Fleiri fréttir

Potturinn gekk ekki út

Enginn var allar tölurnar réttar í lottóinu í kvöld. Einn var með fjórar tölur réttar + bónustöluna og fær sá rúmlega 210 þúsund krónur í sinn hlut. Tölur kvöldsins voru: 1 - 3 - 6 - 24 - 35 Bónustala: 45 Jókertölur: 8 - 3 - 6 - 9 - 8

Kemur til greina að flýta framkvæmdum

Framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs segir vel koma til greina að sjóðurinn flýti framkvæmdum við ókláraðar íbúðir til að koma þeim fyrr út á leigumarkaðinn. Hann býst við því að sjóðurinn muni eiga um 2000 íbúðir í lok ársins sem teknar hafa verið eignarnámi.

Ódýrar indverskar sprautunálar ollu vandræðum á Landspítalanum

Dæmi eru um að Landspítalinn hafi fengið ónýtar indverskar sprautunálar sem ekki virkuðu sem skyldi og lyfjabrunna sem ekki stóðust gæðakröfur því hagkvæmasta tilboði var tekið í útboði til að spara peninga. Þetta olli bæði sjúklingum og starfsfólki óþægindum.

Alvarlega slasaður og haldið sofandi í öndunarvél

Farþegi í bíl sem ökumaður missti stjórn á við Geirsgötuna í Reykjavík í gærkvöldi, liggur enn alvarlega slasaður á slysadeild. Samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi lækni á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi er honum haldið sofandi í öndunarvél.

Bandaríkjamanni rænt í Pakistan

Sextíu og þriggja ára bandarískum karlmanni var rænt af átta vopnuðum mönnum í borginni Lahore í Pakistan í morgun. Ræningjarnir komu á nokkrum bílum að heimili mannsins og yfirbuguðu öryggisverði hans og námu hann síðan á brott.

Veiddu í soðið við Sæbrautina

Makríll spókaði sig í þúsundatali í sjávarmálinu við Sæbrautina í dag og nýttu margir tækifærið og tóku upp veiðistöngina. Heyrst hefur um svipaðar torfur víða um land undanfarna daga. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjasviðs Hafrannsóknarstofnunar, sagði í fréttum Stöðvar 2 í fyrra dag að makríllinn fari upp á mjög grunnt vatn og leitar að fæðu.

65 prósent Íslendinga á móti aðild að ESB

Um 65 prósent Íslendinga eru á móti aðild að Evrópusambandinu, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Capacent-Gallup gerði fyrir Heimssýn, samtök sem berjast gegn aðild að ESB.

Bernaisesósuís í Hveragerði

Hvergerðingar búast við um 15 þúsund manns í bæinn í dag en Ísdagurinn verður haldinn hátíðlegur þar. Þar gefst gestum og gangandi kostur á að smakka ýmsar furðulegar tegundir af ís og má þar nefna sláturís, bearnaisesósuís, hvítlauksís, og hverarúgbrauðsís svo eitthvað sé nefnt. Ísdælurnar voru opnaðar klukkan 13:30 og Ingó úr Veðurguðunum og nokkrir íbúar Latabæjar byrja að skemmta fólki klukkan 14.

Fjör á Dönskum dögum í Stykkishólmi

Karlmaður um tvítugt var tekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna í Stykkishólmi í gærkvöldi en þar fara fram Danskir dagar. Þá var karlmaður tekinn ölvaður undir stýri í nótt í bænum.

Ófremdarástand á leigumarkaðnum

Ófremdarástand er á leigumarkaðnum og dæmi eru um að 40 fermetra íbúðir séu leigðar á yfir 150 þúsund krónur. Starfsmaður hjá Leigumiðlun segir mikilvægt að bankarnir komi inn á leigumarkaðinn enda séu hundruðir íbúða í eigu bankanna auðar.

Júlía enn í varðhaldi

Júlía Tímosjenko, fyrrum forsætisráðherra Úkraínu, situr enn í varðhaldi eftir að dómstóll hafnaði beiðni hennar um að verða látin laus.

Bandarísk ofurlögga ráðleggur Bretum

Bresk yfirvöld hafa ráðið bandaríska ofurlöggu til að ráðleggja þeim í baráttunni við glæpagengi. Dómstólar hafa vart undan að afgreiða mál óeirðaseggja í landinu.

Heimilislaus piltur reyndi að ræna verslun með hamri

Nítján ára gamall piltur reyndi að fremja vopnað rán í 10-11 verslun í Glæsibæ í nótt. Hann kom grímuklæddur inn í verslunina og var vopnaður klaufhamri. Öryggisvörður var í versluninni og tilkynnti hann ránið til lögreglu í gegnum talstöð. Pilturinn var svo yfirbugaður léttilega, eins og varðstjóri orðar það, inni í verslunni nokkrum mínútum síðar.

531 tonn af hjálpargögnum til Afríku

Það sem af er mánuði hefur UNICEF sent 531 tonn af hjálpargögnum til þurrkasvæðanna í Austur-Afríku. Um er að ræða matvæli eins og hnetumauk og orkustangir, en einnig lyf, bóluefni, vatnshreinsibúnað og tjöld svo eitthvað sé nefnt.

Fleiri sýkjast af kampýlóbakter

Fjöldi kampýlóbaktersýkinga í mönnum hefur aukist síðastliðnar vikur samkvæmt upplýsingum frá sýklafræðideild Landspítala, að því er fram kemur á heimasíðu landlæknisembættisins.

Hörmulegar aðstæður í Sómalíu

Kólerufaraldur blasir við á neyðarsvæðunum í Sómalíu þar sem óhreint vatn og ófullnægjandi hreinlætisaðstaða er gróðrarstía fyrir sjúkdóminn. Hundruð þúsunda barna glíma nú við næringarskort á svæðinu og eru viðkvæm fyrir áföllum.

Hittumst á Hlemmi

Hópur leikmanna sem kallar sig Urban United mun lífga upp á svæðið umhverfis Hlemm í dag undir yfirskriftinni Hittumst á Hlemmi með alls kyns tilraunainnsetningum og viðburðum. Þar hefst dagskrá klukkan 11 og stendur til klukkan fjögur, en á meðal þess sem til stendur eru innsetningar og gjörningar, auk þess sem boðið verður upp á rakstur undir berum himni og gamlir bílar verða til sýnis. Verkefnið er hluti af Torg í biðstöðu hjá Reykjavíkurborg.

50 ár frá byggingu Berlínarmúrsins

Í dag eru 50 ár liðinn frá því hafist var handa að byggja Berlínarmúrinn. Múrinn skipti Berlín í tvennt, splundraði fjölskyldum og varð ein af táknmyndum Kalda stríðsins, tvískiptingar austur og vesturs. Þjóðverjar líta til baka í dag.

Sáu dóttur sína í sjónvarpinu og hringdu á lögreglu

Ljóst er að brotamennirnir í Lundúnum voru af mörgu tagi. Að sögn breska dagblaðsins Guardian sáu foreldrar 18 ára stúlku hana í beinni sjónvarpsútsendingu í Enfield þar sem hún braut rúðu í verslun með grjótkasti og fagnaði ákaft. Foreldrarnir létu lögregluna vita og var stúlkan handtekin. Stúlkan hreppti nýlega þann heiður að vera ásamt hópi annarra unglinga gerð að sérstökum sendiherra ólympíuleikanna sem halda á í Lundúnum næsta sumar.

Dauðadómur fyrir 11 morð

Raðmorðingi sem myrti ellefu konur í borginni Cleveland var í gær dæmdur til dauða fyrir glæpi sína. Anthony Sowell var handtekinn árið 2009 grunaður um að hafa beitt konu kynferðisofbeldi. Eftir það fundust jarðneskar leifar kvennanna víðs vegar í húsi hans og grafnar í lóðinni. Þær hurfu á árunum 2007 til 2009 og höfðu verið kyrktar og svívirtar.

Bílslys í miðbænum: Haldið sofandi í öndunarvél

Einn af þeim sem var í bílnum, sem ökumaður missti stjórn á Geirsgötunni í Reykjavík í gærkvöldi, er haldið sofandi í öndunarvél, samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi lækni á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi.

Priyanka dúxaði

„Ég vissi að ég myndi fá ágætar einkunnir, enda lagði ég hart að mér, en ég bjóst aldrei við þessu,“ segir Priyanka Thapa, 23 ára Nepali, sem dúxaði í verk- og raunvísindadeild háskólabrúar Keilis en útskriftin fór fram í gær.

Ónæmiskerfið öðruvísi en í öðrum dýrum

Þorskur er með öðruvísi ónæmiskerfi en öll önnur dýr. Norskir vísindamenn hafa kortlagt erfðamengi þorsksins og er greint frá niðurstöðum rannsókna þeirra í vísindaritinu Nature.

Verðið hækkar í kjötskorti

Tollar á erlendar landbúnaðarvörur hækkuðu mikið við kerfisbreytingu sem gerð var árið 2009. Þá var hætt að miða tolla við magn og farið að miða við verð. Umboðsmaður Alþingis hefur úrskurðað að heimildir ráðherra til undanþágu á tollum stangist á við stjórnarskrá.

Hjá okkur er komið nóg segir forstjóri LSH

Landspítalinn mun þurfa að skera niður þjónustu og hætta að veita vissa þjónustu ef halda á áfram að skera niður. Þetta skrifaði Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, í pistli á vefsíðu spítalans í gær.

Rick Perry gæti skákað Romney

Rick Perry fylkisstjóri í Texas er talinn líklegur til að gefa loks kost á sér í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar á næsta ári eftir mánaða vangaveltur. Verði af því, þykir stjórnmálaskýrendum líklegt að hann komist strax í hóp þeirra sigurstranglegustu.

700 óeirðaseggir þegar ákærðir í London

Lögregla í stærstu borgum Bretlands hafði mikinn viðbúnað á götum úti í gær vegna möguleika á að ólætin sem geisuðu í upphafi vikunnar gætu hafist á ný.

Bæklingur gefinn út á sama tíma og könnun var framkvæmd

Rio Tinto Alcan gaf út viðamikinn upplýsingabækling um fyrirtækið á sama tíma og Félagsvísindastofnun stóð fyrir könnun á viðhorfi Hafnfirðinga til álversins. í könnunninni kemur fram að meirihluti Hafnfirðinga vill ekki stækkun álversins þrátt fyrir kreppu.

Aldrei fleiri sjálfsmorð í bandaríska hernum

Þrjátíu og tveir bandarískir hermenn tóku sitt eigið líf í júlímánuði á þessu ári, en aldrei hafa fleiri sjálfsmorð orðið í einum mánuði frá því herinn hóf var að birta sjálfsmorðstölur mánaðarlega árið 2009.

Gallabuxnaauglýsing sem sýnir óeirðir tekin úr spilun í Bretlandi

Sjónvarpsauglýsing gallabuxnaframleiðandans Levi's hefur verið tekin úr spilun í Bretlandi. Ástæðan er sú að í auglýsingunni má sjá myndbrot sem þykja minna um of á óeirðirnar í Bretlandi, sem hafa leitt til handtöku um eitt þúsund og sex hundruð ungmenna á örfáum dögum.

Gróðursetja ávaxtatré í íslenskum almenningsgörðum

Áhugamenn um ávaxtatrjárækt hyggjast gróðursetja um tvöhundruð ávaxtatré í almenningsgörðum hér á landi áður en árið er á enda. Möguleikarnir á ávaxtaræktun hér á landi eru fleiri en flestir halda.

531 tonn af hjálpargögnum send til Austur-Afríku

UNICEF hefur sent 531 tonn af hjálpargögnum til neyðarsvæðanna í Austur-Afríku. Í Sómalíu er ástandið skelfilegt og er talið að 29 þúsund börn undir fimm ára aldri hafi látist af hungri og sjúkdómum.

Telur að sterkeindahraðalinn í Sviss muni gagnast mannkyninu

Þó að sterkeindahraðallinn í Sviss beri ekki bera ávöxt í nánustu framtíð mun hann svo sannarlega gera það á endanum, segir ítalskur eðlisfræðingur sem er staddur hér á landi. Óttinn við að hraðallinn geti myndað svarthol hefur alið af sér marga nýja vísindaáhugamenn.

Segir fulltrúa Íslands hafa andmælt tillögu gegn spillingu

Íslenskir embættismenn, í umboði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lögðust gegn því að studd yrði óbreytt tillaga sem átti að sporna gegn spillingu á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þetta segir formaður umhverfisnefndar Alþingis. Formaður íslensku sendinefndarinnar vísar þessu á bug.

Meirihluti Hafnfirðinga vill ekki sjá álverið stækkað

Meira en helmingur Hafnfirðinga telja neikvæð áhrif vera af álverinu í Straumsvík. Þar vega mengun og áhrif þess á umhverfið þyngst. Meirihluti Hafnfirðinga vill ekki stækkun álversins og í ljósi könnunarinnar telur Hafnarfjarðarbær ekki tilefni til nýrra íbúakosninga.

Kæra Sjálfstæðisflokksins uppfyllti ekki skilyrði um opinbera rannsókn

Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra hefur ítrekað gefið Sjálfstæðisflokkinum kost á því að bæta úr annmörkum kæru sinnar, en úr þeim hefur enn ekki verið bætt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Ríkislögreglustjóri gaf út í kjölfar ummæla lögmanns flokksins í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær.

Eldur í bíl á Miklubraut

Slökkviliði barst tilkynning um að kviknað hefði í bíl við Miklubraut nú fyrir stuttu. Viðbrögð voru snögg og hafa slökkviliðsmenn nú ráðið niðurlögum eldsins.

Steindi Jr. hleypur til styrktar Rauða krossinum

Grínistinn Steindi Jr. er búinn að skrá sig í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka og ætlar að hlaupa til styrktar Rauða krossinum. Steindi er óvanur hlaupum, svo vægt sé til orða tekið, og skráði hann sig því í skemmtiskokkið sem er þrír kílómetrar. Fyrsta æfingin var í dag og gekk heldur brösulega, en Ísland í dag fékk að fylgjast með tilþrifunum. Brot úr þætti kvöldsins má sjá í meðfylgjandi myndskeiði þar sem greinilegt er að Steindi þarf nokkuð að herða sig við æfingarnar, en maraþonið fer fram laugardaginn 20. ágúst. Rauði kross Íslands hvetur félaga og velunnara sína að heita á eða hlaupa fyrir Rauða krossinn í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka laugardaginn 20. ágúst. Hægt er að heita á hlaupara með því að smella á hlaupastyrkur.is <http://hlaupastyrkur.is>. Öll áheit félagsins í Reykjavíkurmaraþoninu munu renna í Sómalíusöfnun Rauða krossins til kaupa á bætiefnaríku hnetusmjöri fyrir vannærð börn. Rauði krossinn dreifir matvælum daglega til þúsunda fjölskyldna í Mið- og Suður Sómalíu, þvert á átakalínur meðan stríð geisar þar. Á næstu vikum og mánuðum munu Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn veita um 50.000 börnum aðstoð á næringarmiðstöðvum hreyfingarinnar, og dreifa matvælum til um einnar milljónar manna.

Engar tölur til yfir meðalbiðtíma farþega

Forsvarsmenn Isavia vilja koma því á framfæri að ekki hafa verið gerðar neinar rannsóknir á biðtíma í Leifsstöð. Það sé hins vegar yfirlýst markmið starfsmanna að biðtíminn sé aldrei lengri en sjö til tíu mínútur. Oftar en ekki er biðtíminn hins vegar mun styttri þó það komi einnig fyrir að hann sé lengri. Vísir vitnaði fyrr í dag í vefinn Túristi.is þar sem sagt var að samkvæmt athugun sem gerð var fyrr á þessu ári á meðal biðtíma á flugvöllum á Íslandi og hinum Norðurlöndunum, hafi komið í ljós að farþegar á Keflavíkurflugvelli þurfi að bíða þrefalt lengur en farþegar á Kastrup í Kaupmannahöfn. Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia sem rekur Keflavíkurflugvöll, tekur fram að ekki sé rétt með farið hver meðalbiðtíminn er á Keflavíkurflugvelli, einfaldlega því það hefur aldrei verið rannsakað. Þá ítrekar hún að þær tölur sem hún gaf Túrista upp sé það markmið sem starfsmenn hafi sett sér.

Flugfélög fljúga frítt með hjálpargögn til Afríku

Á fyrstu tólf dögum ágústmánaðar hafa 26 birgðaflutningavélar flogið með 531 tonn af hjálpargögnum frá UNICEF til þurrkasvæðanna á austurodda Afríku. Megináhersla hefur verið lögð á að senda næringarbætt hnetumauk fyrir alvarlega vannærð börn ásamt næringarbættu maís- og sojamjöli sem gera má úr graut. Flutningur nær helmings þeirra birgða sem sendar hafa verið í ágúst hefur verið UNICEF að kostnaðarlausu. Flugfélögin Virgin Airlines, Cargolux og British Airways hafa öll gefið samtökunum birgðaflug. Meðal þeirra hjálpargagna sem hafa borist á svæðið á umræddu tímabili eru 170 tonn af næringarbættu hnetumauki, 172 tonn af maís- og sojamjölsblöndu, 21 tonn af orkuríkum kornstöngum og 37 tonn af mikilvægum lyfjum og saltupplausn til að koma í veg fyrir ofþornun. Einnig hafa verið send á vettvang tæki sem notuð eru til að að hreinsa vatn og gera það hæft til drykkju, tæplega 5 milljónir skammtar af bóluefni gegn mislingum, mænuveiki, stífkrampa, barnaveiki og kíghósta; auk segldúka, tjalda, vatnshreinsitaflna og fleira. UNICEF sendir hjálpargögn alla jafna með skipum. Ástandið er hins vegar svo alvarlegt að þörf er á hraðari flutningsmáta til að brúa bilið þangað til skipsfarmar taka að berast reglulega, þ.e. á næstu vikum. Áframhaldandi þörf Þessi hjálpargögn bætast við þau 1.300 tonn sem dreift var í suðurhluta Sómalíu í síðasta mánuði. Þá hefur miklu magni hjálpargagna einnig verið dreift í öðrum hlutum landsins sem og í Eþíópíu, Keníu og Djibútí. UNICEF áætlar að á næstu sex mánuðum, hið minnsta, þurfi samtökin að senda á vettvang 5.000 tonn af næringabættri fæðu fyrir vannærð börn í hverjum mánuði. Íslendingar hafa verið ötulir við að styrkja neyðaraðgerðir UNICEF í Austur-Afríku. Enn er hægt að leggja söfnuninni lið með því að hringja í söfnunarsímnúmerin 908-1000 (1.000 krónur), 908-3000 (3.000 krónur) og 908-5000 (5.000 krónur). Einnig er hægt að leggja inn á sérstakan söfnunarreikning: 515-26-102040 (kt. 481203-2950)

Sjá næstu 50 fréttir