Upp­gjörið: Njarð­vík - Haukar 72-90 | Haukar einu skrefi frá Íslandsmeistaratitlinum

Árni Jóhannsson skrifar
Haukar - Njarðvík Bónus Deild Kvenna Vor 2025
Haukar - Njarðvík Bónus Deild Kvenna Vor 2025 vísir/Diego

Haukar tóku Njarðvíkinga í kennslustundí seinni hálfleik þegar þær unnu sannfærandi 18 stiga sigur í öðrum leik úrslita Bónus deildar kvenna í Icemar höllinni í kvöld. Leikar enduðu 72-90 en Njarðvík var með forskot í hálfleik.

Haukar voru fljótari úr startblokkunum í kvöld og skoruðu fyrstu tvær körfur kvöldsins en það voru þriggja stiga körfur og staðan 0-6 á fyrstu mínútunni. Haukar hittu svo mjög illa úr þriggja stiga skotum sínum í fyrri hálfleik og Njarðvík náði að finna svör á varnarleik þeirra, hala Hauka inn og taka völdin á leiknum í fyrsta leikhluta. Staðan 22-19 eftir fyrstu tíu mínúturnar og Njarðvíkingar litu mjög vel út.

Í öðrum leikhluta stigu heimakonur fastar á bensíngjöfina og opnuðu mest 12 stiga forskto í stöðunni 25-19 og eftir það jafnaðist leikurinn út án þess að Haukar næðu að naga niður forskotið. Það hélst út þangað til að um fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þá voru það Haukar sem stigu á sína bensíngjöf á meðan Njarðvík setti í hlutlausan. Tapaðir boltar, skotklukku bras og 7-0 sprettur gerði það að verkum að Haukar jöfnuðu metin, 34-34, en Njarðvík náði að bregðast við og fara með 41-38 forskot inn í hálfleikinn en tónninn hafði verið settur.

Haukar mættu brjálaðar út í seinni hálfleikinn. Gjörsamlega læstu öllum leiðum að körfunni sinni og allt varð verulega erfitt fyrir Njarðvík. Eftir því sem töpuðu boltunum fjölgaði hvarf loftið úr Njarðvíkingum og ráðaleysið varð algjört í sóknarleik heimakvenna. Það fór að Haukar unnu leikhlutann 7-19 og eftir á að hyggja kláraðist leikurinn þarna en staðan var 48-57 að honum loknum.

Í fjórða leikhluta mættu þriggja stiga skotin aftur hjá Haukum og það var ekki það sem læknirinn pantaði hjá Njarðvíkingum. Heimakonur héldu áfram að tapa boltunum og Haukar gengu enn lengra á lagið og gengu frá leiknum. Ráðaleysið var algjört í sóknarleik Njarðvíkinga var algjört og þegar það komu körfur gátu þær ekki stoppað og þegar stoppin komu þá komu körfurnar ekki. Haukar sigldu leiknum heim og bættu í undir lokin til að tryggja 72-90 sannfærandi sigur. Næsta vers er þá leikur á miðvikudaginn og Haukar fá tækifæri til að tryggja Íslandsmeistaratitilinn.

Atvik leiksins

Það má segja að þriðji leikhlutinn allur hafi verið atvik leiksins. Haukar héldu áfram góðu gengi frá lokum fyrri hálfleiksins og gjörsamlega gengu frá leiknum. Þær pressuðu Njarðvíkinga alveg upp að veggnum fræga og unnu leikhlutann 7-19.

Stjörnur og skúrkar

Það eru margar stjörnurnar í liði Hauka í kvöld og lögðu margar lóð á vogaskálarnar. Fjórir byrjunarliðsleikmenn fóru yfir 10 stig og 25 stig komu af bekknum frá þremur leikmönnum. Rósa Björk leiddi leiðina varnarlega og Lore Devos var stigahæst með 18 stig.

Brittany Dinkins náði sér ekki á strik, aftur, í kvöld og lauk leik með 15 stig en Paulina Hersler var stigahæst með 25 stig.

Umgjörð og stemmning

Umgjörðin í Njarðvík frábær og stemmningin var sömuleiðis frábær. Fullt hús og báða fylkingar létu vel í sér heyra allan tímann. 

Dómarar

Voru með fín tök á þessum leik. Haukar kvörtuðu oft sáran fyrir fjölda villa og kannski misræmi en þær spila hart og ekki skrýtið að þær voru með leikmenn í villuvandræaðum. Ekkert samt út á þá herramenn að setja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira