Erlent

Lofuðu Trump í Norður-Kóreustíl

Samúel Karl Ólason skrifar
Málefni Jimmys Kimmel var mikið til umræðu hjá þáttastjórnendum spjall- og gamanþátta vestanhafs í gærkvöldi.
Málefni Jimmys Kimmel var mikið til umræðu hjá þáttastjórnendum spjall- og gamanþátta vestanhafs í gærkvöldi.

Stjórnendur spjallþátta vestanhafs voru nokkuð þungir á brún vegna þess að þáttur Jimmys Kimmel var tekinn úr loftinu í vikunni en gerðu þrátt fyrir það stólpagrín að vendingunum og Donald Trump, forseta, þar sem þeir lofuðu hann í hástert, með mikilli kaldhæðni.

Forsvarsmenn Disney og sjónvarpsstöðvarinnar ABC, sem er í eigu Disney, tóku þá ákvörðun í vikunni að hætta að sýna þátt Jimmys Kimmel um óákveðinn tíma. Var það gert eftir að yfirmaður Fjarskiptastofnunar Bandaríkjanna (FCC), gaf til kynna að útsendingaleyfi gæti verið tekið af sjónvarpsstöðvum sem sýna þættina.

„Við getum farið auðveldu leiðina eða erfiðu leiðina,“ saði Brendan Carr, yfirmaður stofnunarinnar.

Á það að vera vegna ummæla Kimmels sem tengjast morðinu á Charlie Kirk.

Í flugvél sinni á leið til Bandaríkjanna frá Bretlandi í gærkvöldi kvartaði Trump yfir því hvað sjónvarpsstöðvar Bandaríkjanna væru neikvæðar í hans garð. Réttast væri að taka útsendingaleyfin af þeim vegna þessa.

Í þætti sínum sem tekinn var upp og sýndur var á mánudaginn sagði Kimmel að „MAGA-gengið“ legði mikið púður í það að sannfæra heiminn um að morðingi Charlies Kirk væri ekki einn af þeim og reyndi að nýta sér dauða mannsins í pólitískum tilgangi.

Inn á milli væru Trump-liðar syrgjandi.

Þá gerði Kimmel einnig grín að því hvernig Trump hefði syrgt Kirk, en þeir þekktust vel, og sýndi myndbönd af forsetanum eftir morðið, þar sem hann talaði um það hve fallegur veislusalurinn sem verið er að byggja við Hvíta húsið yrði.

Ítarlega var farið yfir aðdraganda þess að þættir Kimmels voru teknir úr loftinu í gær.

Hér að neðan er farið yfir hvern þátt fyrir sig í gær og hvernig umfjöllunin um málefni Kimmels var.

Meyers

Seth Meyers byrjaði innslag sitt um málið með því að taka fram að hann hefði alltaf borið gífurlega virðingu fyrir Trump. Meyers sagðist ávallt hafa talað fallega um Trump en ef fólk sæi myndbönd þar sem hann segði eitthvað slæmt um forsetann væri það falsað með gervigreind.

Því næst rifjaði Meyers upp heimsókn Trumps til Bretlands í vikunni og það hvernig JD Vance gagnrýndi Bretland fyrr á árinu í tengslum við málfrelsi og ritskoðun. Seinna í innslaginu tíundaði Meyers fjölda skipta þar sem Trump hefur staðhæft að sem forseti hafi hann bundið enda á ritskoðun af hálfu yfirvalda í Bandaríkjunum.

Fallon

Jimmy Fallon sagðist hafa vaknað við fjölda skilaboða frá föður sínum sem hefði staðið í þeirri trú að það væri þáttur hans sem hefði verið tekinn úr birtingu. Fallon sagði að hann myndi halda sínu striki og að orð forsetans eða aðgerðir ríkisstjórnarinnar myndu engin áhrif hafa á hann.

Þegar hann sagði brandara sína um Trump var þó búið að lesa yfir þá hrós um forsetann. Að öðru leyti fjallaði hann lítið um málið.

Jon Stewart

Hinn reynslumikli Jon Stewart, sem stýrir Daily Show yfirleitt á mánudagskvöldum, settist niður í glænýju og gylltu setti í gærkvöldi, og hófst þátturinn á því að hann nyti nú blessunar ríkisstjórnar Trumps.

„Við erum með glænýjan, bráðskemmtilegan, ríkissamþykktan þátt,“ sagði stressaður og hálf grátandi Stewart í upphafi langs innslags síns. Síðan jós hann lofi yfir Trump í takt við ríkissjónvarp Norður-Kóreu en augljóslega af mikilli kaldhæðni.

Þá fór hann yfir hvað Repúblikanar hafa verið að segja undanfarna daga um hvað ekki megi segja um pólitíska andstæðinga sína og benti í kjölfarið á að Trump og hans fólk hefði gert það sama um langt skeið.

Seinna í þættinum fékk hann Mariu Ressa, höfund bókarinnar: „Hvernig standa á í hárinu á einræðisherra“ og friðarverðlaunahafa og ræddu þau hvernig standa ætti í hárinu á einræðisherrum.

Colbert

Stephen Colbert varði einnig miklu púðri í málefni Kimmels í þætti sínum en forsvarsmenn CBS og Paramount hafa þegar tekið þá ákvörðun að hætta framleiðslu þáttar hans. Margir hafa haldið því fram að það hafi verið gert vegna þess að Paramount þurfti samþykki ríkisstjórnarinnar vegna samruna við Skydance.

Það samþykki fékkst eftir að Paramount greiddi Trump sextán milljónir dala vegna lögsóknar sem sérfræðingar segja að Paramount hefði að öllum líkindum unnið, og eftir að Colbert var sagt upp.

Sjá einnig: Þjónkun við Trump? - CBS leggur niður Late Show

Hann spilaði eitt lag þar sem hann gerði grín að stjórnendum Disney og ABC, dró karakter sinn hinn íhaldssama Stephen Colbert úr Colbert Report aftur á sviðið og fjallaði mikið um Kimmel í upphafi þáttarins. Hann rifjaði meðal annars upp hvað það var sem Kimmel sagði sem reitti Trump-liða til reiði.

Þá fékk hann til sín fréttamennina Jake Tapper og David Remnick, sem báðir voru mjög gagnrýnir á aðgerðir ríkisstjórnar Trumps í að þrýsta á fyrirtæki svo Kimmel yrði tekinn úr loftinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×