Tilkynningum fjölgaði um 11,7 prósent á öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu en um 5,7 prósent í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins, segir í tilkynningu á vef Barna- og fjölskyldustofu.
Um 41 prósent tilkynninganna vörðuðu vanrækstu á börnum og um 25 prósent ofbeldi gegn börnum. Um 34 prósent tilkynninga varðaði áhættuhegðun barna.
„Fyrir COVID-19 voru almennt næstflestar tilkynningar vegna áhættuhegðunar barna og unglinga, en breyttist í faraldrinum þegar fleiri tilkynningar vegna ofbeldis fóru að berast. Árið 2022 snerist sú þróun við og áhættuhegðun varð aftur næststærsti flokkur tilkynninga. Á það einnig við um árið 2024. Hlutfall tilkynninga þar sem að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var 0,7% sem er svipað og fyrri ár,“ segir í tilkynningunni.
Mest er fjölgunin á tilkynningum sem varða neyslu barna á vímuefnum og þá fjölgaði einnig tilkynningum um að barn væri að koma sér undan forsjá. Þær tilkynningar varða oftar stúlkur en drengi.
Tilkynningum um vanrækslu fjölgaði um 8,2 prósent og tilkynningum um ofbeldi um 6,5 prósent. Langmest aukning varð á tilkynningum um líkamlegt ofbeldi, eða 19,8 prósent.
„Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, eða 39,7% tilkynninga á árinu 2024, heldur hærra hlutfall en árin tvö á undan. Tilkynningum frá skólum og heilbrigðiskerfinu heldur áfram að fjölga. Tilkynningum frá skólum fjölgaði um 9,2% á milli ára en um 3,4% frá heilbrigðiskerfinu. Mest var fjölgun tilkynninga frá nágrönnum eða um 24,7% og þar sem barn tilkynnti sjálft, en 81 barn hafði sjálft samband við barnavernd, samanborið við 49 börn á árinu 2023 og 65 börn á árinu 2022.“