Innlent

Kemur til greina að flýta framkvæmdum

Framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs segir vel koma til greina að sjóðurinn flýti framkvæmdum við ókláraðar íbúðir til að koma þeim fyrr út á leigumarkaðinn. Hann býst við því að sjóðurinn muni eiga um 2000 íbúðir í lok ársins sem teknar hafa verið eignarnámi.

Eftir hrunið 2008 héldu margir að skapast myndi öflugur leigumarkaður á Íslandi enda stóðu nánast heilu hverfin auð. Sú varð ekki raunin. Leiguverð hefur hækkað jafnt og þétt og er nú í sögulegu hámarki. Að sögn starfsmanna leigumiðlanna eru dæmi um að 20 fermetra íbúðir séu leigðar út á 150 þúsund krónur, algengt leiguverð á þriggja herbergja íbúð sé í kringum 180 - 200 þúsund krónur.

Í kvöldfréttum okkar í gær sögðum við frá því að bankarnir, fjármögnunarfyrirtækin og Íbúðalánasjóður eigi rúmlega tvö þúsund og eitt hundrað íbúðarhúsnæði á Íslandi. Stóran hluta þessara fasteigna væri hægt að leigja út.

„Af þessum fjórtán hundruð eignum sem sjóðurinn á eru um 600 í útleigu og þar af um 120 á höfuðborgarsvæðinu. Síðan eru um þrjátíu til fjörtuíu eignir sem standa tómar en gætu farið í útleigu. Það erum við að skoða. Svo eru um hundrað sem eru á byggingarstigi og mun taka um tólf mánuði að koma í útleigu," segir Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.

Hann segir þá sem missa eignir á uppboði eiga möguleika á að leigja áfram hjá Íbúðalánasjóði. Þegar sjóðurinn taki leighúsnæði eignarnámi sé jafnframt reynt að halda áfram að hafa þær eignir í útleigu. Hann býst við því að Íbúðalánasjóður einn og sér muni eiga um tvö þúsund eignir í lok ársins.

Það er gríðarleg vöntun á leiguhúsnæði og kannski eðlilegt að Ííbúðalánasjóður komi inn á þann markað og reyni að jafna hann út?

„Já við viljum gjarnan koma okkar eignum í útleigu. Það er í hagur fyrir sjóðinn og hafa jákvæð áhrif á þennan markað. Við sjáum að það er vöntuna. Það er mikið hringt og spurt en við höfum farið varlega en það kemur vel til greina að flýta þessum eignum sem við eigum á byggingarstigi og skapa þannig störf og koma þessum íbúðum í leigu og hafa jákvæð áhrif á markaðinn,“ segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×