Magdeburg vann 35-27 sigur á Flensburg-Handewitt eftir að hafa verið 17-12 yfir í hálfleik.
Ómar Ingi Magnússon var með fjögur mörk og tvær stoðsendingar en Gísli Þorgeir Kristjánsson gat ekki spilað vegna axlarmeiðsla sinna á dögunum. Philipp Weber var markahæstur með sjö mörk og Tim Hornke skoraði sex mörk.
Sigurinn skilar Magdeburg upp í 55 stig og einu stigi upp fyrir Füchse Berlin. Berlínarliðið á þó leik inni og gæti því endurheimt toppsætið fyrir lokaumferðina. Það stefnir hins vegar í æsispennandi lokaumferð um næstu helgi.
Þetta var þrettándi deildarsigur Magdeburg í röð en liðið hefur unnið alla deildarleiki sína frá 21. mars.
Annað Íslendingalið missteig sig í toppbaráttunni því Melsungen gerði 26-26 jafntefli á heimavelli á móti Lemgo. Melsungen er því bara með 53 stig fyrir lokaumferðina.
Elvar Örn Jónsson var með fjögur mörk og fjórar stoðsendingar í leiknum en Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað.