Fleiri fréttir

Meirihlutinn telur það til góða ef Demókratar sigra kosningarnar

Meirihluti Bandaríkjamanna telur að ef Demókratar ná meirihluta á þingi þá muni efnahagsmálum landsins, þróuninni í Írak og baráttunni gegn hryðjuverkum miða í rétta átt. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem fréttastöðin CNN lét gera og birti í dag. Þingkosningar í Bandaríkjunum fara fram á morgun.

Ingibjörg segir nýjan lista sterkan

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir nýjan lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi vera sterkan. Ingibjörg telur ástæðulaust að hafa áhyggjur af stöðu Suðurnesjamanna á listanum enda vinna þingmennirnir fyrir allt kjördæmið sama hvaðan þeir koma.

Bílvelta á Svalbarðsströnd

Fjórir voru fluttir á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri eftir bílveltu á Svalbarðsströnd á sjötta tímanum í dag. Konan sem keyrði bílinn skarst lítillega en þrjú börn hennar, sem voru með henni í bílnum, sluppu ómeidd. Töluverð hálka var þegar slysið átti sér stað.

Lúðvík endaði í öðru sæti

Lokatölur hafa verið birtar í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Gríðarleg spenna var um annað sætið en á endanum hafði Lúðvík Bergvinsson betur en Ragnheiður Hergeirsdóttir en aðeins munaði tuttugu og fimm atkvæðum á þeim.

Lúðvík og Jón yfirgáfu kosningavöku Samfylkingarinnar

Búist er við því að lokatölur í prófkjöri Samfylkingarinnar verði birtar fljótlega eftir klukkan tíu. Athygli vekur á Hóteli Selfossi, þar sem Samfylkingin er með kosningavöku, að alþingismennirnir Lúðvík Bergvinsson og Jón Gunnarsson yfirgáfu samkvæmið fyrir allnokkru síðan.

Ungliðar segja Frjálslynda ala á fordómum

Forsvarsmenn ungliðahreyfinga í öllum stjórnmálaflokknum nema Frjálslyndum gagnrýna yfirlýsingar Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um innflytjendamál í ályktun sem þeir sendu frá sér í dag. Þeir lýsa "vonbrigðum með þá ákvörðun nokkurra forystumanna í Frjálslynda flokknum að ala á trúarbragðafordómum og tortryggni í garð útlendinga í tilraunum sínum til að auka fylgi flokks síns." Í ályktuninni segir einnig að slíkur málflurningur sé meiðandi gagnvart hópi Íslendinga og stuðli að sundrungu í samfélaginu.

Kviknaði í eldhúsi á Akureyri

Slökkviliðið á Akureyri var kallað út á sjötta tímanum í dag þar sem reyk lagði úr íbúð í fjölbýlishúsi við Keilusíðu á Akureyri. Sjúkrabíll, dælubíll og körfubíll voru strax sendir á staðinn. Reykkafarar fóru inn í íbúðina og leituðu að fólki en íbúðin reyndist mannlaus. Talið er að kviknað hafi í út frá eldavél sem straumur var á.

Ragnheiður kominn aftur í annað sætið

Ragnheiður Hergeirsdóttir er komin aftur í annað sætið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Aðeins munar þremur atkvæðum á Lúðvíki og Ragnheiði í annað sætið. Lúðvík er nú í fjórða sæti en aðeins munar þrjátíu atkvæðum á honum og Róberti Marshall í þriðja sætið.

Björgvin hlaut sterkari kosningu en hann átti von á

Björgvin G. Sigurðsson hefur tryggt sér fyrsta sætið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. ,, Ég er ákaflega þakklátur fyrir þetta afgerandi traust sem ég hlýt. Ég fæ greinilega mjög góða kosningu í fyrsta sætið og mun sterkari en ég bjóst við" sagði Björgvin G. Sigurðsson þegar ljóst var að hann væri sigurvegari prófkjörsins.

Allir björguðust þegar eldur kom upp í íbúð í fjölbýli í Keflavík

Allt tiltækt lið Slökkviliðis brunavarna Suðurnesja var kallað út þegar kviknaði í fjölbýlishúsi í Keflavík rétt fyrir klukkan níu í kvöld. Eldsins varð vart í íbúð á annarri hæð og tókst að bjarga öllum út úr íbúðinni. Mikill eldur var í húsinu þegar slökkviliðið kom á staðinn en búið er að slökkva eldinn. Húsið stendur við hliðin á lögreglustöðinni í Keflavík.

Björgvin búinn að tryggja sér fyrsta sætið

Björgvin G. Sigurðsson hefur sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Búið er að telja 4.700 atkvæði og er Lúðvík að styrkja stöðu sína í 2. sætið. Fjörtíu og fjórum atkvæðum munar nú á Lúðvíki og Ragnheiði í 2. sætið.

Lúðvík er búinn að ná öðru sætinu

Lúðvík Bergvinsson er kominn í annað sætið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Ragnheiður Hergeirsdóttir er fallin niður í fjórða sætið en búið er að telja 4.400 atkvæði.

Búið að telja 78% atkvæða

Nú er búið að telja tæp 78% atkvæða í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi eða 4.000 atkvæði af 5.146. Lúðvíki Bergvinssyni vantar þrettán atkvæði til að ná Ragnheiði Hergeirsdóttur. Ragnheiður er með 1.203 atkvæði í 1.-2. sætið en Lúðvík er með 1.190 atkvæði í 1.-2. sætið. Þrjátíu og sjö atkvæðum munar á þeim Róberti Marshall og Lúðvíki í þriðja sætið.

Lúðvík vantar aðeins fjögur atkvæði í annað sætið

Búið er að telja 3.500 atkvæði í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Lúðvík Bergvinsson vantar aðeins fjögur atkvæði til verða jafn Ragnheiði Hergeirsdóttur í annað sætið. Ragnheiður Hergeirsdóttir er í öðru sæti með 1.042 atkvæði í 1.-2. sætið en Lúðvík er með 1.038 atkvæði í 1.-2. sætið.

Óbreytt staða þegar búið er að telja 3.000 atkvæði

Búið er að telja 3.000 atkvæði í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Gríðarleg spenna er um annað sætið en Lúðvík Bergvinsson vantar aðeins 12 atkvæði til að ná sætinu af Ragnheiði Hergeirsdóttur. Ragnheiður er með 896 atkvæði í 1.-2. sætið en Lúðvík 884 atkvæði. Tæpt er einnig á þriðja sætinu en Róbert Marshall er með 1.138 atkvæði í 1.-3. sætið en Lúðvík vantar aðeins 17 atkvæði til að ná Róberti. 1.

Rafmagn fór af Evrópu

Norska skemmtiferðaskipið Norwegian Pearl slökkti um helgina ljósin í Evrópu. Milljónir manna í 12 löndum misstu rafmagnið. Skipið var að sigla upp eftir ánni Ems, í Þýskalandi. Ákveðið var að rjúfa straum á mikilvægri rafleiðslu þar sem skipið er afar stórt. Það varð til þess að yfirspenna varð á öðrum leiðslum og þær sló út. Við það fór rafmagnið af stórum hluta Frakklands, Spánar, Ítalíu, Portúgal, Austurríkis og fleiri landa.

Hægt að komast hjá vandræðum

Prófessor í alþjóðastjórnmálum segir Íslendinga nú hafa tækifæri til að haga innflytjendamálum þannig að hægt verði að komast hjá vandræðum sem blossað hafi upp í grannríkjum. Hann segir málefni innflytjenda komin á borð sérfræðinga í öryggismálum og þau rædd á ráðstefnum Atlantshafsbandalagsins.

Mikil spenna um annað og þriðja sætið

Aðeins munar átján atkvæðum á Róberti Marshall og Lúðvíki Bergvinssyni í þriðja stætið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Búið er að telja tæpan helming atkvæða. Björgvin G. Sigurðsson er nokkuð öruggur í fyrsta sætinu.

Ísjakar undan strönd Nýja Sjálands

Yfirvöld á Nýja-Sjálandi hafa sent frá sér viðvörun til sjófarenda vegna mörg hundruð ísjaka undan strönd landsins. Töluverð hætta er talin geta skapast nærri jökunum þar sem veður á svæðinu mun versna.

Björgvini þakklæti í huga

Björgvini G. Sigurðssyni er mikið þakklæti í huga til þeirra sem studdu hann í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Björgvin er nú efstur í prófkjörinu en hann segir vert að hafa í huga að einungis sé búið að telja tæpan helming atkvæða. Róbert Marshall býður sig nú fram í fyrsta sinn og er í þriðja sæti. Róbert þakkaði kjósendum þegar búið var að birta tölur í þriðja sinn.

Tekist á um horfur í efnahagslífinu

Forsætisráðherra staðhæfði á Alþingi í dag að þenslan væri á mikilli niðurleið og spenna mjög að minnka í efnahagslífinu. Formaður Vinstri grænna fullyrti hins vegar á móti að ekkert gengi að vinna á jafnvægisleysinu.

Lést eftir neyslu á e-töflu

Kona á þrítugsaldri lést á laugardagsmorgun eftir að hafa tekið inn e-töflu og tveir piltar, á sautjánda ári, voru fluttir á sjúkrahús á sunnudagsmorgun eftir neyslu á e-töflum. Þeir liggja nú á Barnaspítala Hringsins alvarlega veikir.

Þakklát fyrir björgunina

Ferðalangarnir, sem komust í hann krappan á Möðrudalsöræfum í gær þegar rúður brotnuðu í bíl þeirra í aftakaveðri, eru þakklátir bjargvættum sínum. Þeir segja lífsreynsluna hafa verið ógnvænlega en ógleymanlega.

Róbert kominn í 3. sæti

Björgvin G. Sigurðsson er enn í 1. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi þegar búið er að telja 2.000 atkvæði. Björgvin er með 706 atkvæði í 1. sæti. Ragnheiður Hergeirsdóttir er í 2. sæti með 617 atkvæði í 1.-2. sætið. Róbert Marhall er í 3 sæti. Lúðvík Bergvinsson er í 4. sæti og Jón Gunnarsson í 5. sæti.

Björgvin G. Sigurðsson leiðir eftir fyrstu tölur

Fyrstu tölur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi voru birtar klukkan 18:20. Björgvin G. Sigurðsson er nú í 1. sæti með 503 atkvæði. Ragnheiður Hergeirsdóttir er í 2. sæti. Lúðvík Bergvinsson er í 3 sæti. Róbert Marshall í 4. sæti og Jón Gunnarsson í 5. sæti.

Frjálslyndir segja innflytjendamál ekki mega vera "tabú"

Leiðtogar frjálslyndra segja umræður um málefni innflytjenda ekki mega vera tabú hjá stjórnmálamönnum. Ríkisvaldið er harðlega gagnrýnt fyrir orð en engar gjörðir í málefnum nýbúa, en ekki er gert ráð fyrir fjárframlögum til málaflokksins í fjárlögum þessa árs. Margrét Sverrisdóttir framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins segir andstæðinga reyna að setja stimpil kynþáttafordóma á flokkinn.

Bílvelta í Súgandafirði

Jeppi valt í Súgandafirði á fimmta tímanum í dag. Slysið átti sér stað við bæinn Botn. Fjórir voru í bílnum þegar hann valt og sluppu allir ómeiddir. Bíllinn er gjörónýtur en lögreglan á Ísafirði segir hálku hafa verið á svæðinu þegar slysið átti sér stað.

Valgerður fundaði með Jústsjenkó

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra átti í dag fundi með Viktor Jústsjenkó, forseta Úkraínu, og Borys Tarasjúk utanríkisráðherra en ráðherra er í opinberri heimsókn í Úkraínu.

Lögfræðiteymi í bandaríska kosningaslaginn

Bæði repúblikanar og demókratar í Bandaríkjunum eru búnir að safna saman hópum lögfræðinga, sem eiga að leggja fram kærur ef úrslit verða einhversstaðar í vafa í þingkosningunum sem fram fara á morgun.

Útgöngubanni aflétt að hluta til í Bagdad

Íröksk yfirvöld hafa aflétt útgöngubanni í höfðuborginni Bagdad að hluta til en því var komið á áður en Saddam Hussein, fyrrverandi forseti landsins, var dæmdur til dauða í gær fyrir glæpi gegn mannkyni. Óttast var að til uppþota kæmi í kjölfarið í höfuðborginni en allt hefur verið með kyrrum kjörum í dag.

Fimmtán mánaða fangelsi fyrir ýmis brot

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag karlmann í 15 mánaða fangelsi og svipti hann ökuleyfi í fimm ár fyrir ítrekaðan ölvunarakstur og vopnalagabrot, fíkniefnabrot og þjófnað í haust. Maðurinn játaði fúslega brot sín fyrir dómi en hann á að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 1997.

Bandaríkin segjast standa sig vel í loftslagsmálum

Aðalsamningamaður Bandaríkjanna í umhverfismálum segir að Bandaríkin standi sig betur í því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda en mörg önnur lönd. Hann á ekki von á því að bandaríkjamenn undirgangist Kyoto samkomulagið, meðan núverandi ríkisstjórn situr í Washington.

Davíð verður ekki forstjóri Alþjóða­heilbrigðs­málastofnunarinnar

Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, er úr leik í samkeppninni um að verða næsti forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Hann var tilnefndur fyrir Íslands hönd en var ekki í hópi þeirra fimm sem framkvæmdastjórn stofnunarinnar valdi til áframhaldandi mats.

Krefjast þess að hætt verði að vernda mjólkuriðnað um áramótin

Stjórn Samtaka verslunar og þjónustu krefst þess að innflutningsvernd mjólkurafurða verði felld niður um næstu áramót, þegar afurðastöðvar íslenska mjólkuriðnaðarins (aðrar en Mjólka) sameinast. Í kjölfarið verði komið á samkeppnismarkaði þessara vara.

Safna 10 þúsund rúllum og böggum til uppgræðslu

Rangárþing eystra og Landgræðsla ríkisins hafa gert með sér samkomulag um söfnun 10 þúsund heyrúllna og bagga á næstu fjórum árum til að nota við heftingu sandfoks með það að markmiði að tryggja örugga umferð til og frá fyrirhugaðri höfn í Bakkafjöru á Landeyjasandi.

Þingmönnum synjað um kött gegn músaplágu

Yfirvöld hafa synjað beiðni breskra þingmanna um að fá kött, til þess að takast á við mikla músaplágu í þinghúsinu. Mýsnar hrjá bæði háa og lága; þær skoppa um á milli skrifborða blaðamanna, jafnt og í testofu þinghússins.

Fimmti hver Dani fylgjandi dauðarefsingu

Fimmti hver Dani er fylgjandi því að taka aftur upp dauðarefsingar í landinu samkvæmt nýrri könnun sem rannsóknarstofnunin IFKA hefur gert. Sagt er frá því á vef Jótlandspóstsins að dauðarefsing hafi verið endanlega tekin úr lögum í Danmörku árið 1993 en í dag séu um 20 prósent þjóðarinnar sem telji að refsa skuli fyrir sum brot með dauðadómi.

Hætta við sýningu Íd vegna hvalveiða Íslendinga

Íslenski dansflokkurinn virðist ætla að líða fyrir hvalveiðar Íslendinga því hætt hefur verið við sýningu sem flokkurinn ætlaði að halda í bæ á austurströnd Bandaríkjanna eftir um ár.

Actavis setur sykursýkilyf á markað í Bandaríkjunum

Íslenska samheitalyfjafyrirtækið Actavis hefur sett á markað sykursýkilyfið Glipizide ER í Bandaríkjunum sem er samheitalyf frumlyfsins Glucotrol XL®, sem framleitt er af Pfizer. Fram kemur í tilkynningu frá Actabvis að heildarsala lyfsins síðastliðið ár í Bandaríkjunum nemi um 13 milljörðum króna en Actavis er eitt af þremur fyrirtækjum á markaði með lyfið.

Vanskil á virðisaukaskatti fara vaxandi

Ríkisendurskoðun segir að vanskil á virðisaukaskatti fari vaxandi og telur tímabært að stjórnvöld kanni hvort ekki ætti að veita skattyfirvöldum heimild til að loka virðisaukaskattsnúmerum ef vanskil eru stórfelld. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu stofnunarinnar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2005.

Krefjast 38 þúsund ára fangelsis

Spænskir saksóknarar segja að þeir muni krefjast 38 þúsund ára fangelsis fyrir hvern hryðjuverkamannanna sem ákærðir eru fyrir árásir á lestarkerfi Madridar, árið 2004.

Sjá næstu 50 fréttir