Jalen Williams átti mjög flott tímabil með Oklahoma City Thunder liðinu og átti líka mikinn þátt í fyrsta NBA meistaratitli liðsins.
Williams, sem er kallaður J-Dub, skoraði 40 stig í einum leikjanna í úrslitaeinvíginu og endaði með 23,6 stig, 5,0 fráköst og 3,7 stoðsendingar í leik í leikjum sex á móti Indiana Pacers.
Williams er nýorðinn 24 ára gamall og er frá Denver í Colarado fylki. Hann er á sínu þriðja tímabili en var valinn númer tólf í nýliðavalinu 2022 eftir að hafa spilað í þrjú ár með Santa Clara háskólanum.
Eftir leikinn sagði hann blaðamönnum frá því að hann hefði smakkað áfengi í fyrsta sinn á ævinni eftir sigurinn í oddaleiknum.
Williams grínaðist með það að hann mundi eiginlega ekkert eftir fjörinu í klefanum. „Þetta er eiginlega allt í móðu. Ég var nefnilega að fá minn fyrsta drykk á ævinni og er bara að vinna úr því,“ sagði Jalen Williams hlæjandi.
Williams hefur augljóslega lagt allt sitt í það að vera góður í körfubolta og vinnusemi hans er áberandi í tölfræði hans á ferlinum.
Hann hefur hækkað stigaskor sitt á hverju ári, skoraði 14,1 stig í leik fyrsta tímabilið, 19,1 stig í leik í fyrra og í vetur skoraði hann 21,6 stig í leik. Hann hefur einnig hækkað stoðsendingarnar sínar á hverju tímabili, en þær fóru úr 3,3 í leik í 4,5 í leik og voru síðan 5,1 í leik í vetur.
Williams var ekki sá eini í liðinu sem var reynslulítill í meðferð áfengis. Hann og liðsfélagarnir áttu í miklum vandræðum með að opna kampavínsflöskurnar fyrir fögnuðinn inn í klefa.