Upp­gjörið: FH - ÍBV 36-30 | Sigur FH var aldrei í hættu gegn flötu liði ÍBV

Hjörvar Ólafsson skrifar
_DSF6763
vísir/Anton

FH fór með sigur af hólmi, 36-30, þegar liðið mætti ÍBV í þriðju umferð Olís-deildar karla í handbolta í Kaplakrika í kvöld.

FH-ingar unnu sannfærandi sigur gegn Val í síðustu umferð deildarinnar og héldu áfram frá því sem frá var horfið að Hlíðarenda í þessum leik. Leikmenn FH komu kraftmiklir og vel innstilltir til leiks og voru komnir 5-1 yfir þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af leiknum.

Einar Örn Sindrason hefur alið manninn frá unga aldri í Kaplakrika og fann fjölina sína í upphafi þessa leiks. Þá var varnarleikur FH-liðsins grimmur og sóknarleikur Eyjaliðsins á sama tíma stirðbusalegur.

Eyjamenn vöknuðu til lífsins um miðjan fyrri hálfeikinn og minnkuðu muninn í eitt mark, 9-8, en Elís Þór Aðalsteinsson var fremstur í broddi fylkingar hjá Eyjaliðinu á þeim góða kafla.

Símon Michael Guðjónsson var markahæstur hjá FH með átta mörk. 

Þá smullu FH-ingar aftur í gang og undir lok fyrri hálfleiks fékk Sigtryggur Daði Rúnarsson að líta beint rautt spjald. Í kjölfarið á því misstu leikmenn ÍBV hausinn um stundarsakir og Andri Erlingsson fékk tvær mínútur fyrir að malda í móinn í sókninni sem ÍBV lagði af stað í eftir rauða spjaldið.

FH nýtti sér það að vera tveimur leikmönnum fleiri til fullnustu og byggði upp sex marka forskot, 18-12, og heimamenn voru 19-14 yfir þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Jón Þórarinn Þorsteinsson sem varði vel í sigrinum gegn Val hélt uppteknum hætti í kvöld. Jón Þórarinn hóf leikinn á varamannabekknum en kom inná í lok fyrri hálfleiks og lokaði markinu á köflum. Jón Þórarinn varði 17 skot, þar af tvö vítaköst og var með tæplega 50 prósent markvörslu.

Eyjamenn náðu aldrei að hleypa spennu í þennan leik og sigurinn var aldrei í hættu hjá FH. Þegar upp var staðið vann FH-liðið öruggan sex marka sigur, 36-30. FH og ÍBV eru bæði með fjögur stig eftir þrjá leiki líkt og Haukar og Fram sem hefur spilað tvo leiki. Afturelding trónir á toppi deildarinnar með fullt hús stig eftir þrjá leiki. 

Sigursteinn Arndal fer yfir málin með leikmönnum sínum. Vísir/Anton Brink

Sigursteinn: Gerðum hlutina einfalt en af krafti

„Ég var ánægður með það að við mættum aftur virkilega klárir í leikinn. Við náðum frumkvæðinu strax í leiknum og gengum hreint til verks. Það gladdi mig mjög mikið og við héldum sama krafti nánast allan leikinn,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, að leik loknum. 

„Sóknarleikurinn gekk mjög vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það var gott flæði og leikmenn gerðu hlutina einfalt en af sama tíma fylgdi hugur þeim aðgerðum sem þeir fóru í. Við erum með unga og hæfileikaríka leikmenn sem eru að taka sín hlutverk af festu. Það er gaman að sjá það,“ sagði Sigursteinn enn fremur. 

FH-ingar héldu inn í þetta keppnistímabil án Ásbjörns Friðrikssonar sem hefur verið burðarás í sóknarleik leiksins frá árinu 2008 að undanskildum tveimur tímabilum þar sem hann spilaði í Svíþjóð. Sigursteinn er ánægður með hversu vel hefur gengið hjá leikmönnum FH að taka við keflinu af Ásbirni. 

„Það er ljóst að það tekur tíma að venjast því að spila án Ásbjörns og það krefst vinnu fyrir aðra leikmenn að fylla hans skarð. Það fer engin í skóna hans Ásbjörns sí svona og við þurfum að halda áfram allt tímabilið að stækka hlutverk annarra leikmanna. Það er gott að sjá að það eru leikmenn sem vilja taka ábyrgð og vera í stóru hlutveriki,“ sagði hann. 

Sigursteinn var sömuleiðis ánægður með markvörslu Jóns Þórarins: „Við erum með tvo góða markmenn og í kvöld fann Daníel Freyr sig ekki sem er bara eins og gengur og gerist. Jón Þórarinn er með mikið sjálfstraust og það geislar af honum. Það er ástæða fyrir því að við erum með tvo öflugar markmenn og við sáum hana í kvöld,“ sagð Sigursteinn. 

Erlingur: Reyndum allt en ekkert gekk upp

„Það má segja að við höfum verið að fara í fyrsta stóra prófið eftir að hafa spilað tvo heimaleiki í upphafi tímabils. Okkur líður greinilega vel á heimavelli en þurfum að gíra okkur betur í komandi útileiki það er ljóst,“ sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, eftir leikinn. 

„Við vorum eiginlega bara sundurspilaðir af FH að þessu sinni. Við náðum aldrei að stöðva flæðið á þeim og þeir skora alltaf í bakið á okkur þegar við erum við það að koma okkur inn í leikinn. Því fór sem fór,“ sagði Erlingur þar að auki. 

„Við prófuðum allt held, bæði í varnarleiknum og sóknarleiknum og reyndum hvað við gátum. Skorum 30 mörk sem er jákvætt en að fá á sig 36 mörk er á hinn bóginn allt of mikið og erfitt að vinna þegar þú spilar ekki betri vörn en við gerðum. Svo fann Petar sig ekki eins og hann var búinn að gera í fyrstu tveimur leikjunum,“ sagði hann

„Við erum 10 mínútur útaf í fyrri hálfleik sem er allt of mikið. Þeir nýttu sér það til fulls. Mér fannst kannski vanta aðeins vanta samræmi í dóma á báðum endum vallarins. Sigtryggur Daði fær rautt spjald en Daníel Þór er sleginn í andlitið og blóðgaður hinu megin en það eru tvær mínútur sem dæmi. Þar var refsingin ekki nægjanleg að mínu mati,“ sagði Eyjamaðurinn um þróun leiksins. 

Aðspurður um hvernig honum finnist staðan vera á Eyjaliðinu eftir fyrstu þrjá leiki deildarinnar sagði Erlingur: „Við erum með blöndu af yngri og eldri leikmönnum og erum enn að átta okkur á því hvaða leikmenn passa best saman og ná takti. Það er svolítið langt í land með að ná upp stöðugleika í spilamennsku okkar. Það er hlutverk mitt að þjálfa leikmennina og bæta þá.“

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, segir að lið hans vera í mótun.Vísir/Anton Brink

Atvik leiksins

Sigtryggur Daði fékk beint rautt spjald og skömmu síðar fékk Andri Erlingsson tvær mínútur. Fyrir það var Eyjaliðið að gera sig gildandi í leiknum. FH sýndi aga á þeim tíma sem þeir voru tveimur fleiri og komust sex mörkum yfir. Þá forystu lét FH-liðið aldrei af hendi og hleypti gestunum aldrei inn í leikinn.  

Stjörnur og skúrkar

Símon Michael var markahæstur hjá FH með átta mörk en hann nýtti færin sín mjög vel. Einar Örn skoraði sex mörk og var ákveðinn í sínum sóknaraðgerððum. Bróðir hans, Garðar Ingi, skoraði fjögur mörk og fiskaði þrjú vítaköst. Garðar skoraði úr öllum fjórum skotunum sem hann tók. Jón Þórarinn er svo að fara mjög vel af stað með nýja liðinu sínu á þessu tímabili. 

Elís Þór Aðalsteinsson var einn af fáum ljósum punktum í erfiðum leik hjá Eyjamönnum en hann skoraði 10 mörk. Þá nældi Elís Þór í þrjú vítaköst og var sá leikmaður hjá gestunum sem átti auðveldast með að skapa fyrir sig og samherja sína. 

Garðar Ingi Sindrason átti nokkuð auðvelt með að brjóta sig í gegnum vörn gestanna. Vísir/Anton Brink

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson, dæmdu þennan leik bara ágætlega og fá að launum sjö í einkunn fyrir dómgæslu sína. 

Stemming og umgjörð

Hamborgarinn í Kaplakrikanum var alveg ofboðslega góður að þessu sinni, eins og vanalega raunar. Augljóslega grillaður af alúð og mikil ástríða við það hvernig hann er framreiddur og borin fram.

Þá jókst fagmennska FH-inga enn frekar þegar myndarlegar konur mættu með dýrindis saltkringlur og Hraun í hálfleik. Blaðamenn gátu svo valið um alla þá drykki sem þá lysti þeim til mikillar ánægju og yndisauka. Þar áður var kaffið á sínum stað og það sveik svo sannarlega engan.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira