ástæðulaus gagnrýni segir fjármálaráðherra

Fjármálaráðherra segir að ekki sé verið að þrengja að starfsemi fjármálafyrirtækja í landinu með nýlegri reglugerð, eins og stjórnarformaður Straums Burðaráss fullyrti í gær. Þá tæki fjármálaráðuneytið ekki við tilskipunum frá Seðlabankastjóra en hlustað væri eftir sjónarmiðum hans rétt eins og sjónarmiðum fjármálafyrirtækjanna.

Stjórnarandstaða fíflast með alvarleg málefni

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um auðlindaákvæði í stjórnarskrá verður tekið á dagskrá á mánudag. Stjórnarandstaðan segir að frumvarpið eigi að festa í sessi núverandi kvótakerfi. Hún neitaði að veita afbrigði svo hægt væri að koma frumvarpinu á dagskrá í dag. Forsætisráðherra sakaði stjórnarandstæðinga um að reyna að koma illu til leiðar í stjórnarsamstarfinu og fíflast með alvarleg málefni.

Umboðsmaður barna aðhefst ekki vegna forsíðu

Umboðsmaður barna telur ekki ástæðu til að bregðast við ábendingum doktors í fjölmiðlafræði um að forsíða auglýsingabæklings Smáralindar feli í sér klámfengnar vísanir. Fjórtán ára fyrirsæta er á forsíðunni.

Vistmenn Byrgis orðnir sakborningar

Fyrrverandi vistmenn í Byrginu hafa verið boðaðir í yfirheyrslu til Skattrannsóknarstjóra með réttarstöðu sakbornings. Svo virðist sem nýverið hafi verið skráðar á þá launagreiðslur og þeir grunaðir um að hafa ekki gefið þær upp. Konur sem kært hafa Guðmund fyrir kynferðisbrot eru meðal þeirra sem boðaðir eru í yfirheyrslu.

Nýr samstarfsvettvangur SF og LÍÚ

Landsamband íslenskra útvegsmanna, LÍÚ og Samtök fiskvinnslustöðva, SF stonuðu saman í dag Samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi sem verða samstarfsvettvangur samtakanna tveggja. Í tilkynningu segir að meginhlutverk samstarfsins felist í nánara samstarfi og samþættingu verkefna er varða kynningar- og ímyndarmál sjávarútvegisns, auk umhverfismála og annarra verkefna sem varða sameiginlega hagsmuni. Þá var kjörin stjórn hinna nýju samtaka sem í sitja fimm fulltrúar, þrír frá LÍÍ og tveir frá SF. Stjórn samtakanna skipa Björgólfur Jóhannsson, Eiríkur Tómasson og Friðrik J. Arngrímsson f.h. LÍÚ og Arnar Sigurmundsson og Jóhannes Pálsson f.h. SF.

Hæstiréttur staðfestir DNA-rannsókn vegna kröfu Lúðvíks

Hæsturéttur hefur staðfest dóm héraðsdóms þess efnis að fram megi fara DNA-rannsókn á lífsýnum úr Lúðvík Gizurarsyni, móður hans og Hermanni Jónassyni, fyrrverandi forsætisráðherra, sem Lúðvík heldur fram að sé faðir sinn.

Hvar snjóar mest hér á land?

Á Íslandi snjóar mest í suðurhlíðum Mýrdalsjökuls, á Öræfajökli og sunnan til á Vatnajökli. Snjókomutíðni er mjög háð hæð yfir sjó og hitafari. Snjór er mun meiri og þrálátari á hálendi en láglendi.

Sjá næstu 50 fréttir