ÍR - Valur 82-85 | Baráttusigur í Breið­holti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Frank Booker sækir að körfu ÍR-inga.
Frank Booker sækir að körfu ÍR-inga. Vísir/Vilhelm

Valsmenn unnu baráttusigur er liðið heimsótti ÍR í lokaumferð Bónus-deildar karla í körfubolta fyrir stutt jólafrí í kvöld, 82-85.

Það var snemma ljóst að ÍR-ingar ætluðu að hleypa leiknum upp í barning og reyna að vinna Valsmenn á því bragði.

Leikplan ÍR-inga gekk vel framan af leik og Valsmenn áttu í töluverðu basli með að finna leiðir að körfunni. Á sama tíma létu gestirnir ÍR-inga og stuðningsmenn þeirra fara í taugarnar á sér og líklega er óhætt að segja að hausinn hafi ekki alveg verið rétt skúfaður á Valsmenn.

Munurinn á liðunum var þó aldrei mikill og skiptust þau á að hafa forystuna. ÍR-ingar náðu fjögurra stiga forskoti snemma leiks, áður en Valsmenn náðu fjögurra stiga forskoti um miðbik 1. leikhluta. Að honum loknum var þó allt jafnt, 19-19.

Í 2. leikhluta voru ÍR-ingar að mestu með yfirhöndina, þó liðið hafi ekki náð að hrista gestina af sér. Mestur varð munurinn fimm stig, þegar Tsotne Tsartsidze stal boltanum á lokasekúndum fyrri hálfleiks og kom heimamönnum í 46-41 í þann mund sem hálfleiksflautið gall.

Liðin gengu því til búningsherbergja með fimm stiga mun sem skildi þau að og þeir Keyshawn Woods og Lazar Nikolic í liði Vals voru búnir að næla sér í tæknivillur.

Síðari hálfleikur var svo hreint ekki síðri en sá fyrri. ÍR-ingar skoruðu fyrstu fimm stig hálfleiksins og komust í tíu stiga forskot, en Valsmenn snéru dæminu við með góðu áhlaupi fyrir lok 3. leikhluta og leiddu með sex stigum að honum loknum.

Snemma í 4. leikhluta var orðið ljóst að þessi leikur myndi ekki ráðast fyrr en á lokasekúndunum. Liðin skiptust á að skora og hafa forystuna og þegar sléttar tvær mínútur voru til leiksloka settu heimamenn niður tvö víti til að jafna metin í 79-79.

Valsmenn settu hins vegar niður næstu fimm stig og brekkan varð brött fyrir ÍR-inga. Tómas Orri setti niður þrist fyrir heimamenn og ÍR-ingar brutu á Keyshawn Woods, sem misnotaði annað vítið þegar 16 sekúndur voru á klukkunni.

ÍR-ingar fengu því eitt tækifæri til að jafna metin og komast í framlengingu, en niður vildi boltinn ekki og niðurstaðan því þriggja stiga sigur Vals, 82-85.

Atvik leiksins

Þegar ÍR-ingar stálu boltanum undir lok fyrri hálfleiks ætlaði allt að verða vitlaust í húsinu. Heimamenn voru hársbreidd frá því að fá dæmdan boltann örskömmu áður, sem gerði Kára Jónsson í liði Vals algjörlega trylltan, en dómnum var að lokum snúið við. ÍR-ingar svöruðu því hins vegar virkilega vel, stálu boltanum og komu sér í fimm stiga forskot á sama tíma og hálfleiksflautið gall.

Stjörnur og skúrkar

Að öðrum ólöstuðum var Frank Aron Booker líklega mikilvægasti maður vallarins. Sá nennir að djöflast þegar erfiðlega gengur hjá sínum mönnum. Booker endaði með 19 stig, sjö fráköst og fjórar stoðsendingar af bekknum og átti stóran þátt í sigri Valsmanna.

Stigahæsti maður Valsmanna var hins vegar Kristófer Acox með 20 stig.

Í liði ÍR voru þeir Hákon Örn og Tómas Orri Hjálmarssynir báðir með 19 stig og Jacob Falko skoraði 18, ásamt því að gefa 11 stoðsendingar.

Dómararnir

Dómaratríó kvöldsins, þeir Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson, fengu ekki beint auðvelt verkefni í kvöld. Leikurinn allur, og þá sérstaklega fyrri hálfleikur, einkenndist af baráttu og barningi og oft og tíðum fengu dómararnir að heyra það frá hinum og þessum í salnum. 

Engu að síður er líklega ekki hægt að setja of mikið út á frammistöðu þeirra í kvöld.

Stemning og umgjörð

Skógarselið, heimavöllur ÍR-inga, var upptekinn í kvöld vegna jólatónleika MC Gauta og því var leikið í Seljaskóla. Óhætt er að segja að stemningin hafi verið mikil og Ghetto Hooligans sungu og trölluðu frá fyrstu mínútu.

Ghetto Hooligans stóðu undir nafni í kvöld.Vísir/Vilhelm

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira