Áskorun

Hringdi í mömmu sem sagði ein­fald­lega: „Nói, nú kemur þú heim“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Nói Klose, einn stofnenda MyRise, segist nokkuð viss um að það að hafa lent í myglu, hafi gert hann sterkari og jafnvel hjálpað honum að fá hugmyndina að heilsuappinu MyRise. Þar sem þróaður tilfinningagreindar-gervigreindarþjálfari skilur að lífið getur verið upp og niður.
Nói Klose, einn stofnenda MyRise, segist nokkuð viss um að það að hafa lent í myglu, hafi gert hann sterkari og jafnvel hjálpað honum að fá hugmyndina að heilsuappinu MyRise. Þar sem þróaður tilfinningagreindar-gervigreindarþjálfari skilur að lífið getur verið upp og niður. Vísir/Anton Brink

Það virðist einhvern veginn mótsagnarkennt að ræða mygluveikindi við ungan, hraustan og jákvæðan mann. Og þó…

Því í tilviki Nóa Klose náði hann ekki aðeins að snúa vörn í sókn, heldur segir hann heilmörg tækifæri hafa opnast í framhaldi af mygluveikindum sem hann lenti í.

Ný sýn og enn stærri möguleikar.

Nói er einn þriggja stofnenda nýsköpunarfyrirtækisins MyRise, sem nú er að þróa nýja tegund af heilsuappi.

„Ég held að MyRise muni hjálpa mjög mörgum því að ég held að enginn viti það betur en þú sjálfur hvernig þér líður. Og um það snýst málið; þennan skilning,“ segir Nói meðal annars um heilsuappið og bætir við:

Það skiptir svo miklu að einhver segi við þig: Já ég skil þig. 

Í staðinn fyrir að segja: Þú ert bara í toppstandi.“

Í Áskorun fjöllum við um erfiðu málin en líka allt það jákvæða og góða sem getur byggt okkur upp eða hvatt aðra til dáða. Áskorun fjallar á mannlegan hátt um öll lífsins verkefni.

Í dag ætlum við að læra af sögu Nóa. Sem sjálfur trúir því að hægt sé að læra af öllum. Nói upplifði sinn botn í frönsku Ölpunum. En segir í dag að reynslan hafi gert sig sterkari, gefið sér mörg tækifæri og stærri sýn. Enda hefur hann síðan hann lenti í myglunni menntað sig, stofnað fyrirtæki, haldið úti hlaðvarpsþáttum og gefið út lag á Spotify.

Fullt í gangi

Þessa dagana er vægast sagt ýmislegt í gangi hjá Nóa. Sem, ásamt meðstofnendum sínum, Töru Peters og Sammie Benton, stefnir að því að hefja prófanir á MyRise með notendum innan tveggja mánaða.

Og að opna MyRise fyrir öllum notendum snemma árs 2026.

Það sem gerir MyRise ólíkt öðrum heilsuöppum er að í MyRise er verið að þróa innbyggðan tilfinningageindar-gervigreindarþjálfara. Sem skilur hvernig þér líður dag frá degi.

„Það er of mikil einföldun að skella sér bara í ræktina á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. Því það hvernig dagsformið þitt er á þessum dögum, getur verið mjög mismunandi.

Nói tekur dæmi um hvernig lífið getur verið alls konar.

Við þekkjum þetta öll; einn daginn erum við orkumikil og góð, næsta dag ekki. 

Úthaldið okkar er því mismunandi fyrir hreyfinguna okkar. 

Enginn er eins og þess vegna er ekki hægt að vera með eitt fyrir alla prógramm; það á einfaldlega ekki við.“

Nói segir alls kyns þætti hafa áhrif á þetta dagsform. Líkamlega og félagslega.

„Notendur MyRise geta spjallað við innbyggða þjálfarann því hann skilur þig og veit að lífið er upp og niður. Í samræmi við þína líðan, reiknar tilfinningagreindi-gervigreindarþjálfarinn þeim klæðskerasniðið æfingaprógram fyrir þann daginn.“

Það sem gerir heilsuapp MyRise ólíkt öðrum heilsuöppum er að í því er innbyggður tilfinningagreindur-gervigreindarþjálfari sem skilur hvernig þér líður mismunandi á milli daga. Enda dagsformið okkar ólíkt. Á efri mynd tv. má sjá Nóa með meðstofnendum sínum; Sammie Benton og Töru Peters. Efri th. Nói að kynna MyRise á loka fjárfesta degi Startup Supernova.

Í fyrra skellti Nói sér í viðburðastjórnun í fjarnámi á Hólum, en Nói er fæddur árið 2004 og viðurkennir alveg að hafa verið svolítið týndur í því hvað hann langaði til að gera.

Hugmyndina að viðburðanáminu fékk Nói reyndar bara með tveggja daga fyrirvara.

„Ég á það til að gera hlutina þannig: Fæ bara hugmynd og vind mér í hana,“ segir Nói og brosir.

Síðasta vetur vann hann því við ýmiss viðburðaverkefni. Þar á meðal Söngvakeppni sjónvarpsstöðva. Nói hélt líka úti hlaðvarpsþættinum Fólkið á bak við nafnið, sem þó fór í hlé eftir 10. þátt; vegna anna hjá MyRise sem þá var komið á blússandi ferð.

Í þáttunum talaði Nói við ýmsa aðila um lífið og tilveruna.

Því ég trúi því að maður geti lært eitthvað af öllum. 

Að allir hafi einhverja sögu að segja. 

Sem við öll getum með einhverjum hætti lært eitthvað af.“

Og það er einmitt það sem við ætlum að gera í dag:

Að læra af sögu Nóa!

Nói er einn af þeim þúsundum Íslendinga sem hefur lent í myglu. En segist þó enginn sérfræðingur í mygluveikindum. Lýsir þó einkennunum vel og hvernig hann ákvað að sporna við myglunni með því að fara í strangt prógram hjá dönskum næringaþerapista.Vísir/Anton Brink

Gleði og erfiðleikar

Á síðustu árum hefur vart liðið sú vika að fjölmiðlar séu ekki að segja frá einhverjum myglumálum í fréttum. Skólar, stofnanir, ráðuneyti, banki, spítali og aðrir vinnustaðir.

Fyrir vikið má áætla að þúsundir einstaklinga þekki það af eigin raun, hvernig það er að veikjast af myglu.

Nói segist alls enginn sérfræðingur í myglu né einkennum hennar. Hann sé bara einn af þeim fjölmörgu sem hafi komist í tæri við myglu og orðið mygluveikur.

En við skulum byrja á byrjuninni…

„Ég var frekar feiminn krakki og þorði ekki að fara mikið út fyrir kassann. En var mikið í íþróttum, fékk útrás þar og hef alltaf haft mikla þörf fyrir það að fá útrás,“ segir Nói um æskuna.

Feimnin fór þó aðeins að þverra af honum þegar nær dró menntaskólaárunum. Og þegar Nói var byrjaður í Menntaskólanum við Sund (MS), var hann kominn á fullt í félagsstarfið.

„MS hafði mjög góð áhrif á mig félagslega og það að taka þátt í félagslífinu þar kenndi mér mjög margt og mótaði mig mikið sem manneskju. Að taka að sér verkefni í félagsstarfi kennir manni til dæmis vel að stjórna hópum,“ segir Nói.

Sem á þriðja ári var kosinn formaður/forseti nemendafélagsins.

„Ég elskaði að vera í skólanum og með fólkinu þar,“ segir Nói og ljómar allur.

Á þriðja ári fóru skrýtnir hlutir að gerast.

„Ég var alltaf slappur og náði ekki fullri orku, oft veikur. Sem var mjög ólíkt mér því frá því ég var lítill hafði það bara eiginlega aldrei gerst að ég yrði veikur!“

Nói þræddi lækna, fór í blóðprufur og alls kyns önnur próf en allt kom fyrir ekki.

„Það fannst ekkert að mér og mér var einfaldlega sagt að ég væri í toppstandi. Samt var ég að upplifa öndunartruflanir, fékk hellur fyrir eyrun og sjóntruflanirnar. Þessu fylgdi líka kvíði. Annars vegar var maður kvíðinn án þess að vita út af hverju, en síðan var maður líka kvíðinn yfir því að verða veikur.“

Loks fékk hann þó skýringu. Því þegar umræðan hófst í MS um að myglusveppur væri í byggingunni, var farið að ræða áhrif myglu og einkenni á heilsu starfsfólks og nemenda.

„Á fyrirlestri um einkenni rann þetta allt upp fyrir mér. Ég áttaði mig strax á því að það sem fram kom í fyrirlestrinum, passaði allt.“

Veltir þú því einhvern tíma fyrir þér eftir þetta, að hætta í MS?

„Nei ég elskaði MS einfaldlega of mikið til að velta því fyrir mér. Ég vildi halda þetta út enda langt kominn í náminu. En ég viðurkenni alveg að frá þriðja ári var ég kannski ekki að mæta eins vel og ég hefði viljað.“

Nói elskaði að vera í MS og velti því aldrei fyrir sér að hætta í skólanum vegna myglunnar. Skellti sér í íþróttalýðháskóla í Danmörku, fór heim vegna mygluveikinda en lauk síðan viðburðastjórnarnámi á Hólum.

Að hugsa út fyrir boxið

Nói ákvað þó að gefast ekki upp. Einhverja lausn hlyti hann að finna.

„Mér var bent á konu sem er danskur næringaþerapisti og sinnir mikið fólki sem er með sjaldgæfa sjúkdóma. Ég hitti hana í fjartíma og hún áttaði sig strax á því að ég væri með mygluveiki.“

Nói fór í meðferð hjá þerapistanum. Sem meðal annars fól í sér breytingu á mataræði, að taka inn dropa og lyf.

Allt virtist hjálpa en þó var einn gallinn enn á; Nói var alltaf að fara í skólann.

Þar sem myglan var.

„Það er nefnilega lítið að sakast við lækna um hvað er hægt að gera. Því til að losna við mygluveiki þarftu fyrst og fremst að halda þig fjarri myglunni og þá verður þú betri.“

Nói segir danska næringaþerapistann hafa lýst þessu vel:

„Hún sagði að myglu mætti líkja við það að ónæmiskerfið okkar væri í glasi. Ef glasið er orðið það fullt að það flæði út fyrir, verðum við veik og erum gjarnari á því að finna fyrir einkennum. Keppikeflið er því að ná glasinu hálf tómu, þannig að ekki flæði út fyrir og við því ekki svona útsett fyrir einkennum eða því að verða veik.“

Margir sem hafa upplifað mygluveiki tala um að finna fyrir einkennum um myglu um leið og komið er inn í byggingu þar sem mygla er fyrir.

Og jafnvel að það þurfi enn minna til. Því mygla sest í allt. Föt, húsgögn og aðra muni.

Nói tekur undir þetta og segir að ef ónæmiskerfið er veikt og glasið farið að flæða úr, þurfi jafnvel mjög lítið til.

Nói er sannfærður um að reynslan af myglunni hafi hjálpað honum að fá hugmyndina að MyRise. Þar sem tryggt er notendur fái svarið Ókei ég skil þig, frekar en að gert sé ráð fyrir að þú sért alltaf í toppstandi. Að geta spjallað við einhvern sem skilur þig er lykilatriði.Vísir/Anton Brink

„Þú þarft ekki annað en að sitja við hliðina á einhverjum sem vinnur í mygluhúsnæði og þú ferð að finna fyrir einkennum. Því myglan er þá væntanlega í fötum viðkomandi.“

Það sem hafi hins vegar virkað fyrir hann, er að halda glasinu hálftómu þannig að ónæmiskerfið sé sem sterkast. Það geri hann með því að passa mataræðið, stunda hreyfingu og útivist í miklu mæli eru til dæmis allt þættir sem skipta miklu máli.

Þegar ein dyr lokast opnast aðrar

En svo skringilega sem það hljómar er eins og oft þurfi lífið að leiða okkur í gegnum einhverja erfiðleika áður en við rísum upp. Jafnvel öflugri en nokkru sinni fyrr.

„Ég byrjaði í íþróttalýðheilsuskóla í Danmörku eftir áramótin 2023/2024. Í mars fór ég í viku skíðaferðalag í frönsku Ölpunum, en þessi skíðaferð var hluti af íþróttanáminu.“

Um leið og Nói gekk inn á hótelið, fann hann fyrir myglu.

„Og ég er ekki að tala neitt um einhverja smá myglu, heldur mikla,“ útskýrir Nói og bætir við:

Ég fékk að skipta um herbergi en allt kom fyrir ekki.

 Nóttina eftir annan daginn þurfti ég einfaldlega að koma mér út á götuna til að ná andanum. 

Þar brotnaði ég alveg saman því mér leið eins og ég væri að deyja. 

Hringdi í mömmu sem sagði einfaldlega við mig: Nói, nú kemur þú heim.“

Nói flaug heim í gegnum London en man lítið eftir heimferðinni.

„Því eitt af því sem fólk getur upplifað í mygluveikindum er minnisleysi. Heimferðin er því eins og í þoku.“

Heima leið honum ekki vel.

„Mér fannst ég smá hafa brugðist sjálfum mér. Gefist upp.“

Nói fór þó aftur í meðferð hjá danska þerapistanum. Enn strangari prógramm en áður og eftir nokkra mánuði var hann orðinn góður á ný.

Nýverið gaf Nói út lagið Empty Hall á Spotify. Sem er mjög gott dæmi um hversu langt hann er frá þeim stað sem hann var á eftir myglubotninn sinn í fyrra, þegar honum fannst um tíma að hann hefði brugðist sjálfum sér með því að fara heim úr námi, heilsunnar vegna. Í dag lítur hann allt öðrum augum á málin.Vísir/Anton Brink

Í dag er Nói fyrst og fremst bara „busy,“ eins og við segjum upp á enskuna. Því til viðbótar við vinnuna, stefnir Nói að því að gefa út sitt annað lag von bráðar.

Fyrsta lagið, Empty Hall, gaf hann út í sumar en það má finna á Spotify.

„Ég er sem betur fer kominn á þann stað að vera orðið svolítið sama hvað öðrum finnst. Læt bara vaða,“ segir þessi brosmildi ungi maður.

Og það er auðheyrt að Nói er ekkert að velta sér upp úr því hversu mikil áhrif myglan hafði á hann.

Þvert á móti lítur hann á reynsluna sem eitthvað sem styrkti hann og hjálpaði jafnvel til við að hann fékk hugmyndina að MyRise.

„Mér finnst MyRise reyndar endurspegla þessa reynslu líka. Því MyRise byggir á því að skilja að lífið er upp og niður og að þess vegna skipti máli að þú fáir klæðskerasniðin æfingaprógrömm miðað við hvernig líðanin þín er hverju sinni. 

Það skiptir líka svo miklu máli að geta spjallað við einhvern sem svarar þér með því að segja: Ókei, ég skil þig.“


Tengdar fréttir

Kraftaverkasaga: „Mun ég aldrei sjá þau aftur?“

Það er allt fullt af blóði. Eins og blóðið fossi úr hesti frekar en manneskju. Anna hleypur frá svefnherberginu og inn á klósett. Grátandi af hræðslu og í geðshræringu ; Er dóttirin dáin eða get ég reynt að þrýsta á og framkalla fæðingu strax; Næ ég að bjarga henni? hugsar hún.

„Ég þurfti að breyta hugsun, hegðun og tali“

„Við tölum oft um að þurfa að uppfæra símana okkar og uppfæra tölvurnar okkar. En það sama þarf að gerast hjá fólki með fíknisjúkdóma; sem þarf má segja að uppfæra heilann á sama hátt,“ segir Bergrún Brá Kormáksdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafanemi á Vogi.

Öðruvísi líf: „Hryllingurinn var meiri en villtustu hugmyndirnar“

„Það var Egyptaland sem skilaði mér heim í dálítilli rúst. Ég einfaldlega missti trúna á mannkyninu og hef aldrei kært mig um að hafa það eftir sem ég sá og heyrði þar. En get sagt að hryllingurinn var meiri en villtustu hugmyndirnar,“ segir Helena Jónsdóttir þegar hún rifjar upp tímann sem hún starfaði með Læknum án landamæra í Egyptalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.