Viðskipti innlent

Fyrr­verandi for­seti Hæsta­réttar fer yfir svör gervigreindarinnar

Árni Sæberg skrifar
Frá vinstri: Tómas Eiríksson, stofnandi Lagavita, Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, Jóhannes Eiríksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Lagavita.
Frá vinstri: Tómas Eiríksson, stofnandi Lagavita, Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, Jóhannes Eiríksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Lagavita. Lagaviti

Lagaviti hefur gert samstarfssamning við Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseta Hæstaréttar. Samstarfið felur meðal annars í sér að Markús mun veita endurgjöf á gæði röksemda og úrlausna hjá Lagavita á sviði réttarfars og nauðungarsölu. Markús vinnur þessi misserin að riti á síðarnefnda sviðinu.

Í fréttatilkynningu þess efnis er haft eftir Markúsi að það sé honum sönn ánægja að fá tækifæri til að fylgjast með og leggja lið við þróun þess tækniundurs sem Lagaviti sé. 

„Hér gefast ævintýralegir möguleikar sem eiga tvímælalaust eftir að verða til þess að bæta stórlega gæði í verkum lögfræðinga á fjölbreytilegum sviðum, enda er ljóst að tæknin mun nýtast vel við greiningu og úrlausn flókinna lögfræðilegra viðfangsefna.“

„Undanfarna áratugi hafa fáir lögfræðingar haft jafnmikil áhrif á þróun íslensks réttar og Markús og það er okkur því sérlega mikill heiður að vera komnir í samstarf við hann. Gæði hafa verið okkar leiðarljós frá upphafi, enda viljum við bjóða lausn sem leiðir ekki eingöngu til aukinnar skilvirkni í störfum lögfræðinga heldur byggist á dýpri lögfræðilegum greiningum og skilar vönduðum röksemdum og úrlausnum. Ábendingar og ráðgjöf Markúsar mun án efa gagnast okkur vel við að skerpa enn frekar á gæðum Lagavita, viðskiptavinum okkar til hagsbóta“ er haft eftir Jóhannesi Eiríkssyni, framkvæmdastjóra Lagavita.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×