Körfubolti

Giannis loksins mættur en Grikkirnir neita að út­skýra fjarveruna

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Giannis Antetokounmpo bar liðið á herðum sér eins og oft áður.
Giannis Antetokounmpo bar liðið á herðum sér eins og oft áður. Gregory Shamus/Getty Images

Eftir að hafa misst af fyrstu þremur vikunum í undirbúningi gríska landsliðsins fyrir Evrópumótið í körfubolta er Giannis Antetokounmpo loksins mættur á æfingar. Gríska körfuknattleikssambandið neitar að útskýra hvers vegna hann hefur ekki tekið þátt hingað til.

Fyrir rúmri viku var greint frá því að gríska körfuknattleikssambandið hefði ekki greitt tryggingu fyrir Giannis til félagsliðs hans í NBA deildinni, Milwaukee Bucks.

Hann hafði þá ekkert sést á æfingum liðsins og ekki tekið þátt í æfingaleikjum, en mætti síðan á æfingu í gær eins og ekkert hefði gerst.

Gríski miðillinn SDNA fjallaði um málið og sóttist eftir viðbrögðum frá gríska sambandinu eftir æfinguna í gær.

Sambandið neitaði að svara opinberlega fyrir málið en innanbúða upplýsingum var lekið til SDNA þar sem afstaða sambandsins er sögð vera sú að fréttaflutningurinn sé byggður á lygum, til þess gerðum að skapa neikvæða umfjöllun í aðdraganda EM. Engin vandamál hafi verið til staðar.

Sambandið staðfesti hins vegar á samfélagsmiðlinum X að Giannis yrði með í æfingaleik Grikklands gegn Lettlandi á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×