Valur - Grindavík 87-80 | Valur vann framlengdan toppslag á Hlíðarenda Hjörvar Ólafsson skrifar 22. nóvember 2025 21:36 Reshawna Rosie Stone reyndist Val gulls ígildi í þessum leik. Vísir/Anton Brink Valur lagði Grindavík að velli, 87-80, eftir framlengdan leik liðanna í áttundu umferð Bónus-deildar kvenna í körfubolta í N1-höllinni að Hlíðarenda í kvöld. Valskonur hófu leikinn betur og voru komnar 13-4 yfir um miðjan fyrsta leikhluta. Reshawna Rosie Stone fór vel af stað í leiknum og skoraði átta af þessum 13 stigum. Þá tók Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, leikhlé sem skilaði tilætluðum árangri og undir lok leikhlutans voru gestirnir búnir að minnka muninn í 15-14. Jenný Geirdal Kjartansdóttir sá svo til þess að Grindavík fór með 23-21 forystu inn í annan leikhluta með þriggja stiga körfu sinni á lokaandartökum fyrsta leikhluta. Jafnræði var með liðunum framan af öðrum leikhluta og Alyssa Marie Cerino jafnaði metin í 34-34 með þriggja stig körfu sinni um miðbik leikhlutans. Alyssa Marie Cerino skoraði fimm þriggja stiga körfur og alls 22 stig í leiknum. Vísir/Anton Brink Þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var Grindavík 39-42 yfir. Reshawna Rosie Stone var stigahæst hjá Val í fyrri hálfleik með 14 stig og Alyssa Marie Cerino kom næst með 11 stig. Farhiya Abdi var hins vegar atkvæðamest hjá Grindavík með sín 13 stig. Liðin skiptust svo á að eiga góða kafla í þriðja leikhluta. Valur náði forystunni í fyrsta skipti síðan undir lok fyrsta leikhluta þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum. Heimkonur skoruðu þá fimm stig í röð og komust í 54-53. Grindavík átti hins vegar góðan lokasprett og var 54-62 yfir fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Grindavík var skrefinu á undan lungann úr fjórða leikhluta en þegar 1,08 mínúta var eftir af leiknum fékk Reshawna Rosie Stone þrjú vítaskot í stöðunni 67-70. Reshawna sýndi stáltaugar, setti öll vítin niður og jafnaði metin, 70-70. Liðin fengu bæði tækifæri til þess að tryggja sér sigurinn en ofan í vildi boltinn ekki og leikurinn þar af leiðandi framlengdur. Valskonur voru svo sterkari á svellinu í framlengingunni og fóru að lokum með 87-80 sigur af hólmi. Njarðvík er á toppi deildarinnar með 14 stig en Valur komst upp að hlið Grindavík í öðru til þriðja sæti deildarinnar með þessum sigri en liðin hafa hvort um sig 12 stig. Jamil Abiad, þjálfari Vals, fer yfir málin með leikmönnum sínum. Vísir/Anton Brink Jamil Abiad: Frábær karakter sem skilaði þessum sigri „Þetta var hörkuleikur tveggja góðra liða þar sem liðin skiptust á að vera með yfirhöndina. Sem betur fer áttum við síðasta áhlaupið og náðum að sigla sigrinum í höfn,“ sagði Jamil Abiad, þjálfari Vals, sáttur að leik loknum. „Við sýndum mikla þrautseigju og baráttu og það skilaði þessum sigri. Ég er mjög ánægður með hvað leikmenn mínir lögðu mikið í þennan leik og að við höfum haldið áfram þrátt fyrir að vera komnin í erfiða stöðu,“ sagði Jamil enn fremur. „Það var frábært að sjá varnarleikinn hjá okkur í fjórða leikhluta þar sem við fáum einungis á okkur átta stig sem er mjög vel af sér vikið. Við vorum hreyfanlegar og hjálpuðum hvor annarri vel við það að verjast þeim. Varnarleikurin skilaði þessum sigri,“ sagði hann stoltur. Þorleifur: Fengum á okkur klaufalegur villur undir lokin „Þetta var svolítið skrýtinn leikur. Mér fannst frammistaðan heilt yfir bara góð en ég er auðvitað fúll með að við höfum ekki náð að klára leikinn og ná í tvö stig. Við vorum í góðri stöðu en fengum á okkur klaufalegur villur undir lokin sem reyndust okkur dýrar,“ sagði Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, eftir leikinn. „Við fengum færi til þess að hrifsa til okkar sigurinn og Abby skorar eða leggur upp í níu af hverjum tíu skiptum í þeim stöðum sem hún var að skapa í lokasókninni. Það gekk þvi miður ekki upp að þessu sinni. Það var líka vont að missa Isabellu Ósk en við misstum ógn undir körfunni eftir að hún fór meidd af velli,“ sagði Þorleifur þar að auki. „Ég er sáttur við margt í þessum leik og við erum komin með skýrar vinnureglur í liðið. Samskiptin eru líka jákvæð og talandinn í liðinu góður. Mér finnst liðið á góðum stað og þeir hlutir sem við erum að vinna í á æfingum að skila sér inn í leikina. Það er margt sem við getum tekið með okkur úr þessum leikí næstu verkefni þrátt fyrir tapið,“ sagði hann borubrattur. Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, á hliðarlínunni að Hlíðarenda í kvöld. Vísir/Anton Brink Atvik leiksins Það hafði mikil áhrif á Grindavíkurliðið að missa Isabellu Ósk Sigurðardóttur meidda af velli um miðjan þriðja leikhluta. Isabella Ósk tekur mikið til sín undir körfunni og það vantaði framlag þaðan á ögurstundu í leiknum. Reshawna Rosie Stone sýndi svo úr hverju hún er gerð þegar hún kom leiknum í framlengingu með þremur vítaskotum þegar skammt var eftir af venjulegum leiktíma. Leikmenn Vals litu aldrei um öxl eftir það. Stjörnur og skúrkar Téð Reshawna Rosie Stone var stigahæst hjá Val með 28 stig. Alyssa Marie Cerino kom næst með 22 stig og Þóranna Kika Hodge-Carr skilaði 20 stigum á töfluna. Þóranna tók einnig 11 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Ásta Júlía Grímsdóttir var sömuleiðis atkvæðamikil í frákastabaráttunni en hún tók 10 fráköst. Alyssa tók svo níu fráköst. Ellen Nystrom var atkvæðamest hjá Grindavík með 27 stig en henni gekk best við að brjóta á bak aftur þétta vörn Valsliðsins þegar leið á leikinn. Þóranna Kika Hodge-Carr skilaði góðu kvöldverki. Vísir/Anton Brink Dómarar leiksins Dómarar leiksins, þeir Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson, Birgir Orn Hjörvarsson og Bergur Daði Ágústsson, slógu fáar sem engar feilnótur í fagmannlega útfærðum flautkonsert sínum. Dómaratríóið fær því sjö í einkunn fyrir vel unnin störf sín. Stemming og umgjörð Fínasta stemming á Hlíðarenda í kvöld og þeir stuðningsmenn sem lögðu leið sína á leikinn fengu jafnan og spennandi leik á þessu laugardagskvöldi. Ellen Nystrom skilaði sínu og gott betur fyrir Grindavík. Vísir/Anton Brink Bónus-deild kvenna Valur UMF Grindavík
Valur lagði Grindavík að velli, 87-80, eftir framlengdan leik liðanna í áttundu umferð Bónus-deildar kvenna í körfubolta í N1-höllinni að Hlíðarenda í kvöld. Valskonur hófu leikinn betur og voru komnar 13-4 yfir um miðjan fyrsta leikhluta. Reshawna Rosie Stone fór vel af stað í leiknum og skoraði átta af þessum 13 stigum. Þá tók Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, leikhlé sem skilaði tilætluðum árangri og undir lok leikhlutans voru gestirnir búnir að minnka muninn í 15-14. Jenný Geirdal Kjartansdóttir sá svo til þess að Grindavík fór með 23-21 forystu inn í annan leikhluta með þriggja stiga körfu sinni á lokaandartökum fyrsta leikhluta. Jafnræði var með liðunum framan af öðrum leikhluta og Alyssa Marie Cerino jafnaði metin í 34-34 með þriggja stig körfu sinni um miðbik leikhlutans. Alyssa Marie Cerino skoraði fimm þriggja stiga körfur og alls 22 stig í leiknum. Vísir/Anton Brink Þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var Grindavík 39-42 yfir. Reshawna Rosie Stone var stigahæst hjá Val í fyrri hálfleik með 14 stig og Alyssa Marie Cerino kom næst með 11 stig. Farhiya Abdi var hins vegar atkvæðamest hjá Grindavík með sín 13 stig. Liðin skiptust svo á að eiga góða kafla í þriðja leikhluta. Valur náði forystunni í fyrsta skipti síðan undir lok fyrsta leikhluta þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum. Heimkonur skoruðu þá fimm stig í röð og komust í 54-53. Grindavík átti hins vegar góðan lokasprett og var 54-62 yfir fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Grindavík var skrefinu á undan lungann úr fjórða leikhluta en þegar 1,08 mínúta var eftir af leiknum fékk Reshawna Rosie Stone þrjú vítaskot í stöðunni 67-70. Reshawna sýndi stáltaugar, setti öll vítin niður og jafnaði metin, 70-70. Liðin fengu bæði tækifæri til þess að tryggja sér sigurinn en ofan í vildi boltinn ekki og leikurinn þar af leiðandi framlengdur. Valskonur voru svo sterkari á svellinu í framlengingunni og fóru að lokum með 87-80 sigur af hólmi. Njarðvík er á toppi deildarinnar með 14 stig en Valur komst upp að hlið Grindavík í öðru til þriðja sæti deildarinnar með þessum sigri en liðin hafa hvort um sig 12 stig. Jamil Abiad, þjálfari Vals, fer yfir málin með leikmönnum sínum. Vísir/Anton Brink Jamil Abiad: Frábær karakter sem skilaði þessum sigri „Þetta var hörkuleikur tveggja góðra liða þar sem liðin skiptust á að vera með yfirhöndina. Sem betur fer áttum við síðasta áhlaupið og náðum að sigla sigrinum í höfn,“ sagði Jamil Abiad, þjálfari Vals, sáttur að leik loknum. „Við sýndum mikla þrautseigju og baráttu og það skilaði þessum sigri. Ég er mjög ánægður með hvað leikmenn mínir lögðu mikið í þennan leik og að við höfum haldið áfram þrátt fyrir að vera komnin í erfiða stöðu,“ sagði Jamil enn fremur. „Það var frábært að sjá varnarleikinn hjá okkur í fjórða leikhluta þar sem við fáum einungis á okkur átta stig sem er mjög vel af sér vikið. Við vorum hreyfanlegar og hjálpuðum hvor annarri vel við það að verjast þeim. Varnarleikurin skilaði þessum sigri,“ sagði hann stoltur. Þorleifur: Fengum á okkur klaufalegur villur undir lokin „Þetta var svolítið skrýtinn leikur. Mér fannst frammistaðan heilt yfir bara góð en ég er auðvitað fúll með að við höfum ekki náð að klára leikinn og ná í tvö stig. Við vorum í góðri stöðu en fengum á okkur klaufalegur villur undir lokin sem reyndust okkur dýrar,“ sagði Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, eftir leikinn. „Við fengum færi til þess að hrifsa til okkar sigurinn og Abby skorar eða leggur upp í níu af hverjum tíu skiptum í þeim stöðum sem hún var að skapa í lokasókninni. Það gekk þvi miður ekki upp að þessu sinni. Það var líka vont að missa Isabellu Ósk en við misstum ógn undir körfunni eftir að hún fór meidd af velli,“ sagði Þorleifur þar að auki. „Ég er sáttur við margt í þessum leik og við erum komin með skýrar vinnureglur í liðið. Samskiptin eru líka jákvæð og talandinn í liðinu góður. Mér finnst liðið á góðum stað og þeir hlutir sem við erum að vinna í á æfingum að skila sér inn í leikina. Það er margt sem við getum tekið með okkur úr þessum leikí næstu verkefni þrátt fyrir tapið,“ sagði hann borubrattur. Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, á hliðarlínunni að Hlíðarenda í kvöld. Vísir/Anton Brink Atvik leiksins Það hafði mikil áhrif á Grindavíkurliðið að missa Isabellu Ósk Sigurðardóttur meidda af velli um miðjan þriðja leikhluta. Isabella Ósk tekur mikið til sín undir körfunni og það vantaði framlag þaðan á ögurstundu í leiknum. Reshawna Rosie Stone sýndi svo úr hverju hún er gerð þegar hún kom leiknum í framlengingu með þremur vítaskotum þegar skammt var eftir af venjulegum leiktíma. Leikmenn Vals litu aldrei um öxl eftir það. Stjörnur og skúrkar Téð Reshawna Rosie Stone var stigahæst hjá Val með 28 stig. Alyssa Marie Cerino kom næst með 22 stig og Þóranna Kika Hodge-Carr skilaði 20 stigum á töfluna. Þóranna tók einnig 11 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Ásta Júlía Grímsdóttir var sömuleiðis atkvæðamikil í frákastabaráttunni en hún tók 10 fráköst. Alyssa tók svo níu fráköst. Ellen Nystrom var atkvæðamest hjá Grindavík með 27 stig en henni gekk best við að brjóta á bak aftur þétta vörn Valsliðsins þegar leið á leikinn. Þóranna Kika Hodge-Carr skilaði góðu kvöldverki. Vísir/Anton Brink Dómarar leiksins Dómarar leiksins, þeir Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson, Birgir Orn Hjörvarsson og Bergur Daði Ágústsson, slógu fáar sem engar feilnótur í fagmannlega útfærðum flautkonsert sínum. Dómaratríóið fær því sjö í einkunn fyrir vel unnin störf sín. Stemming og umgjörð Fínasta stemming á Hlíðarenda í kvöld og þeir stuðningsmenn sem lögðu leið sína á leikinn fengu jafnan og spennandi leik á þessu laugardagskvöldi. Ellen Nystrom skilaði sínu og gott betur fyrir Grindavík. Vísir/Anton Brink