Handbolti

Haukakonur í loka­úr­slitin á móti Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst hjá Haukum í kvöld.
Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst hjá Haukum í kvöld. vísir/Hulda Margrét

Haukar tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í Olís deild kvenna í handbolta.

Haukakonur unnu fjögurra marka sigur á Fram, 24-20, og undanúrslitaeinvígi liðanna þannig 3-1. Haukar mæta Val í lokaúrslitunum.

Haukar unnu tvo fyrstu leikina þar af leik eitt með tólf marka mun. Framkonur minnkuðu muninn í leik þrjú en tókst ekki að tryggja sér oddaleik í kvöld.

Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Haukaliðið og Sonja Lind Sigsteinsdóttir var með fimm mörk. Rut Jónsdóttir skoraði kannski bara tvö mörk en hún átti fjórtán stoðsendingar.

Valgerður Arnalds var langatkvæðamest hjá Fram með níu mörk en Alfa Brá Hagalín skoraði fjögur mörk

Haukakonur byrjuðu leikinn vel, komust í 3-1, 5-3 og voru 8-4 yfir um miðjan fyrri hálfleikinn.

Framkonur unnu hins vegar lokakafla fyrri hálfleiksins 5-1 og náðu að jafna metin í 10-10 fyrir hálfleikshlé.

Haukakonur náðu aftur frumkvæðinu í seinni hálfleik og unnu að lokum sannfærandi sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×