Fleiri fréttir

Dómari bannar nýjan flokk Baska

Þjóðernissinnuðum Böskum hefur verið bannað að stofna nýjan stjórnmálaflokk á Spáni. Dómari kvað upp þann úrskurð að nýi flokkurinn væri ekkert annað en leppur fyrir bannaða stjórnmálaflokkinn Batasuna. Til stóð að stofnsetja nýja flokkinn formalega í dag.

Húðflúrsæði hjá landgönguliðum

Allir sem vettlingi geta valdið í bandaríska landgönguliðinu þyrpast nú þessa dagana á húðflúrsstofur því frá og með morgundeginum verður þeim bannað að láta tattúvera sig.

Enn hart barist í Mogadishu

Enn er hart barist í Mogadishu höfuðborg Sómalíu. Bardagar brutust út í morgun, þriðja daginn í röð á milli stjórnarhersins sem nýtur fulltingi eþíópískra hermanna og uppreisnarmanna. Eþíópíumenn segjast hafa skotið 200 uppreisnarmenn til bana síðustu þrjá daga.

Fimm ára drengur lifði af níu hæða fall

Fimm ára gamall drengur lifði af fall niður af níundu hæð í Ontario í Kanada í gær. Hann var að príla við glugga þegar hann féll út. Hann lenti á grasi og er á góðum batavegi. Hann er brotinn á báðum fótum en læknar fullyrða að hann muni ná sér að fullu.

Sjóliðanna bíður líklega ákæra

Bresku sjóliðarnir fimmtán sem Íranar hafa í haldi sínu verða líklega ákærðir og dregnir fyrir dómara. Undirbúningur að lögsókn gegn þeim er sagður standa yfir. Bandaríkjastjórn ljáir ekki máls á að láta íranska fanga í skiptum fyrir Bretana.

Hafnfirðingar kjósa um stækkun álvers

Hafnfirðingar kjósa í dag um stækkun álversins í Straumsvík en kjöstaðir opnuðu klukkan 10 í morgun. Biðraðir mynduðust fyrir utan kjörstaði í morgun en klukkan ellefu höfðu um ellefu hundrað manns kosið. Búist er við að fyrstu tölur verði kunngerðar á Stöð 2 klukkan sjö í kvöld.

Starfsemi Fjarðaáls hefst formlega í dag

Starfsemi álversins í Reyðarfirði hefst formlega í dag með því að Geir H. Haarde forsætisráðherra klippir á borða á lóð Alcoa Fjarðaáls. Fyrirtækið efnir af því tilefni til veislu í Reyðarfirði í dag fyrir starfsmenn og gesti, en meðal þeirra eru ráðherrarnir Jón Sigurðsson og Valgerður Sverrisdóttir og Bernt Reiten aðstoðarforstjóri Alcoa.

Stofnendur Iceland Express segja Samkeppnisstofnun vanhæfa

Stofnendur Iceland Express fagna úrskurði Samkeppniseftirlitsins um að Icelandair hafi brotið samkeppnislög gagnvart fyrirtækinu árið 2004. Þeir segja hins vegar að úrskurðurinn komi allt of seint. Þeir lýsa yfir miklum vonbrigðum yfir vangetu Samkeppnisstofnunar til að standa vörð um hagsmuni neytenda.

Sönn ást spyr ekki um útlit

Ein fallegasta ástarsaga síðari tíma hélt áfram í vikunni. Svanurinn Petra, sem er sjaldgæfur svartur svanur, yfirgaf vetrardvalarstað sinn ásamt elskhuga sínum og synda þau nú bæði um tjörnina í Muenster í norðvesturhluta Þýskalands. Svanir velja sér maka til lífstíðar og því var það falleg stund þegar Petra synti aftur við hlið ástar sinnar, hjólabáts sem er í laginu eins og svanur.

Maradona á batavegi

Argentínska knattspyrnuhetjan Diego Maradona, sem lagður var inn á sjúkrahús í vikunni, er að jafna sig og ástand hans er nú orðið stöðugt. Maradona var lagður inn á sjúkrahús vegna óhófslegs lífernis.

Baðst afsökunar á slælegri umönnun slasaðra hermanna

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur beðist afsökunar á gæðum þeirrar umönnunar sem slasaðir bandarískir hermenn fá eftir að þeir snúa frá Írak. Hermennirnir hafa þurft að dvelja á sjúkrahúsi þar sem kakkalakkar hlaupa um, veggirnir eru myglaðir og rottur leynast í hverju horni.

Einn lést eftir átök á blakleik kvenna

Grísk yfirvöld hafa frestað öllum kappleikjum í liðsíþróttum næstu tvær vikur eftir að rúmlega 300 stuðningsmönnum tveggja liða, Panathinaikos og Olympiakos, lenti saman með þeim afleiðingum að einn lést. Liðin voru að fara að eigast við í blaki kvenna.

Eldar geysa í nágrenni Hollywood

Miklir eldar geysa nú í nágrenni Hollywood í Los Angeles. Reykur frá eldunum, sem eru í hæðum í kring um borgina, sjást um alla borgina. Ekki er vitað hvernig hann hófst. Um 100 slökkviliðsmenn berjast nú við eldana ásamt slökkviliðsþyrlum. Enn hefur engum íbúum verið sagt að yfirgefa heimili sín þar sem veður er hagstætt og nærri logn.

Menntaskólinn í Reykjavík sigraði í Gettu betur

Menntaskólinn í Reykjavík bar í kvöld sigur af Menntaskólanum í Kópavogi í æsispennandi lokaviðureign Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna. Jafnt var á nær öllum tölum en undir lokin náði Menntaskólinn í Kópavogi að síga fram úr. Þegar ein spurning var eftir var þriggja stiga munur á liðunum, MK í vil. Síðasta spurningin gaf þrjú stig og eftir að MK hafði svarað henni rangt svaraði MR henni rétt og tryggði sér þannig bráðabana.

Uppreisnarmenn skjóta niður þyrlu

Herþyrla var skotin niður í höfuðborg Sómalíu, Mogadishu, í dag á meðan eþíópíski herinn og uppreisnarmenn börðust. Þyrlan var eþíópísk. Hún varð alelda og féll svo til jarðar. Sjónarvottar sögðu að uppreisnarmenn hefðu grandað þyrlunni með flugskeyti.

800 handteknir í óeirðum í Chile

Yfir 800 voru handteknir í óeirðum í Chile í dag. Átökin brutust út á milli ungs fólks og lögreglu. Í dag var árleg mótmælaganga stúdenta um land allt. 38 lögreglumenn slösuðust í átökunum.

Hæsti maður heims í hnapphelduna

Allsérstakt brúðkaup fór fram Kína í vikunni þegar Bao Xishun, hæsti maður heims, gekk að eiga unnustu sína, Xia Shujuan. Þessi slánalegi geitahirðir er ríflega 2,3 metrar á hæð en eiginkona hans er hins vegar ekki nema 1,68 m, sem þykir raunar ágætt í Kína.

Hæstiréttur staðfesti dóm í máli öryrkja

Hæstiréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli öryrkja sem sótti um starf við afgreiðslu hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, en var synjað. Hann segir hið opinbera vinna gegn því að öryrkjar geti farið út á vinnumarkaðinn og kallar öryrkjabætur fátæktargildru sem erfitt sé að komast úr.

Greiða 50% hærra verð en kennarar

Nemendur, í grunnskólum Akureyrar, þurfa að greiða 50% hærra verð fyrir skólamáltíðir en kennarar þeirra. Neytendasamtökin segja þetta skjóta skökku við.

Fjögurra ára fangelsi fyrir fimm líkamsárásir

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í dag 25 ára karlmann, Steindór Hrein Veigarsson, í fjögurra ára fangelsi fyrir fimm líkamsárásir og húsbrot á Akureyri í fyrra. Félagi hans, Kristján Halldór Jensson, var dæmdur í tveggja ára fangelsi, einnig fyrir líkamsárásir.

Vantar úrræði til að taka á skipulagðri vændisstarfsemi

Breytingar á vændislögum auðvelda störf lögreglunnar í baráttunni gegn vændi, segir Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri. Hann segir lögreglu þó vanta frekari úrræði til að taka á skipulagðri vændisstarfsemi.

Hicks fékk sjö ára dóm

Herdómstóll, í Guantanamo á Kúbu, dæmdi í dag Ástralann David Hicks til sjö ára fangelsisvistar, til viðbótar við þau fimm ár sem hann hefur þegar varið í fangabúðunum, fyrir að aðstoða hryðjuverkamenn.

1200 hafa þegar kosið

Um tólfhundruð manns hafa þegar kosið í Hafnarfirði um stækkun álvers. Búist er við mikilli kosningaþátttöku á kjörstaði á morgun. Kosningabaráttan hefur verið hörð og má segja að hún hafi náð ákveðnu hámarki í dag þegar hópur grunnskólanema safnaðist saman í verslunarmiðstöðinni Firðinum til að mótmæla stækkuninni.

Stoltenberg segir ESB-aðild úr sögunni

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, segir afar ólíklegt að Norðmenn sæki um aðild að Evrópusambandinu úr þessu. Leiðtogi Samfylkingarinnar segir þetta engu breyta um Evrópustefnu flokksins.

Breyting á deiliskipulagi

Fyrr í dag kom fram að samþykkt hafi verið á borgarstjórnarfundi í gær að rífa hús á Laugavegi og við Vatnsstíg. Við nánari athugun kom í ljós að um var ræða breytingu á deiliskipulagi sem þegar hafði verið samþykkt og full samstaða hefði verið um á síðasta kjörtímabili.

Þrýstingurinn á Írana vex

Evrópusambandið og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafa skorað á Írana að sleppa fimmtán breskum sjóliðum sem þeir hafa í haldi sínu. Einn þeirra kom fram á íranskri sjónvarpsstöð í dag og baðst afsökunar á að hafa siglt inn í íranska landhelgi.

Icelandair áfrýjar úrskurði Samkeppniseftirlitsins

Icelandair hefur verið sektað um hundrað og níutíu milljónir króna, af Samkeppniseftirlitinu, fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína. Það telur að flugfélagið hafi notað hagnað, af sölu á dýrari fargjöldum, til að niðurgreiða netfargjöld sem seld voru í samkeppni við Iceland Express. Icelandair hyggst áfrýja til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Gott ál sem vinstri grænir nota í áróðursmerkin

Vinstri grænir, sem berjast hart gegn álframleiðslu, búa sjálfir til áróðursmerki fyrir kosningarnar úr þessum sama málmi. Áróðursmeistari flokksins segir að álið, sem þeir noti, sé gott ál, og sérinnflutt frá Bandaríkjunum.

Misræmi hjá Gonzales og starfsmannastjóra hans

Alberto Gonzales, aðalsaksóknari í Bandaríkjunum, sagði í dag að hann minntist þess ekki að hafa tekið þátt í ákvörðunum um hvort að biðja ætti átta saksóknara að segja af sér. Fyrrum starfsmannastjóri Gonzales hafði fyrr sagt, eiðsvarinn, fyrir þingnefnd, að Gonzales hefði tekið þátt í og vitað af ferlinu frá upphafi þess. Brottrekstrarnir hafa leitt til þess að margir krefjast nú afsagnar Gonzales. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, starfaði með honum í Texas á árum áður og hefur því stutt hann.

Íranar eiga í höggi við Evrópusambandið

Utanríkismálaráðherra Evrópusambandsins, Javier Solana, ætlar sér að reyna að tala við Mahmoud Ahmadinejad, forseta Írans, og tryggja að bresku sjóliðarnir 15 verði látnir lausir bráðlega. Solana sagði jafnframt að Íranar yrðu að skilja að þeir ættu ekki í höggi við Breta eina, heldur allar 27 þjóðirnar í Evrópusambandinu. Íranar hafa þrátt fyrir þetta engan bilbug látið á sér finna.

Mugabe býður sig fram 2008

ZANU-PF, stjórnarflokkurinn í Zimbabwe hefur samþykkt að halda forsetakosningar í landinu árið 2008. Robert Mugabe, núverandi forseti landsins, var þá valinn frambjóðandi flokksins. Starfsmaður flokksins skýrði frá þessu í dag. Robert Mugabe er 83 ára gamall og verður kjörtímabilið því stytt úr sex árum í fimm. Mugabe gæti því gegnt embætti, ef heilsan endist, til 88 ára aldurs. Hann hefur átt undir högg að sækja vegna einræðislegra tilburða og samskipta sinna við stjórnarandstöðu landsins.

Hörðustu bardagar í 15 ár

Stjórnvöld í Eþíópíu skýrðu frá því í dag að þau hefðu fellt allt að 200 íslamska uppreisnarmenn í bardögum í höfuðborg Sómalíu, Mogadishu. Eþíópíski herinn hóf í dag stærstu sókn sína gegn uppreisnarmönnum síðan að þeir komu íslamska dómstólaráðinu frá völdum. Bardagarnir í Mogadishu eru þeir hörðustu í um 15 ár og vegna þeirra hafa fjölmargir íbúar borgarinnar þurft að flýja hana.

Undirrita samning um réttindi fatlaðra

Ísland var í hópi þeirra þjóða sem undirrituðu í dag samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og viðbótarbókun samningsins. Harald Aspelund, varafastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, skrifaði undir samninginn fyrir Íslands hönd.

Staðfestir gæsluvarðhald yfir meintum nauðgara

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir ungum manni sem grunaður er um að hafa naugðað konu á salerni í kjallara á Hótel Sögu aðfaranótt 17. mars síðastliðins. Maðurinn var handtekinn daginn eftir og úrskurðaður í gæsluvarðhald mánudaginn 19. mars.

ESB heimtar sjóliða lausa

Evrópusambandið hefur krafist þess að Íranar sleppi fimmtán breskum sjóliðum þegar úr haldi. Per Stig Möller, utanríkisráðherra Danmerkur sagði fréttamönnum að Írönum hafi verið gerð grein fyrir því að þetta væri óásættanlegt. Sjóliðarnir hefðu verið í Íraskri landhelgi og ekki væri hægt að koma fram við fanga eins og þeir hafi gert.

Ekki búið að yfirheyra mann vegna æðiskasts

Lögregla hefur ekki enn getað yfirheyrt karlmanninn sem fékk æðiskast við Miklubrautina í morgun og réðst meðal annars á aldraðan mann. Að sögn lögreglu er hann enn að sofa úr sér en hann var í annarlegu ástandi þegar æðið greip hann og þurfti sex lögreglumenn til að hemja hann.

Haniyeh fjármagnar hryðjuverk -Olmert

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, kallar forsætisráðherra Palestínumanna hryðjuverkamann, í viðtali við bandaríska vikuritið Time, sem kom út í dag. Hann segir að Ismail Haniyeh hafi persónulega afhent skæruliðum peninga til þess að gera hryðjuverkaárásir á Ísrael.

Styðja starf Rauða krossins í Mósambík

Utanríkisráðherra hefur ákveðið að styðja við starf Rauða krossins í Mósambík með þriggja milljóna króna framlagi vegna þeirra hörmunga sem dunið hafa yfir þar. Margir hafa misst heimili sín vegna flóða í mið- og suðurhluta landsins og sprengingar í gömlu vopnabúri ollu miklu tjóni.

Kasparov stýrir mótmælafundum

Skákmeistarinn Garry Kasparov ætlar að efna til mótmælafunda í helstu borgum Rússlands í næsta mánuði, þrátt fyrir að lögreglan hafi ráðist með kylfum á þrjá síðustu fundi. Kasparov er leiðtogi samtakanna Hitt Rússland. Mótmælafundirnir verða í Moskvu og Sankti Pétursborg, um miðjan næsta mánuð.

Fjögurra ára fangelsi fyrir fjölda líkamsárása

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í dag 25 ára karlmann, Steindór Hrein Veigarsson, í fjögurra ára fangelsi fyrir fimm líkamsárásir og húsbrot. Þá var félagi mannsins, Kristján Halldór Jensson, dæmdur í tveggja ára fangelsi einnig fyrir líkamsárásir. Tveir aðrir menn voru ákærðir í sama máli og var öðrum þeirra ekki gerð refsing en hinn sýknaður.

Eftirlitið fellst á samruna Ísfélagsins og HÞ

Samkeppniseftirlitið hefur fallist á kaup Ísfélags Vestmannaeyja á nær öllum hlutum í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. Kaupin áttu sér stað í febrúar síðastliðnum og var samkeppnisyfirvöldum tilkynnt um það.

Sjá næstu 50 fréttir