Upp­gjörið: Njarð­vík - Álfta­nes 101-96| Gríðar­lega mikil­vægur sigur fyrir heima­menn

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Álftanes Njarðvík. Bónus deild karla 2025
Álftanes Njarðvík. Bónus deild karla 2025

Njarðvík tók á móti Álftanes í IceMar-höllinni í kvöld þegar sextánda umferð Bónus deild karla hóf göngu sína. Eftir gríðarlega mikinn spennuleik voru það á endanum heimamenn sem fóru með öflugan fimm stiga sigur 101-96.

Leikurinn fór fjörlega af stað og mátti snemma finna mikilvægi leiksins í spilamennsku liðana. Liðin skiptust á forystunni fyrst um sinn áður en Njarðvíkingar náði að komast skrefinu framar og halda sér þar.

Njarðvík náði 11-0 kafla sem byggði gott forskot sem þeir héldu út leikhlutann og leiddu eftir fyrsta leikhluta með sjö stigum 28-21.

Sven Smajlagic opnaði annan leikhluta með þriggja stiga skoti fyrir Njarðvíkinga og kom þeim í tíu stiga forskot. Þetta vakti þó eitthvað innra með gestunum sem náðu þokkalegasta svari.

Álftanes fór að klára sóknirnar sínar vel og ná stoppi á móti. Um miðjan leikhluta voru gestirnir búnir að snúa leiknum sér í hag og sækja forystu.

Leikurinn tók aðra sveiflu og nú voru það heimamenn í Njarðvík sem svöruðu fyrir sig með frábærum endi á leikhlutanum og fóru inn í hálfleikinn með tólf stiga forystu 57-45.

Gestirnir frá Álftanesi mættu miklu grimmari til leiks út í seinni hálfleikinn og átu upp forskot Njarðvíkinga strax í upphafi leikhlutans. Sigurður Pétursson átti þar stóran þátt en hann var gríðarlega heitur fyrir aftan þriggja stiga línuna. Justin James var Njarðvíkingum þá einnig erfiður viðureignar.

Afleitur leikhluti hjá heimamönnum í Njarðvík sem töpuðu honum með 18 stigum og Álftanes búið að snúa leiknum sér í hag eftir þriðja leikhluta 74-80.

Leikurinn var í járnum í fjórða leikhluta. Sven Smajlagic átti stórar körfur til þess að koma Njarðvíkingum í jafnan leik. Það var gríðarleg spenna í húsinu og mátti sjá það á taugum leikmanna sem voru farnir að gera klaufaleg mistök.

Þegar mest var undir voru það Njarðvíkingar sem sýndu sterkari taugar og náðu að klára leikinn með fimm stigum 101-96. Gríðarlega mikilvægur sigur fyrir heimamenn sem eru nú aðeins einum sigri frá Álftnesingum í áttunda og síðasta sæti deildarinnar sem gefur sæti í úrslitakeppni.

Atvik leiksins 

Veigar Páll Alexandersson tók leikinn á sínar herðar þegar lítið var eftir. Sýndi ís í [Njarðvíkur]æðum og kom Njarðvíkingum skrefinu framar þegar lítið var eftir með frábærum þriggja stiga körfum.

Stjörnur og skúrkar

Veigar Páll Alexandersson var stjarna Njarðvíkur í kvöld. Setti stærstu skotin og var með 22 stig. Dwayne Lautier-Ogunleye var þá að vanda gríðarlega mikilvægur í liði Njarðvíkur og var stigahæstur með 27 stig. Sven Smajlagic á líka skilið að fá ‘kall’ hérna.

Hjá Álftnesingum var Justin James erfiður viðureignar og endaði með 22 stig.

Dómararnir

Bjarki Þór Davíðsson, Jóhannes Páll Friðriksson og Daníel Steingrímsson dæmdu þennan leik. Kaflaskipt frammistaða og línan oft á tíðum mjög óskýr. Erfiður leikur að dæma eflaust en þeir voru ekki að gera sér verkefnið auðveldara fyrir.

Stemingin og umgjörð

Það var fínasta mæting í IceMar-höllina. Bæði lið fengu frábæran stuðning í kvöld og minnti á tíðum helst á úrslitakeppni með stemninguna eftir því. Umgjörðin var svo líkt og ávallt upp á 11,5 hér í IceMar-höllinni.

Viðtöl

Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur.Vísir/Hulda Margrét

„Við stóðum pliktina og vorum skynsamir á báðum endum“

„Loksins að við löndum einum svona“ sagði Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur eftir sigurinn í kvöld.

„Við erum búnir að vera í þessari stöðu svo margoft í vetur og einhvernveginn glutrað hlutunum frá okkur“

„Núna stóðum við pliktina og vorum skynsamir á báðum endum vallarins þannig ég er bara stoltur af strákunum með fullt af mótlæti. Sven [Smajlagic] fær fimm villur snemma í fjórða leikhluta og Milka var á annari löppini og spilaði þannig lagað lítið“

„Ótrúlegt kredit á Brynjar Kára, Snjólf og Bóas sem komu af bekknum. Brynjar Kári, Snjólfur og Veigar Páll eru með risastór kerfi hérna í seinni hálfleik og í fjórða leikhlutanum. Ótrúlega mikilvægt fyrir okkur að ná í þessi tvö stig“

Eftir mjög sveiflukenndan leik náði Njarðvík að landa góðum sigri sem gaf liðinu gríðarlega mikið.

„Það er bara virkilega stórt, þetta eru svona einhver hök í box á leiðinni sem þú vilt ná“

„Þú vilt fara í gegnum tímabilið með allavega einusinni að hafa komið til baka og vinna leik, missa niður forystu og halda dampi. Við lendum í því núna að við missum niður forystuna og lendum undir en við settum niður stór skot og fórum aftur að deila boltanum eins og við gerðum virkilega vel í fyrri hálfleik“

„Það er kannski það sem einbeitingin er búin að vera á eftir þrotið á Sauðárkróki fyrir viku síðan. Núna vorum við að keyra á og finna menn hér og þar. Vorum að fá galopin þriggja stiga skot og þegar við spilum þannig þá er mjög erfitt að dekka okkur og við þurfum bara að fjölga þeim mínútum“

„Það var ástæðan fyrir því að við komum okkur aftur inn í þennan leik og það er bara risastórt fyrir andrúmsloftið í klefanum“ sagði Rúnar Ingi Erlingsson.

Hjalti Þór Vilhjálmsson þjálfari Álftanes.Vísir/Hulda Margrét

„Fannst við vera með leikinn“

„Við eiginlega bara töpuðum þessu sjálfir“ sagði Hjalti Þór Vilhjálmsson þjálfari Álftanes eftir tapið í kvöld.

„Mér fannst við vera með leikinn hérna þegar það eru fjórar, fimm mínútur eftir af leiknum og bara í góðum málum“

„Þeir fara í einhverja svæðisvörn og við förum að drippla boltanum í hringi og gerðum þetta erfitt fyrir okkum sjálfum og svo hittir Veigar [Páll Alexandersson] einhverjum tíu stigum í röð og í raun vann leikinn fyrir þá“

Álftanes voru tólf stigum undir í hálfleik en unnu þriðja leikhluta svo með átján stiga mun.

„Við vorum ömurlegir í fyrri hálfleik. Hrikalega lélegir og hrikalega flatir, orkulitlir og hlupum ekki neitt. Þetta var bara ofboðslega dapurt en við ákváðum bara inn í klefa að fara að gera það sem við ætluðum að gera og gerðum það í þriðja leikhluta“

„Við spiluðum í 12-13 mínútur eins og við ætluðum að spila en fyrir utan það vorum við bara ekkert sérstaklega góðir“ sagði Hjalti Þór Vilhjálmsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira