Fleiri fréttir

Leiðtogarnir á Kúbu boða breytta tíma

Fidel Castro bauð sig ekki fram í leiðtogakjöri Kommúnistaflokksins á Kúbu í gær. Þess í stað var bróðir hans, Raúl, kosinn leiðtogi flokksins.

Órói í páfagarði vegna verkfæris Satans

Kvikmyndin Habemus Papam, sem frumsýnd var á Ítalíu síðastliðinn föstudag og fjallar um taugaveiklaðan páfa sem þarfnast sálfræðiaðstoðar til að takast á við álagið í Vatikaninu, hefur vakið hörð viðbrögð hjá kaþólsku kirkjunni.

Konurnar fá störf að nýju

„90% starfsmanna leikskóla eru konur. Það gefur að skilja að þegar kemur til breytinga í leikskólum þá hreyfir það við störfum kvenstjórnenda,“ segir Oddný Sturludóttir, formaður menntaráðs Reykjavíkurborgar.

Árekstur á Norðurlandsvegi

Lögregla, sjúkrabílar og tækjabílar eru á leið á vettvang hvar umferðarslys varð fyrir um 10 mínútum á Norðurlandsvegi um Víðidal við bæinn Jörfa samkvæmt tilkynningu frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra.

Nefbraut stúlku og hrinti annarri - man ekkert vegna athyglisbrests

Rúmlega tvítugur maður var dæmdur fyrir líkamsárás gegn tveimur stúlkum með ársbili í dag. Maðurinn nefbraut aðra stúlkuna í september árið 2009. Atvikið átti sér stað í Bankastræti í Reykjavík en hann skallaði hana að tilefnislausu.

Kynferðisbrotamál - framburður unglingsstúlku ekki nóg

Karlmaður var í dag sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness af kynferðisbroti gegn 14 ára stúlku. Dómari taldi framburð unglingsstúlku ekki fullnægjandi til þess að sakfella manninn, sem var drukkinn þegar atvikið átti sér stað.

Efnistökum fjölmiðla sett skilyrði með lögum

Alþingi hefur samþykkt lög um fjölmiðla. Helsta nýmælið er stofnun fjölmiðlanefndar, sem á að hafa víðtækt eftirlit með starfsemi íslenskra fjölmiðla og fær til þess miklar valdheimildir. Efnistökum fjölmiðla eru jafnframt sett skilyrði.

Lýst eftir loftpressu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar að loftpressu sem stolið var í Ánanaustum í Reykjavík laugardaginn 16. apríl.

Dæmdur fyrir þjófnað

Karlmaður var í dag dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness.

Icesave málið gæti verið hjúpað leynd næstu 110 árin

Lykilgögn, til dæmis í Icesave málinu, gætu verið hulin leyndarhjúpi í hundrað og tíu ár nái nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar um upplýsingalög fram að ganga. Þingmaður krefst þess að frumvarpið verði dregið til baka.

Sakaðir um samráð um framsetningu drykkjarvara í verslunum

Vífilfell fékk bréf síðdegis frá Samkeppniseftirlitinu þar sem þeir voru upplýstir um að húsleit sem var gerð í fyrirtækinu í morgun hefði verið vegna gruns um ólöglegt samráð sem m.a. fellst í uppröðun og framsetningu drykkjarvara í kælum og hillum verslana. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vífilfelli.

Farið inn í ólæsta bíla og íbúðir á Akureyri

Undanfarna daga hafa borist þó nokkrar tilkynningar til lögreglunnar á Akureyri um að farið hafi verið inn í ólæstar bifreiðar og húsnæði víða um bæinn. Að sögn lögeglu hefur verið rótað í bifreiðum og í því húsnæði sem farið hefur verið inn í en litlum verðmætum stolið.

1090 jarðskjálftar á Íslandi í mars

Alls mældust 1090 jarðskjálftar undir landinu og á hafsvæðinu í kring um Ísland í marsmánuði. Stærstu skjálftarnir urðu norður á Kolbeinseyjarhrygg, sá stærsti náði stærð Ml 4. Stærsti skjálftinn á landinu mældist af stærð 3,5 við Kleifarvatn. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands Þar segir einnig að á Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg mældust 460 skálftar, þar af voru 444 skjálftar við Krýsuvík og Kleifarvatn. Stærsti skjálftinn í mánuðinum varð jafnframt á þessu svæði, en hann mældist 2. mars og var af stærðinni Ml 3,5 og varð hann rétt við Krýsuvíkurskóla. Mest var virknin í upphafi mánaðarins, en skjálftahrina á þessu svæði hófst 25. febrúar. Í febrúarmánuði voru hátt í 2000 skjálftar undir landinu og á hafsvæðinu í kring um Ísland. Mest var virknin við Krýsuvík og mældust nokkrir skjálftar sem voru um og yfir fjögur stig. Í janúarmánuði voru skjálftarnir 1040. Nánar má lesa um skjálftana á vef Veðurstofu Íslands.

Grunur um samráð gosdrykkjaframleiðenda

Grunur um samráð keppinauta leiddi til þess að Samkeppniseftirlitið framvæmdi í dag húsleit hjá Vífilfelli og Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samkeppniseftirltiinu.

Betur reknir skólar og öflugra starf er markmiðið

Jón Gnarr borgarstjóri segir að markmiðið með sameiningaráformum í skólum og leiksskólum borgarinnar sé að ná fram betur reknum skólum og öflugra skólastarfi. Sameiningaráformin verða að öllum líkindum samþykkt í borgarstjórn síðar í dag en borgarráð samþykkti tillöguna í gær. Jón Gnarr bendir á að ekki sé verið að loka húsnæði og að ekki sé um að ræða breytingar á öllu skólastarfi í Reykjavík. Fyrst og fremst sé um að ræða hagræðingu og sparnað í yfirstjórn.

Konur fá að fjúka frá borginni

Alls verður 46 stjórnendum í skólakerfinu sagt upp hjá Reykjavíkurborg um næstu mánaðamót vegna breytinga á skólakerfinu sem borgarráð samþykkti í gær, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Leikskóla- og Menntasviði Reykjavíkurborgar. Allt eru þetta konur sem missa vinnuna, en einhverjar þeirra munu fá önnur störf hjá borginni.

Díoxín enn yfir mörkum í Vestmannaeyjum

Mæling umhverfisstofnunar á mengun í Sorporkustöð Vestmannaeyja bendir til þess að all nokkur árangur hafi náðst í að hefta útblástur þeirra mengandi efna sem getið er um í starfsleyfi stofnunarinnar. Af þeim viðmiðunum sem getið er um í starfsleyfi stöðvarinnar er það einungis ryk sem er yfir mörkum. Í viðbót við þau viðmið sem gefin eru í starfsleyfi Sorporkustöðvarinnar var mælt brennisteinsdíoxíð, vetnisflúoríð, nituroxíð og díoxín. Í öllum tilvikum eru mælingar innan viðmiða ef frá er skilið mæling á díoxíni sem enn er hátt yfir viðmiðum. Sýni sem Matvælastofnun tók úr búfé á Heimaey reyndist hinsvegar ekki vera með díoxínmengun miðað við gildi sem fengust í mælingum á kjöti sem fóru fram víðs vegar um landið árin 2003 og 2004. Fyrr í morgun funduðu fulltrúar Vestmannaeyjabæjar og Umhverfisstofnunar, meðal annars vegna niðurstöðu þessara mengunarmælinga í Sorporkustöð Vestmannaeyja sem unnin var í mars 2011 af Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Einnig var rætt um mælingar á díoxsíni í sauðfé sem unnin var af Matvælastofnun Íslands, og starfsleyfi Sorporkustöðvar Vestmannaeyja. „Vestmannaeyjabær mun áfram vinna að úrbótum með sérstaka áherslu á að ná niður rykmengun. Til þess að flýta þeirri vinnu og gera hana markvissari hefur Vestmannaeyjabær samið við Þór Tómasson sérfræðing hjá verkfræðistofunni Mannvit. Á yfirstandandi ári mun Vestmannaeyjabær draga úr heildarlosun allra mengandi efna um að minnsta kosti 60%. Þaðan mun áfram verða haldið ef þörf verður á þar til fullum árangri er náð. Meðal þess sem unnið er að er frekari flokkun sorps, kaup á auknum mengunarvörnum við útblástur, bæting á brensluferli og ýmislegt fleira," segir í tilkynningu frá Elliða Vignissyni, bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar.

Atvinnuleitendur fá námstækifæri

Ríkisstjórnin kynnti í morgun aðgerðir til að skapa námstækifæri fyrir eitt þúsund atvinnuleitendur á næstu þremur árum. Sjö milljarðar fara í verkefnið sem eitt og sér er ætlað að draga úr atvinnuleysi um eitt prósent.

Falsaðir fimmþúsundkallar í umferð

Undanfarnar vikur hefur nokkuð borið á því að fölsuðum 5.000 kr. peningaseðlum hefur verið komið í umferð á höfuðborgarsvæðinu. Að sögn lögreglu hefur sjaldnast uppgötvast að um falsaða seðla sé að ræða fyrr en við uppgjör á sjóðvélum eða við innlegg í banka.

Hindrar hugsanlega framgöngu Brown hjá AGS

David Cameron, forsætisráðherra Breta, hefur gefið til kynna að hann kunni að koma í veg fyrir að Gordon Brown verði næsti yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Forsætisráðherrann segir að maður sem hafi ekki séð fyrir að Bretland væri í skuldavanda yrði ef til vill ekki besti maðurinn til þess að stjórna alþjóðlegu fjármálaeftirlitskerfi.

Kvikmyndin Eldfjall keppir í Cannes

Eldfjall, fyrsta kvikmynd Rúnars Rúnarssonar leikstjóra, verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 13. maí. Eldfjall keppir bæði í flokknum Directors Fortnight og um Camera d´Or verðlaunin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá framleiðendum Eldfjalls hjá Zik Zak kvikmyndum.

ESB vill senda fótgönguliða til Líbíu

Evrópusambandið er reiðubúið að senda hersveitir till Líbíu til þess að aðstoða flóttafólk, ef Sameinuðu þjóðirnar fara framá það. Hermönnunum yrði ekki ætlað að berjast við sveitir Moammars Gaddafis heldur aðeins veita mannúðaraðstoð.

Upplýsingum haldið frá almenningi

Ný upplýsingalög eru nú til meðferðar hjá allsherjarnefnd Alþingis. Meðal þeirra sem skilað hafa inn umsögnum um lögin er Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður. Hún bendir á að þegar frumvarpið var lagt fram hafi forsætisráðherra sagt megintilgang frumvarpsins að auka upplýsingarétt almennings, gera stjórnsýsluna opnari, bæta lýðræðislega stjórnarhætti og auka aðhald um starfsemi stjórnvalda.

Húsleit hjá Ölgerðinni og Vífilfelli

Starfsmenn Samkeppniseftirlitsins fóru á skrifstofur Ölgerðarinnar í morgun og framvísuðu heimild til þess að leggja hald á gögn hjá fyrirtækinu. Samkvæmt frétt á vef Ölgerðarinnar tók heimsókn eftirlitsins skamman tíma og ekkert var látið uppi um ástæður hennar. Stjórnendur Ölgerðarinnar hafa því engar upplýsingar um það, að hverju rannsókn Samkeppniseftirlitsins beinist.

Ný vopn Hamas auka hættu á stórátökum

Aukin hætta er á hörðum árásum Ísraela á Gaza ströndina vegna nýrra fullkominna vopna sem Hamas samtökin hafa aflað sér. Hamas liðar skutu á dögunum leysigeislastýrðri rússneskri eldflaug á skólarútu og gjöreyðilögðu hana.

Björgunarsveitir sækja slasaðan vélsleðamann

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Hofsósi, Siglufirði og Ólafsfirði eru nú á leið í Hólaskarð fyrir ofan Héðinsfjörð eftir að tilkynning barst um slasaðan vélsleðamann þar. Á þessari stundu er lítið vitað um tildrög slyssins og aðstæður en talið er að maðurinn, sem var á ferð með hópi vélseðamanna, sé ökklabrotinn.

Heppnir höfuðborgarbúar 60 milljónum ríkari

Lottóspilararnir sem unnu 61 milljón í lottó á laugardag keypti miðann í Olís á Siglufirði. Fólkið er af höfuðborgarsvæðinu en hafði verið í heimsókn á Siglufirði síðutu helgi. Í tilkynningu frá Íslenskri getspá segir að þetta sé þriðji stærsti vinningur í laugardagslottóinu þau 25 ár sem það hefur verið starfrækt á Íslandi. Fólkið hefur gefið sig fram við Íslenska getspá.

Engar formlegar viðræður í dag

Engar formlegar viðræður fara fram milli Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins vegna nýrra kjarasamninga í dag. Hjá ríkissáttasemjara fengust þau svör fyrir hádegi að ekki væri búist við að þessir aðilar kæmu saman hjá honum fyrr en eftir páskahelgina.

Braut rúður á Lundanum

Lögreglan í Vestmannaeyjum þurfti að vista mann í fangageymslu eftir að hann braut rúðu á veitingastaðnum Lundanum þar í bæ um síðustu helgi. Manninum hafði verið vísað út af staðnum og var ósáttur við það. Hann greip þá rörbút og braut tvær rúður í húsinu. Maðurinn var handtekinn í kjölfarið og fékk hann gistingu hjá lögreglunni. Eftir að víman var runnin af honum var hann færður til skýrslutöku þar sem hann viðurkenndi verknaðinn.

Köstuðu björgunarhringjum Herjólfs í sjóinn

Skemmdarvargar tóku sig til á dögunum og hentu björgunarhringjum sem eru á dekki Herjólfs í sjóinn þegar skipið var á leið til Vestmannaeyja þann 12. apríl síðastliðinn. Að sögn lögreglu er ekki vitað hverjir voru að verki. Hún óskar því eftir upplýsingum frá farþegum sem voru í fyrri ferð skipsins frá Þorlákshöfn þennan dag um hvort þeir hafi orðið var við að einhver eða einhverjir væru að eiga við björgunarhringi skipsins. Atvikið er litið mjög alvarlegum augum enda er nauðsynlegt að öryggisbúnaður skipsins sé í sem bestu lagi.

Segir Dani verða að framselja Múhameðsteiknara

Danir hafa skuldbundið sig til þess að framselja skopmyndateiknarann Kurt Westergaard til Jórdaníu að sögn borgarfulltrúa í Kaupmannahöfn. Réttarhöld yfir Westergaard hefjast þar í landi 25 apríl, vegna teikninga hans af Múhameð spámanni.

Rokkhátíð alþýðunnar verður "live from Ísafjörður rock city!"

Rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, verður í beinni útsendingu á vefsíðunni Inspired by Iceland. Hátíðin verður haldin um komandi helgi á Ísafirði. Aldrei fór ég suður var fyrst haldin árið 2004, og kviknaði hugmyndin að hátíðinni hjá tónlistarmanninum ísfirska Mugison og föður hans, sem kallaður hefur verið Mugipapa. Hátíðin hefur stækkað ár frá ári og sækir nú gríðarlegur fjöldi Ísafjörð heim þegar hún er haldin. Þeir sem ekki eiga heimangengt, sem og erlendir tónlistarháhugamenn, geta nú fylgst með hátíðinni í fyrsta sinn í beinni útsendingu á vefnum. Á vef hátíðarinnar s er beina útsendingin kynnt sem „Live from Ísafjörður rock city!" Meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni í ár eru Bjartmar og Bergrisarnir, Páll Óskar Hjáltýsson og FM Belfast. Allir sem koma fram á rokkhátíðinni gefa vinnu sína. Tenglar: Aldrei fór ég suður http://aldrei.is/ Inspired by Iceland http://www.inspiredbyiceland.com/

Hraðbraut gerir menntamálaráðherra nýtt tilboð

Forsvarsmenn Menntaskólans Hraðbrautar vilja gera nýjan þjónustusamning við menntamálaráðuneytið um að skólinn taki inn allt að 120 nemendur á fyrra námsár 2011-2012. Þetta verði til viðbótar þeim samningi sem fyrir liggur um skólastarf á síðara námsári veturinn 2011-2012. Greiðsla vegna hvers ársnemanda í námi verði 480 þúsund krónur. Segja forsvarsmenn skólans að sú upphæð sé mun lægri en lægstu greiðslur sem þekkjast til annarra framhaldsskóla í landinu.

Vinstrimenn á Skaganum vilja Ásmund Einar burt

Félagar í VG á Akranesi skorar á Ásmund Einar Daðason, þingmann VG, að segja af sér sem þingmaður þar sem hann hafi fyrirgert trausti þeirra sem kusu lista VG við síðustu þingkosningar. Þetta segir ályktun sem félagsfundur VG á Akranesi samþykkti í gær og var birtur á vef Skessuhorns.

95% skólasókn 16 ára ungmenna

Skólasókn 16 ára ungmenna á Íslandi haustið 2010 er 95%, sem er sama hlutfall og haustið 2009. Á milli áranna 2008 og 2009 hafði orðið talsverð fjölgun nemenda. Um 88% 17 ára nemenda sækja skóla, sem er fækkun um tvö prósentustig frá fyrra ári. Um 82% 18 ára ungmenna stunda nám, og fjölgaði um eitt prósentustig í þeim aldursflokki. Þetta kemur fram í samantekt Hagstofu Íslands. Hlutfallslega flestir 16 ára unglingar sækja skóla á Austurlandi og Norðurlandi eystra eða 96%, en fæstir á Vestfjörðum (91%) og á Suðurnesjum (92%). Jafnframt fækkar eldri nemendum á framhaldsskólastigi frá fyrra ári. Þannig fækkar nemendum í öllum 5 ára aldursflokkum frá 15 til 54 ára frá hausti 2009. Sú fækkun helst í hendur við umtalsverða fækkun nemenda í öldungadeildum (45,5%) og fjarnámi (18,8%) á framhaldsskólastigi frá hausti 2009. Þriðjungur í starfsnámi Um 66.0% nemenda á framhaldsskólastigi stunda nám á bóknámsbrautum en 34.0% eru í starfsnámi. Hlutfall nemenda í starfsnámi er mun hærra meðal karla en kvenna, eða 39,0% á móti 29,1% hjá konum. Hlutfall nemenda í starfsnámi hefur lítið breyst síðasta áratug, þegar það hefur verið 33,8% til 38,5%. Nemendum fækkar um 1,6% Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 44.949 haustið 2010 og hafði fækkað um 435 nemendur frá fyrra ári, eða 1,6%. Þetta er í fyrsta skipti sem nemendum ofan grunnskóla fækkar á milli ára frá endurskoðun nemendaskrár Hagstofu Íslands haustið 1997. Á framhaldsskólastigi stunduðu 25.090 nemendur nám og fækkaði um 4,8% frá fyrra ári og á viðbótarstigi voru 990 nemendur. Á háskólastigi í heild voru 18.869 nemendur. Þar fjölgaði nemendum um 4,5%, þar af um 52,7% á doktorsstigi.

Doktorsnemum fjölgar - fjórðungur útlendingar

Nemendum á doktorsstigi hefur fjölgað ár frá ári hér á landi. Þeir voru 14 haustið 1997 en eru 478 haustið 2010. Nemendum á doktorsstigi hefur fjölgað í yngri aldurshópunum sem bendir til þess að fleiri fari í doktorsnám fljótlega að loknu meistaranámi. Frá 1998 til 2006 voru doktorsnemar flestir á aldrinum 30-34 ára en frá 2007 er aldurshópurinn 25-29 ára stærstur. Konur hafa verið í meirihluta meðal doktorsnema frá árinu 2001 og eru 58,2% þeirra haustið 2010. Tæplega fjórðungur (23,4%) doktorsnema eru útlendingar, flestir frá öðrum Evrópulöndum. Þetta kemur fram í samantekt Hagstofu Íslands. Tveir af hverjum þremur nemendum á meistarastigi eru konur Nemendum á meistarastigi hefur einnig fjölgað ár frá ári. Þeir voru 383 haustið 1997 en eru 4.243 haustið 2010. Tveir af hverjum þremur nemendum á meistarastigi eru konur, eða 66,7% nemenda. Nemendum í námi til grunnsprófs á háskólastigi, t.d. Bachelor gráðu eða diplóma gráðu hefur fjölgað síðustu tvö ár eftir að hafa fækkað lítillega á árunum 2004-2008. Nemendur sem stunda nám til grunnprófs hafa aldrei verið fleiri eða 14.005. Þá voru 143 nemendur í stuttu hagnýtu námi á háskólastigi og hefur fækkað lítillega síðustu ár.

Norðmenn ákváðu stríð í gegnum farsíma

Ákvörðun um að senda norskar orrustuþotur til Líbíu hinn 19. mars var tekin í farsímum. Ríkisstjórnin hélt engan sérstakan fund um málið og þingið kom þar hvergi nærri.

Svona verður sameiningin í skólakerfinu

Borgarráð samþykkti í gær að hefja undirbúning að sameiningu leikskólasviðs og menntasviðs. Ennfremur var samþykkt að færa verkefni sem nú eru á skrifstofu tómstundamála á íþrótta- og tómstundasviði á þetta sameiginlega svið. Þá samþykkti borgarráð jafnframt umfangsmiklar tillögur um samreksturs og/eða sameiningar leikskóla, gunnskóla og frístundaheimila í Reykjavíkurborg. Málinu var vísað til borgarstjórnar sem tekur endanlega ákvörðun um það á fundi í dag.

Níu prósent eldri borgara í vistrýmum

Alls bjuggu 3.144 á stofnunum með vistrými fyrir aldraða í desember í fyrra og hafði þeim þá fækkað um 47 frá árinu 2009. Konur voru rúm 64% allra vistmanna. Um 9% 67 ára og eldri bjuggu í vistrýmum í desember 2010. Þetta hlutfall var rúm 10% á landsbyggðinni en rúm 8% á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2010 bjuggu rúm 21% fólks 80 ára og eldra í vistrýmum aldraðra. Það átti við um rúm 17% karla á þessum aldri og rúm 24% kvenna. Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um stofnanaþjónustu og dagvistir aldraðra árið 2010. Samantektin sýnir að í desember voru vistrými alls 3.125, þar af voru hjúkrunarrými á dvalar- og hjúkrunarheimilum 2.217 eða 70,9% allra vistrýma. Á milli áranna 2009 og 2010 fækkaði rýmum á dvalar- og/eða hjúkrunarheimilum um 168. Þar af fækkaði dvalarrýmum um 70 og hjúkrunarrýmum um 98, en rýmum á heilbrigðisstofnunum fækkaði um 76 á sama tíma. Árið 2010 voru rúm 54% vistrýma á höfuðborgarsvæðinu, en tæp 46% annarsstaðar.

Segja stjórnsýslulegt stórslys í vændum

Á fundi borgarstjórnar í dag verður fjallað um og afgreiddar tillögur um sameiningar á leik- og grunnskólum, og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. "Ef fyrirliggjandi tillögur meirihluta borgarstjórnar verða samþykktar er um stjórnsýslulegt stórslys að ræða þar sem tillögurnar fara gegn fjölmörgum umsögnum og álitsgerðum fagaðila á borð við umboðsmann barna, menntavísndasvið Háskóla Íslands og Menntamálaráðuneytið,“ segir í tilkynningu frá regnhlífarsamtökunum Börn.is. Fulltrúar samtakanna verða á pöllunum í ráðhúsinu þegar fundurinn hefst, klukkan 14.00. Þeir skora á alla foreldra, skólastjórnendur og kennara til að mæta "... og hvetja þannig meirihlutann til að sýna það hugrekki að bakka með þessar vondu tillögur,“ segir í tilkynningunni.

Sjá næstu 50 fréttir